fbpx
Þriðjudagur 26.maí 2020
Fréttir

Útgöngubann í Paradís – „Þetta er  hundleiðinlegt til lengdar“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 28. mars 2020 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Kristjánsdóttir vélstjóri er orðin lesendum DV vel kunn. Hún flutti til Tenerife síðasta haust og hefur haldið úti vinsælum pistlum á Facebook um dvöl sína í ParadísCOVID-19 faraldurinn hefur nú varpað skugga á lífið í paradís og ríkir útgöngubann á eyjunni fögru til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Pistlaskrif í útgöngubanni

Anna hefur haldið fylgjendum sínum upplýstum um lífið í útgöngubanni af mikilli orðfimi.

„Dagur 222 og dagur 10 í einangrun.

Ég fór í búð í gær, hafði heyrt af nýjum kröfum um andlitsgrímur fyrir vitunum og því bjó ég mig eins og sögur sögðu að ég ætti að búa mig, klippti skálm af gömlum buxum og setti fyrir vitin.

Svo mætti ég í búðina. Öryggisvörðurinn horfði á mig stórum augum og benti mér á að sækja mér nýja latexhanska, litur dagsins var víst blár og hleypti mér síðan inn í búðina.

Mér leið eins og ég get ímyndað mér einmana bankaræningja, var ein í búðinni með grímu fyrir andlitinu.“

Hún kveðst í pistlum sínum ekki endilega vera ósátt við einangrunina, enda séu aðgerðirnar skiljanlegar í ljósi þess fordæmalausa faraldurs sem Evrópa stendur frammi fyrir.

Ég reyni að láta ástandið ekkert fara of mikið í taugarnar á mér. Þetta er kannski ekkert öðruvísi en stuttur túr á frystitogara, þá miðað við að einangrunin verði framlengd einu sinni og verði fjórar vikur. Það er allavega enginn veltingur hérna og ég kemst að auki í búðina og get fyllt á birgðirnar af klósettpappír og bjór. Að vísu sá ég danska hryllingsmynd um krónuveiruna á RÚV í gærkvöldi. Þetta var svona álíka uppbyggjandi eins og að hlusta á ónefnda útvarpsstýru tala um sömu hluti á annarri útvarpsstöð. Má ég þá heldur biðja um spænska útgáfu af Latabæ með Stefáni Karli heitnum.

Svo er ég viss um að það sé ekkert verra að vera í sóttkví í Paradís en á Íslandi. Ég hefi allavega sól allan daginn og inn á svalirnar í fjóra tíma á dag þótt sundlaugarbakkinn sé lokaður með lögregluvaldi. Ef allt færi til fjandans og ég hrykki upp af hvort heldur af áfengiseitrun eða krónuvírus er örugglega betra að henda öskunni af mér í sjóinn nærri Paradís. En ég viðurkenni alveg að ég sakna þess að sjá ekki lengur fallega fólkið streyma niður að ströndinni á morgnanna á sama tíma og ég drekk morgunkaffið á svölunum.“

Mun harðari aðgerðir en á Íslandi

DV hafði samband við Önnu og spurði um stöðuna. Hún segir reglurnar og eftirfylgnina með þeim vera töluvert harðari á Tenerife en á Íslandi.

„Reglurnar eru mun harðari en á Íslandi. Það ríkir útgöngubann. Her og lögregla gæta þess að enginn sé á ferli að óþörfu. Búið að loka öllum hótelum og veitingastöðum sem ekki senda mat heim. Fólk má fara í búðina, í apótekið og til læknis sem og fara í hraðbanka,“ segir Anna. Utan þessa fær fólk lítið að fara út úr húsi. „Ég má ekki heimsækja fólk í næsta húsi en fólk má mæta til vinnu.“

Hún segir ástandið þó vissulega þreytandi. „Þetta er  hundleiðinlegt til lengdar. Það er þegar búið að framlengja bannið fram yfir páska. Það einasta sem fólk getur gert sér og öðrum til skemmtunar er að klukkan 19.00 fara margir út á svalir og klappa fyrir heilbrigðisstarfsfólki.“

Spurð hvernig andinn sé í Íslendingasamfélaginu þarna úti segir Anna að það sé erfitt að meta. „Þar sem engin bein samskipti eru á milli fólks öðruvísi en í gegnum síma eða á netinu get ég ekki svarað miklu um það enda flestir farnir heim sem ekki búa hér.“

Verður þetta ekkert einmanalegt? 

„Það fer að verða það, en samt, það er til sími og netið er notað á fullu. Það eru mjög margir staðir lokaðir á þessu svæði. Þar sem allt gengur út á túrismann er allt steindautt. Ég hef ekki farið út á Amerísku ströndina síðan allt lokaðist en get ekki ímyndað mér að þar sjáist lifandi sála. Hér er þó slatti af íbúum. Það verður gaman þegar allt opnast aftur.“

Pistlaskrif Önnu hafa sannarlega vakið mikla athygli og hafa fjölmiðlar gripið gullgæsina og deilt þeim með lesendum sínum. Anna hefur nú hafið formlegt samstarf við Mannlíf sem mun framvegis birta pistla hennar, þar sem hún mun án efa halda áfram að greina listilega frá dvöl sinni og, um þessar mundir, einangrun í Paradís.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Tjaldferðalag unglinga breyttist í martröð á Selfossi – „Þau voru grátandi inni í tjaldi, umkringd þessu ógeði“

Tjaldferðalag unglinga breyttist í martröð á Selfossi – „Þau voru grátandi inni í tjaldi, umkringd þessu ógeði“
Fréttir
Í gær

Gyða vissi ekki af réttarhöldunum – Hefur fengið hótanir

Gyða vissi ekki af réttarhöldunum – Hefur fengið hótanir
Fréttir
Í gær

Lögreglumenn urðu fyrir ofbeldi

Lögreglumenn urðu fyrir ofbeldi
Fréttir
Í gær

Í þrjár vikur fékk fólk færri hjartaáföll

Í þrjár vikur fékk fólk færri hjartaáföll
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Huginn vinnur mál – Var kallaður „mikill viðbjóður“ og „sækó“

Huginn vinnur mál – Var kallaður „mikill viðbjóður“ og „sækó“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Líklega dýrasta gisting á landinu

Líklega dýrasta gisting á landinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sjáðu listann í heild sinni – Þessi fyrirtæki nýta sér hlutabótaleiðina

Sjáðu listann í heild sinni – Þessi fyrirtæki nýta sér hlutabótaleiðina
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ólga í Vesturbæ útaf hundapissi – Blóðug forsaga – „Ég hef líklega kallað það yfir mig“

Ólga í Vesturbæ útaf hundapissi – Blóðug forsaga – „Ég hef líklega kallað það yfir mig“