fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Börn sem fremja glæpi – „Yngsti mannræningi Íslandssögunnar“ – 15 ára á Litla-Hraun

Auður Ösp
Laugardaginn 29. febrúar 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórtán ára piltur í Kópavogi varð fyrir fólskulegri líkamsárás af hálfu unglingspilta á aldrinum 15 til 17 ára fyrr í þessum mánuði. Myndskeið af atvikinu sýnir piltana ráðast á fórnarlambið með höggum og spörkum. Fram hefur komið í fjölmiðlum að fórnarlambið sé af erlendum uppruna og telur telur faðir hans ekki útilokað að ástæða árásarinnar sé útlendingandúð. Myndskeið af árásinni hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum undanfarið og vakið mikinn óhug.

Meðferðarúrræði fyrir afbrotaunglinga eru af skornum skammti hérlendis. Seinustu áratugi hafa komið upp nokkur alvarleg hópárásarmál hér á landi þar sem gerendurnir og fórnarlömb eru ungmenni undir 18 ára aldri. Dæmi eru um að fórnarlömb sitji upp með varanlegan skaða og jafnvel örkuml.

Þetta er hluti af stærri umfjöllun í nýjasta helgarblaði DV.

„Iðrin lágu að einhverju leyti úti“

Í október 1970 varð 10 ára drengur í Keflavík fyrir árás þriggja jafnaldra sinna. Árásarpiltarnir stungu drenginn með hnífi. Í frétt Morgunblaðsins kom fram að gerendurnir hefðu verið „aðkomudrengir.“ Fórnarlambið var duglegur blaðsöludrengur í bænum og var ásetningur árásarpiltanna að hafa af honum peninga til að geta komist með rútunni heim til sín. Urðu þá sviptingar á milli þeirra sem enduðu með því að drengurinn varð fyrir hnífstungu. Í frétt Morgunblaðsins kom fram að drengurinn hefði hlotið „alvarlegan áverka á kviðarholi og lágu iðrin að einhverju leyti úti.“ Hann gekkst undir skurðaðgerð á Borgarspítalanum en á meðal innvortis meiðsla voru sár á lifur og maga.

15 ára gerandi

Fleiri tilfelli hafa komið upp hér á landi þar sem ungmenni hafa gerst sek um alvarlega ofbeldisglæpi og jafnvel manndráp. Árið 1987 var 15 ára piltur dæmdur í fjögurra ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa orðið jafnaldra sínum að bana fyrir utan unglingaskemmtistaðinn Villta tryllta Villa í Reykjavík. Átök urðu á milli þeirra tveggja sem enduðu með því að pilturinn dró upp vasahníf og stakk hinn piltinn í brjóstið. Í kjölfarið gaf hann sig sjálfur fram við lögreglu en hinn pilturinn lést af áverkum sínum skömmu síðar.

Þegar málið var tekið fyrir dóm var litið til þess að pilturinn hefði verið „ríflega“ 15 ára þegar hann framdi þennan hryllilega glæp. Dómurinn leit einnig til þess að pilturinn gaf sig fram við lögreglu þegar í stað og viðurkenndi brot sitt, auk þess sem verknaðurinn hafði verið framinn í mikilli geðshræringu. Tekið var mið af 75. gr. þar sem drengurinn sem lést hefði orðið geranda til mikils ama, sem varð til þess að hann framdi verknaðinn. Hann hafði þar að auki aldrei áður gerst sekur um glæp. Ákvæði í lögum um manndráp kveða á um lágmark fangelsisrefsingu og þetta er í eina skiptið sem að einstaklingur hefur hlotið skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp hér á landi.

15 ára á Litla-Hraun

Árið 2005 hlaut 16 ára piltur, Axel Karl Gíslason, viðurnefnið „yngsti mannræningi Íslandssögunnar“ í íslenskum fjölmiðlum. Axel Karl var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa farið ásamt fjórum félögum sínum að verslun Bónuss á Seltjarnarnesi og numið sextán ára starfsmann á brott. Fyrr um daginn hafði Axel Karl losnað úr síbrotagæslu sem hann var í vegna annarra brota. Axel og félagar höfðu í hótunum við starfsmanninn, meðal annars með rásbyssu. Starfsmanninum var stungið í skott á Subaru-bifreið og svo ekið á brott. Ferðinni lauk við hraðbanka við Hagatorg í Vesturbænum þar sem starfsmaðurinn var neyddur til að taka út 30 þúsund krónur í reiðufé.

Frétt DV frá því í september 2005.

Aðalsteinn Líndal Gíslason, elsti bróðir Axels, ræddi við DV um það leyti sem dómurinn féll í héraðsdómi en þá var ljóst að Axel myndi afplána refsinguna á Litla-Hrauni, innan um morðingja, nauðgara og barnaníðinga. „Litla-Hraun er ekki ákjósanlegur staður fyrir unglinga. Það er ljóst,“ sagði Aðalsteinn meðal annars. Í apríl 2006 greindi DV frá því að Axel væri vistaður á svokölluðum stóragangi með eldriföngum eins og Annþóri Karlssyni handrukkara og Rúnari Ben Maitsland, sem var dæmdur fyrir stóra fíkniefnamálið.

Erlendur S. Baldursson afbrotafræðingur sagði í samtali við DV að ungir menn væru ekki settir á Hraunið að ástæðulausu. Slík tilfelli væru metin út frá afbrotaferli manna og ef ekki væri talið óhætt að vista þá í opnum fangelsum. „Til þess að það sé á hreinu þá eru það ekki óharðnaðir unglingar sem eru komnir með fangelsisdóm.“

DV ræddi einnig við Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing sem sagði það hafa reynst afar illa að reka sérstakt unglingafangelsi hér á landi, og átti þar við Breiðavík sem starfrækt var á sjötta og sjöunda áratug seinustu aldar. Sérstök rannsókn var gerð þar sem skoðað var hvað hefði orðið af ungu afbrotamönnunum og kom þá í ljós að 70–80 prósent þeirra leiddust aftur út í glæpi. Hann segir það afar varhugavert að láta saman í fangelsi unga menn sem deila með sér sömu vonbrigðum og sýn á veröldina og myndi með sér tengslanet og klíkur.

Axel Karl er ekki eini unglingurinn sem hefur verið vistaður í fangelsinu en árið 2007 greindi DV frá því að fimmtán ára unglingspiltur, Stefán Blackburn, afplánaði dóm á Litla-Hrauni. Á einungis  fimm mánaða tímabili komst hann ítrekað í kast við lögin, meðal annars vegna líkamsmeiðinga, rána, fíkniefnaneyslu og hótana. Afbrotaferli Stefáns var ekki lokið því árið 2014 var hann ásamt öðrum dæmdur í sex ára fangelsi fyrir hrottalega líkamsárás og frelsissviptingu í Stokkseyrarmálinu svokallaða.

Í mars 2005 voru tveir 15 ára piltar vistaðir í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni yfir helgi, grunaðir um fjölda innbrota. Einnig var þrettán ára drengur úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna sama máls en hann var vistaður á meðferðarheimilinu Stuðlum.

Handtekinn 11 sinnum

Í nóvember 1996 greindi DV frá því að 16 ára gamall reykvískur piltur hefði gengið berserksgang í borginni undanfarna mánuði. Hann hafði verið handtekinn alls 11 sinnum á árinu fyrir að ógna fólki og veita því áverka og í flestum tilfellum var hann vopnaður hnífi.

„Það gefur augaleið að piltur sem fremur svona mörg afbrot þarf að vera einhvers staðar í meðhöndlun en ekki að ganga laus á götunni. Það er hvorki honum né umhverfi hans til góðs. Það er ljóst að virkari úrræði vantar hér á landi til að stöðva svona pilta tafarlaust og koma þeim til hjálpar. Það þarf að taka svona alvarleg mál fastari tökum til að hægt sé að stöðva þetta,“ sagði  Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður forvarnardeildar lögreglunnar, í samtali við DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“