fbpx
Fimmtudagur 02.apríl 2020
Fréttir

Halldór sýnir svart á hvítu hvað það er erfitt að búa á Íslandi – „Konan húkti þarna tárvot í dyragættinni“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 25. febrúar 2020 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldór Armand Ármannsson, rithöfundur og útvarpsmaður, segir frá því í pistli á RÚV þegar leigan hans var hækkuð. Halldór hefur vakið talsverða athygli fyrir beinskeitta pistla um verðlag hér á landi.

Þetta var sumarið árið 2018 en þá bjó Halldór í Berlín. Kona kom inn og sagðist vera með slæmar fréttir fyrir hann. „Þetta var konan sem ég framleigði herbergi hjá, það er að segja, hún hafði leigt íbúðina sjálfa í 10 ár, en leigði mér svo eitt herbergið í nokkra mánuði.“ Konan sagði við Halldór að það væri búið að reyna allt, íbúarnir í húsinu væru búnir að tala við leigjendasamtökin og lögfræðingana þar en allt kom fyrir ekki, leigan varð að hækka.

Sjá einnig: Halldór: Ísland er óafsakanlega dýrt land – „Ég þekki heilan mökk af ungu fólki sem hefur flúið Ísland.“

„Þarna stóð hún í dyragættinni og neri saman höndunum og ég var ekki frá því að ég sæi glampa á tár í augum hennar yfir því að þurfa að færa mér þessi hörmungartíðindi,“ segir Halldór en fljótlega fór hann að hugsa um hækkanirnar sem hann þekkti frá Reykjavík.

„Það eru ekki mörg ár síðan vinir mínir leigðu saman fjögurra herbergja íbúð á Njálsgötu á 150 þúsund krónur á mánuði með öllu. Hvað kostar þessi íbúð í dag? Ég vil ekki einu sinni vita það, en það er alveg ljóst að leigan hefur hækkað um lágmark 100% á þessum átta árum eða svo. Verandi Íslendingur er maður auðvitað vanur því að allt hækki stanslaust alltaf.“

„Konan húkti þarna tárvot í dyragættinni“

Þá kemur Halldór með önnur dæmi en það eru súkkulaðisnúðar og flugrútur. „Á tíunda áratugnum kostuðu þeir [súkkulaðisnúðarnir] eitthvað í kringum 60 – 70 krónur stykkið. Í dag held ég að verðið á þeim sé eitthvað kringum 350 kall,“ segir hann en hann bendir einnig á að það sé algengt meðal Íslendinga í útlöndum að spyrja hvað verðið í flugrútuna sé komið upp í.

„Allt hækkar stanslaust, alltaf, eini stöðugleikinn sem við þekkjum er óstöðugleikinn sjálfur, það eina sem hægt er að gera ráð fyrir er að það er ekki hægt að gera ráð fyrir neinu, það lækkar aldrei neitt í verði, nema reyndar sjónvörp, fyrir nokkrum árum, þegar sú pólitíska ákvörðun var tekin – sem ekki verður kölluð annað en epísk – að hækka virðisaukaskatt á mat og bækur, svo það væri hægt að lækka vörugjöld á raftæki. Þessi ákvörðun er mér allt að því guðfræðileg ráðgáta. En blessuð konan, sem húkti þarna tárvot í dyragættinni og neri saman lófunum, vissi auðvitað ekki að hún væri að tala við mann sem þekkir ekkert annað en þetta ástand. Að vera Íslendingur er að þekkja ekkert annað en að lifa á efnahagslegu jarðsprengjusvæði“

Þá spurði Halldór konuna hver hækkunin væri. „Varir hennar titruðu meðan hún safnaði kjarki til þess að stynja upp tölunni. „12 evrur! Elsku Halldór, mér þykir svo fyrir þessu,“ sagði hún og röddin brast. Ég skellti upp úr. „Tólf evrur? Ég hélt þú værir að fara að segja 120 evrur.“ Já, leigan var að hækka um sautjánhundruðkall á mann og allt húsið var búið að tala við lögfræðinga og var nú í einhvers konar sorgarferli yfir þessu. Nema ég auðvitað, sem þekki ekkert annað en óstöðugleika og endlausar verðhækkanir.“

„Það eru allar líkur á því að lífsgæði þín verði verri á næsta ári“

Halldór segir það vera sálfræðilega ómögulegt að vera sáttur við eigin kjör hér á landi og kemur með ástæðuna fyrir því. „Þú veist að eftir eitt ár, þá verður kaffibollinn tuttugu krónum dýrari, þú veist að leigan verður að öllum líkindum hærri, afborganir af húsnæðisláni, hver veit hvernig þær verða að ári, þú veist að leigubíllinn úr miðbænum verður dýrari, þú veist að fasteignagjöldin verða hærri, þú veist að skáldsagan sem þú ætlar að gefa mömmu þinni í jólagjöf verður dýrari en í fyrra, þú veist að matarkarfan mun bíta fastar í veskið.

„Með öðrum orðum, þá bara veistu að það eru allar líkur á því að lífsgæði þín verði verri á næsta ári, ja, nema auðvitað ef launin þín hækka. Allt hefur alltaf sífellt orðið dýrara en það var, þú þekkir ekkert annað, og þú hefur enga ástæðu til þess að ætla að það muni breytast á næsta ári, sem gerir að verkum að þú getur ekki verið sátt við það sem þú hefur, vegna þess að ef þú ert sátt eða sáttur, þá muntu dragast aftur úr. Þetta blasir við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Samkomubannið verður að minnsta kosti út apríl

Samkomubannið verður að minnsta kosti út apríl
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Jói er látinn: „Hann var hetjan mín“

Jói er látinn: „Hann var hetjan mín“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfir 100 sagt upp hjá Isavia

Yfir 100 sagt upp hjá Isavia
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórólfur þakklátur Helga Björns – „Ég þori ekki að segja Helgi Eff Björns…“

Þórólfur þakklátur Helga Björns – „Ég þori ekki að segja Helgi Eff Björns…“