fbpx
Þriðjudagur 14.júlí 2020
Fréttir

„Þetta er alls ekki gert til þess að skrímslavæða ofbeldismenn, heldur þvert á móti“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 9. febrúar 2020 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega var gefin út skýrslan „Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónuleikaeinkenni ofbeldismanna“ sem Kvennaathvarfið vann sem fræðsluefni til að nýta til stuðnings við þolendur heimilisofbeldis og aðstandendur þeirra. Alls bárust svör frá 326 konum. Af þeim höfðu 202 reynslu af ofbeldissambandi. Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu, vann rannsóknina og kynnti hana á málþingi Stígamóta í lok janúar.

Sama sagan 

„Okkur hjá Kvennaathvarfinu fannst við oft heyra sömu söguna frá þeim sem leita til Kvennaathvarfsins,“ segir Drífa í samtali við DV. Hún segir þolendur heimilisofbeldis oft lýsa svipuðum einkennum ofbeldissambanda. Í byrjun sé allt frábært. Makar þeirra komi fram við þær sem drottningar, stilli þeim upp á stall og allt sé frábært. Síðan með tímanum fari gljáinn af sambandinu þegar ofbeldið hefst.

Stjórnsamir, afbrýðisamir og tortryggnir

Drífa segir rannsóknina ekki miða að því að búa til einhvern einkennalista til að hjálpa fólki að greina ofbeldismenn í umhverfi sínu. „Þetta er alls ekki gert til þess að skrímslavæða ofbeldismenn, heldur þvert á móti.“ Það séu þó viss persónueinkenni sem komi oftar fyrir í frásögnum þolenda heimilisofbeldis en önnur. Þeirra á meðal er stjórnsemi, afbrýðisemi og tortryggni.

 

Þær konur sem ekki höfðu reynslu af ofbeldissambandi voru líklegri til að nefna önnur atriði undir liðnum „neikvæð atriði sem lýsa honum best.“ Þar voru nefnd persónueinkenni á borð við lítið sjálfstraust, þrjósku, óstundvísi og leti. „Þetta eru aðeins krúttlegri eiginleikar en að vera stjórnsamur og trylltur.“

Drífa bendir þó á að þessi listi yfir einkenni veiti enga leiðbeiningu við að bera kennsl á ofbeldismenn í samfélaginu, enda geti menn verið tortryggnir að eðlisfari en samt ekki ofbeldismenn.

Taka ekki ábyrgð á ofbeldinu

„Fólk tengir sig ekki við þetta því steríótýpan af ofbeldismanni er eitthvert skrímsli. En raunveruleikinn er að þetta eru venjulegir, jakkafataklæddir karlmenn sem vinna í Borgartúninu, inni á leikskólum, eru stuðningsfulltrúar á geðsjúkrahúsum. Þetta eru alls konar menn.“

Drífa Jónasdóttir, afbrotafræðingur og verkefnastýra hjá Kvennaathvarfinu

Í rannsókn sem gerð var á Íslandi kom á daginn að ofbeldismenn eru bara hinir venjulegu, hversdagslegu, íslensku karlmenn. „Kom í ljós að karlar sem eru gerendur ofbeldis og senda konur í kvennatthvarfið, vinnan þeirra og menntun þeirra er nákvæmlega sú sama og fyrir meðalkarlmanninn á Íslandi. Þeir eru ekki minna eða meira menntaðir eða í verri félagslegri stöðu. Þetta er nákvæmlega eins. Þetta eru venjulegir menn sem sækja börnin sín í leikskólann og kaupa sér kjötfars í Melabúðinni. Þetta eru ekki tattúveraðir handrukkarar af erlendum uppruna. Um 71 prósent af þeim karlmönnum sem sendu konur í kvennaathvarfið í fyrra eru íslenskir menn.“

Drífa segir það algengan misskilning að ofbeldismenn séu siðblindingjar sem séu haldnir alvarlegum geðveilum. Þvert á móti séu það hreinlega ekki nægilega margir karlmenn sem glími við slíka klíníska kvilla til að það geti svarað til fjölda þolenda heimilisofbeldis á Íslandi.

„Það er engan veginn að samsvara þeim 700 málum sem lögreglan fer með á ári, það voru 600 sem leituðu í Bjarkarhlíð á síðasta ári, það voru næstum því 300 konur sem komu í viðtal á Kvennaathvarfinu á síðasta ári, 150 sem komu í dvöl og 100 börn.“

Afsakanir til að sleppa við að taka ábyrgð á ofbeldinu

Þátttakendur í rannsókninni með reynslu af heimilisofbeldi greindu frá þeim afsökunum sem þeirra ofbeldismenn höfðu gefið fyrir ofbeldinu. Greindu þar margar konur frá áþekkum afsökunum. Var þeim með einum eða öðrum hætti kennt um ofbeldið sem þær voru beittar, svo sem vegna þess að þær væru geðveikar, leiðinlegar, þær hafi beðið um þetta, þetta sé eina leiðin til að fá þær til að hlusta og þar fram eftir götum. Einnig hlupust ofbeldismenn undan ábyrgð með því að kenna streitu, álagi, uppeldi og áfengis- eða fíkniefnaneyslu um ofbeldið.

„Þarna er líka þessi þversögn. Ef ég kýli þig og segi svo: „Já, en þú ert svo óþolandi að ég bara réð ekki við mig. En ég lofa að gera þetta ekki aftur.“ Hvernig geta þeir lofað því að gera ekki eitthvað aftur, en á sama tíma neitað því að þetta hafi verið þeim að kenna? Og svo er það frasinn „að missa stjórn á sér“ sem mér er meinilla við. Þetta er ekki flogakast eða viðbrögð við raflosti eða þess konar. Annað er að taka ákvörðun um að gera eitthvað. Að taka upp stól og henda í konuna, eða halda henni niðri og setja hnéð í bringuna á henni eins og MMA-bardagaíþróttamaður. Þessir sömu menn tryllast ekki í kringum vini sína, þegar þeim gengur illa í gólfi. Þetta er svona valkvætt stjórnleysi. Ég veit um dæmi þess að lögregla var kölluð út í heimilisofbeldismáli þar sem fullt af eigum hafði verið eyðilagt þegar maður „missti stjórn á sér“, samt voru allir hlutirnir sem voru eyðilagðir hennar en ekki hans. Maðurinn gat því valið út tilteknar eigur og hlíft sínum eigin í meintu stjórnleysi. Þú kýlir ekki fólk í gagnaugað óvart. Ég hef aldrei lent í því að minnsta kosti.“

Þurftu að ákveða sjálfar að fara

Þátttakendur voru einnig spurðir hvort aðstandendur eða fagaðilar hefðu getað gert eitthvað til að stuðla að því að þær færu fyrr úr sambandinu. Voru þar margar konur sem greindu frá því að þær hefðu falið ofbeldið vel, þær hefðu farið í vörn ef ofbeldið var borið undir þær og á endanum hefðu þær sjálfar þurft að taka ákvörðun um að fara. Aðrar hins vegar bentu á að nærumhverfi þeirra hefði mátt benda þeim á aðstæður, bjóða fram stuðning og minna þær á að þær væru ekki geðveikar og ættu betra skilið. Drífa segir að dropinn holi svolítið steininn í þessum málum. Þótt það sé ákvörðun þolandans að ganga út úr sambandinu þá geti aðstandendur sáð vissum fræjum með því að viðra áhyggjur sínar.

„Ég held að maður komist á þennan blessaða botn fyrr ef það er einhver að pexa aðeins í manni. Þá veit manneskjan líka að einhvern grunar eitthvað og það sé ekki bara hún sem sé með eitthvert ofsóknarbrjálæði.“

Vona að skýrslan geti frætt og hjálpað

Með útgáfu skýrslunnar vonar Drífa að þolendur og aðstandendur geti aflað sér upplýsinga um heimilisofbeldi. Skýrslan er sett fram á því sem Drífa vonar að sé aðgengilegt mannamál.

„Við reyndum að hafa hana á mannamáli, aðgengilega og auðlesna og vonandi fræðandi. Vonandi lesa hana einhverjir sem geta þá haft samband við athvarfið og fengið ráðgjöf um að stíga fyrstu skrefin til að koma sér út úr sambandinu.“

Kvennaathvarfið skýtur ekki bara skjólshúsi yfir þolendur heimilisofbeldis þegar þeir flýja ofbeldið. „Eitt af hlutverkum athvarfsins er að fá fólk í ráðgjöf. Konur koma og eru að spyrja hvort þær séu í ofbeldissambandi. Þær eru kannski mjög hikandi, en fara svo að greina frá aðstæðum sem eru ekkert eðlilegar. Konum er alltaf í sjálfsvald sett hvað þær gera. En hingað geta þær komið og greint frá aðstæðum og fengið heildrænan stuðning og þá fyrst og fremst staðfestingu á ofbeldinu. Á vefsíðu Kvennaathvarfsins er hægt að nálgast mikið af upplýsingum á níu tungumálum. Svo sem um skilgreiningu á ofbeldi. Hvernig það sé að koma í viðtal. Það þarf ekki að koma með vegabréf og það þarf ekkert að greiða fyrir heimsóknina. Þarna er mikið af upplýsingum líka varðandi aðstæður þar sem börn eru í spilinu sem og útlistun á því hvað sé heilbrigt samband og hvað sé það ekki.“

Með þessari grein má líta súlurit og dæmi um svör þátttakenda við nokkrum spurningum. Skýrsluna má svo lesa í heild sinni á vefsíðu Kvennaathvarfsins.

 Dæmi um afsakanir ofbeldismanna fyrir ofbeldinu:

 • Hann hefur ekki stjórn á sér
 • Ég gerði hann reiðan
 • „Þú ert svo leiðinleg“
 • „Þú ert bara of viðkvæm“
 • „Þú lést mig gera þetta“
 • „Það var þér að kenna“
 • Hann fékk svo slæmt uppeldi
 • Allir eru svo vondir við hann
 • Ég var að misskilja
 • „Ef þú létir ekki svona“
 • Hann elskaði mig svo mikið
 • „Þú ert ekkert betri“
 • Ég var geðveik
 • Var fullur
 • Hann var undir miklu álagi
 • Hann missti stjórn á sér
 • „Ég bara veit ekki hvað ég er sterkur“

 

Hvað myndir þú ráðleggja konum sem eru í ofbeldissambandi til að komast út úr því? -Dæmi um svör kvenna í rannsókninni. 

 • Segja frá.
 • Leita í Kvennaathvarfið, finna samstöðu
 • Tryggja líkamlegt öryggi. Rjúfðu einangrunina, segðu frá, lestu þér til, leitaðu til annara. Þú ert ekki geðveik.
 • Að það er betra að vera einn en að vera í ofbeldissambandi
 • Það er honum að kenna en ekki þér ef hann beitir ofbeldi. Það er ekki hægt að hjálpa þeim sem vill ekki hjálp, það er ómögulegt fyrir þig að breyta honum. Þú þarft að stíga frá og vinna í þinni hamingju. Þú ert ekki búin að brenna allar brýr að baki, þú ert ekki ein
 • Það er alltaf leið út. Taka fyrsta skrefið.
 • Maður breytir ekki öðrum.
 • Standa með sjálfum sér, þetta lagast aldrei. Aldrei líta til baka
 • Undirbúðu þig vel. Jafnvel fara út úr bænum. Ekki hafa nein samskipti. Þú ert ekki ein, ekki skammast þín, fyrirgefðu sjálfri þér, þetta er ekki þér að kenna, þetta verður erfitt, þetta getur komið fyrir alla, þú átt stuðning, fáðu alla aðstoð, þú átt allt gott skilið (þó þér liði ekki þannig) þú getur þetta, þú getur farið og þú mátt það, þú skiptir mál
 • Ekki týna sjálfri þér. Eins hefði ég viljað fá að vita það á skýrari hátt hve algengt er að menn noti hótanir um sjálfskaða til kúgunar
 • Hélt ég gæti þetta ekki án hans, fjárhagslega. Kom reyndar í ljós að ég hef það miklu betra, meðal annars fjárhagslega, án hans.
 • Ekkert er eins áhrifaríkt og höfnun, hann hafnaði mér stöðugt þannig að ég reyndi alltaf að vinna hann aftur og fá viðurkenninguna að einhver vill mig. Viðurkenningin síðan blindaði mig. Vinkonur mínar fíluðu hann ekki, ég var mjög þrjósk en þegar þær hættu að ergja sig á „mínu vali“ þá fóru að renna á mig tvær grímur – þær höfðu rétt fyrir sér. Það var mjög erfitt að sætta sig við að þurfa að kyngja því. Mér fannst erfitt að stíga skrefið því hann beitti mig „bara“ andlegu og fjárhagslegu ofbeldi. En, ég var alltaf með litla rödd sem hvíslaði að ég ætti betra skilið. Líf með ofbeldismanni er svo ýkt og öfgafullt, þegar maður hættir með honum gæti komið tilfinning flatneskju og tómleika, litlaust og líflaust. Það er eðlileg tilfinning. Best er að segja vini eða ættingja frá hvernig manni líður, veldu bara einhvern sem þú treystir. Hlustaðu á þínar tilfinningar, hugsanir og treystu sjálfri þér.

 

Af hverju féllstu fyrir honum?
Dæmi um svör þátttakenda sem höfðu reynslu af heimilisofbeldi

 

 • Hann sagði það sem ég vildi heyra og var heillandi
 • Hann var fyndinn, aðlaðandi og góður
 • Hann var vel lesinn og gagnrýninn á samfélagið, vissi mikið um femínisma
 • Hann var opinn, brosmildur og ég var sú eina sem hann sá.
 • Vinsæll og góður, þegar við kynntumst. Mér fannst hann þurfa mig.
 • Skemmtilegur, vinsæll, hlýr, yfirvegaður.
 • Hann elti mig þar til ég gafst upp. Ég var viðkvæm fyrir.
 • Mjög gaman að vera með honum. Kom fram við mig eins og drottningu, sem var allt öðruvísi en ég var vön.
 • Ótrúlega skemmtilegur og góður við mig, í byrjun.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

„Miklu verra að segjast vera hægri sinnaður heldur en hommi“

„Miklu verra að segjast vera hægri sinnaður heldur en hommi“
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fangaverðir mótmæla lokun fangelsisins á Akureyri

Fangaverðir mótmæla lokun fangelsisins á Akureyri
Fréttir
Í gær

Bjarni er áhyggjufullur vegna spennistöðvar sem er að rísa beint fyrir utan svefnherbergisgluggann hans

Bjarni er áhyggjufullur vegna spennistöðvar sem er að rísa beint fyrir utan svefnherbergisgluggann hans
Fréttir
Í gær

Mikil ólga Í Grindavík vegna birtingar ofbeldismyndbands

Mikil ólga Í Grindavík vegna birtingar ofbeldismyndbands
Fréttir
Í gær

Héraðssaksóknari leitar að manni sem sagður er hafa ráðist á lögreglumenn

Héraðssaksóknari leitar að manni sem sagður er hafa ráðist á lögreglumenn
Fréttir
Í gær

Mótmæla lokun og segja rök Áslaugar ekki halda vatni

Mótmæla lokun og segja rök Áslaugar ekki halda vatni