fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Kerfisbundinn þjófnaður á krám í miðbæ Reykjavíkur

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 29. mars 2020 17:00

Úr miðbæ Reykjavíkur

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Farsímar í dag, þeir nýjustu og flottustu, geta kostað á þriðja hundrað þúsund krónur. Um mikil verðmæti er því að ræða. Farsíminn er einnig aukahlutur sem fáir leggja frá sér sjálfviljugir og margir sem hafa símann innan seilingar, allt frá því að þeir fara á fætur og þar til þeir fara að sofa. Þar sem um mikil verðmæti er að ræða, sem fólk er oftast með í fórum sínum á almannafæri og mannamótum, er að sama skapi nokkuð mikið um að símum sé stolið.

Fyrir fingralanga er miðbærinn sérstaklega vinsæll vettvangur til afbrota, þar er fólk oft annars hugar sökum hávaða, mannmergðar og um helgar eru margir með skerta athygli vegna áfengisneyslu. Það er því líklega ekki að furða að margir Íslendingar hafi lent í því að verðmætum eigum, einkum farsímum, hafi verið stolið af þeim í miðbænum.

Síminn sendur úr landi

Samkvæmt heimildum DV er talið að gert sé kerfisbundið út á þjófnað af þessu tagi.  Hann sé stundaður til að komast yfir síma og senda þá úr landi. Samkvæmt heimildum DV lentu tvær stúlkur í því með skömmu millibili að símum þeirra var stolið á skemmtistaðnum B5. Annar þeirra fannst með aðstoð staðsetningarforrits, en hinn reyndist kominn úr landi aðeins nokkrum dögum síðar.

Staðurinn B5 virðist vera sérstaklega vinsæll staður fyrir fingralanga og hefur verið um árabil. Fyrir nokkrum árum var greint frá því í fjölmiðlum að 12 einstaklingar lentu í því þar, sama kvöldið, að símum þeirra var stolið og samkvæmt heimildum blaðamanns er enn mikið um að rándýrir símar hverfi þaðan.

Inni á kvennahópnum Beautytips á Facebook er algengt að sjá konur lýsa eftir símum sínum sem óprúttnir aðilar hafa tekið ófrjálsri hendi. Í óformlegri fyrirspurn blaðamanns inni í hópnum lýstu margar því yfir að þær hefðu orðið fórnarlömb þjófa þegar þær skemmtu sér í miðbænum. Var símum þeirra jafnvel stolið úr lokuðum veskjum eða renndum vösum og þótt margar greindu frá slíkum þjófnaði á sömu skemmtistöðunum virtust brotin eiga sér stað víðs vegar um bæinn.

Tilkynnt brot

DV spurði lögreglu um tíðni tilkynntra brota þar sem grunur léki á þjófnaði á veitinga- og skemmtistöðum. Í svari lögreglu segir: „Meðfylgjandi tafla sýnir fjölda tilvika á höfuðborgarsvæðinu þar sem tilkynnt er um þjófnað á gsm síma eða öðrum munum á veitinga- og/eða skemmtistöðum. Í einhverjum tilvikum getur verið að um sé að ræða þjófnað frá staðnum en í flestum tilvikum er um að ræða þjófnað frá einstaklingum sem eru að heimsækja staðina. Ekki er hægt að veita upplýsingar eftir stöðum.“

 

Raunverulegur fjöldi brota gæti þó verið minni þar sem í einhverjum tilvikum gætu þolendur þjófnaðar talið að þeir hefðu hreinlega týnt eigum sínum, fremur en að þeim hafi verið stolið. Enda viljum við flest trúa á hið góða í samfélaginu.

Í skýrslu Ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi, sem kom út í maí í fyrra, kemur fram að farandbrotahópar erlendra aðila hafi ítrekað komið til landsins á síðustu árum gagngert í þeim tilgangi að leggja stund á innbrot og þjófnað. Nokkrir af þeim aðilum sem DV ræddi við vegna málsins könnuðust við að þjófnaður á símum þeirra hefði verið rekinn til erlendra aðila og að þeir hefðu fengið þær upplýsingar frá lögreglu að líklega væri um skipulögð brot að ræða.

Gætum eigna okkar

Það er því full ástæða til að gæta vel eigna sinna í miðbænum. Vasaþjófar eru margir leiknir í því að komast ofan í vasa og töskur, en oft gerist þess ekki þörf þar sem yfirhafnir og töskur eru oft skildar eftir eftirlitslausar á meðan eigendur skemmta sér. Förum varlega og pössum upp á eigur okkar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu deildi fyrir nokkrum árum þessum góðu ráðum til að hafa í huga á djamminu. „Gott er að geyma síma á öruggum stað, sérstaklega þegar verið er að heimsækja veitingastaði eða skemmtistaði en geyma síma ekki á borðum, í opnum töskum eða í opnum vösum yfirhafna.

Að sama skapi eru ýmis forrit í boði, annaðhvort frá framleiðendum eða öðrum aðilum, sem geta til dæmis sýnt hvar tæki er, tekið mynd af þeim sem reynir að opna tækið og slær inn rangt lykilorð og margt fleira. Við hvetjum fólk að sama skapi til að vera með síma sína læsta með lykilorði.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“