fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Daniel ósáttur við linar aðgerðir gegn COVID-19: „Á Alþingi er fólk sem hefur hagsmuna að gæta í ferðaþjónustunni“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 19. mars 2020 17:00

Mynd: Einar Snorri & Eidur Snorri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daniel Leeb er Bandaríkjamaður, búsettur á Íslandi.Hann hefur unnið í íslensku ferðaþjónustunni undanfarin þrjú ár, sem ljósmyndari, kvikmyndagerðarmaður og leiðsögumaður. Hann hefur unnið með mörgum stórfyrirtækjum við að þróa og útfæra skoðunarferðir fyrir stóra og smáa ferðahópa á Íslandi.

Daniel er afar ósáttur við þær meintu linu aðgerðir sem hann telur að yfirvöld almannavarna hafi gripið til varðandi innstreymi erlendra ferðamanna í landið. Sóttvarnalæknir hefur sagt að það þjóni ekki tilgangi að setja erlenda ferðamenn í sóttkví þar sem þeir séu ekki í snertingu við viðkvæma hópa hérlendis.

Daniel segir hins vegar: „Það dó hérna ferðamaður. Hann og kona hans höfðu verið á ferðalagi um landið og þau voru bæði smituð af kórónuveirunni. Það er mjög sorglegt að þessi maður sé dáinn en það er fullkomið aukaatriði að hann kunni að hafa dáið af öðrum orsökum en COVID-19. Aðalatriðið er að hann fór um landið og breiddi hugsanlega út smit.“

Daniel er ómyrkur í máli í samtali við DV: „Það geta bara verið þrjár ástæður fyrir því að yfirvöld almannavarna hafa gefið út svona linkulegar leiðbeiningar til ferðaþjónustunnar í stað þess að beita hörðum reglum. Það gæti verið fáfræði, það gæti verið afneitun eða ástæðan gæti verið sú að það sé verið að taka skammtímahagsmuni fram yfir lýðheilsuhagsmuni til lengri tíma. Á Alþingi er fólk sem hefur hagsmuna að gæta í ferðaþjónustunni og það er bara staðreynd,“ segir Daniel og telur að það hefði átt að grípa til miklu harðari aðgerða til að hefta för ferðamanna hingað til lands – og gera það miklu fyrr.

„Það er verið að loka landamærum út um allan heim og það skiptir engu máli héðan af hvort Ísland lokar sínum landamærum eða ekki. Þetta snýst ekki um að hrópa að húsið brenni eftir að það er kviknað í heldur að benda á að húsið gæti brunnið og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða vegna þess þremur vikum áður.“

Daniel vonar innilega að allt fari á besta veg. „Ísland gæti sloppið með skrekkinn og ég vona svo sannarlega að það verði niðurstaðan. En það er algjör óþarfi að hlaupa í skotlínuna og vona að allt reddist.“

Samkvæmt spá reiknimeistara fyrir Landlækni má vænta þess að útbreiðsla veirunnar nái hámarki um miðjan apríl og að þá verði á bilinu 40 til 110 á sjúkrahúsi og innan við 30 manns í gjörgæslu. „Innviðir heilbrigðiskerfisins hér eru viðkvæmir fyrir og þola alls ekki verstu sviðsmyndina,“ segir Daniel.

„Ég elska þetta land, á íslenska konu og 9 ára gamalt íslenskt barn; vinir mínir og samstarfsfélagar eru íslenskir. Mér finnst að yfirvöld hefðu getað gert meira síðustu vikur til að vernda alla og það er engin ástæða til að erlendir ferðamenn sem ferðast um landið eigi að fá aðra meðferð en heimamenn, og setja þar með alla í aukna hættu.

Ég vona innilega að allt fari á besta veg. Ferðaþjónustan er að lamast um allan heim en það sem gefur Íslandi sérstöðu er að engin grein vegur þyngra í vergri þjóðarframleiðslu en ferðaþjónustan. Það er fráleitt að ætlast til þess að ferðaþjónustufyrirtækin sjálf setji sér strangar reglur. Reglurnar verða að koma frá þar til bærum yfirvöldum því hlutverk fyrirtækjanna er að afla eins mikilla tekna og þau geta.“

Daniel hefur tjáð sig um meinta linku yfirvalda í grein á Facebook sem hefur vakið mikla athygli. „Ég átti í tölvupóstsamskiptum við Landlækni og þau þau samskipti fóru bara í hring. Það má segja að ég hafi rekist á vegg. Það varð til þess að ég skrifaði þessa grein,“ segir Daniel en grein hans og umræður um hana má lesa með því að smella hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt