fbpx
Fimmtudagur 09.apríl 2020
Fréttir

MYNDBAND: Hrottafull hópárás á ungling – „Ef einhver klagar í fokking lögguna hefur hann verra af“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 24. febrúar 2020 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur undir höndum myndskeið sem sýnir hrottafulla árás hóps unglinga á 15 ára pilt í Reykjavík síðastliðið sumar. Drengurinn fær mjög þungt hnefahögg í andlitið auk þess sem nokkrir piltar sparka í hann liggjandi. Bróðir drengsins, sem er 14 ára, kemur honum til varnar og í kjölfarið yfirgefa árásarmennirnir vettvanginn með hótanir á vörunum um að sá hljóti verra af sem klagi í lögregluna.

Faðir drengsins sem varð fyrir árásinni, Karam Mohamed Elmarrackechi, hafði samband við DV og afhenti myndbandið í kjölfar fréttaflutnings um og myndbands  af hrottafullri hópárás á ungling í Kópavogi. Hann telur brýnt að vekja athygli á ofbeldi af þessu tagi og vekja almenning til umhugsunar um það.

Karam er frá Marrokkó en hefur verið búsettur á Íslandi í 20 ár. Hann talar þokkalega íslensku en grípur stundum til ensku þegar samræður verða flóknari. Karam á sex börn en synir hans tveir á myndbandinu eru af fyrra hjónabandi. Hann á þá með íslenskri konu en vegna lítils og stirðs sambands við hana hefur hann takmarkaðar upplýsingar um málið. Hann veit til dæmis ekki hvort árásin var kærð til lögreglu og sé í rannsókn hjá henni. Hefur DV haft samband við lögreglu um stöðu málsins og fékk þau svör að árásin hefði ekki verið kærð til lögreglu og því væri engin rannsókn í gangi. Karam segir hins vegar að lögreglan hafi komið á vettvang og keyrt unglingana heim eftir atvikið. Hins vegar hafi það greinilega farist fyrir að kæra.

Karam veit hins vegar að sonur hans kvartaði undan höfuðverk í marga mánuði eftir árásina en hann virðist vera búinn að jafna sig. Karam er ekki sannfærður um að árásin hafi verið vegna kynþáttahaturs, hann útilokar það ekki en vill ekki fullyrða neitt um það án sannana. „Ég veit líka að sonur minn er enginn engill,“ segir hann en telur jafnframt að ekkert réttlæti það ofbeldi sem sjá má í myndskeiðinu.

Það er áhugavert að ræða við Karam sem annars vegar hefur orðið fyrir mjög ljótum kynþáttafordómum hér á landi en er hins vegar sjálfur mjög gagnrýninn á öfgafulla múslíma og telur hann að íslensk yfirvöld þurfi að vera vakandi fyrir því að hingað geti komið til lands fólk með öfgafull viðhorf.

Einn af gerendunum tók árásina upp á myndband og sendi drengnum á Snapchat, líklega til að niðurlægja hann, en skildi um leið eftir sönnunargagn um glæpinn.

„Helvítis múslímar, af hverju búið þið hér?“

Karam er sjálfur með mál í gangi sem varðar hatursárás á hann. Hann greinir DV frá tveimur slíkum tilvikum, þar sem nágrannar áttu í hlut. „Einu sinni barði maður á dyrnar mínar og öskraði: „Helvítis Arabar, af hverju búið þið hér?““

Síðara atvikið var enn alvarlegra. Þá barði nágrannakona að dyrum, eiginkona Karams fór til dyra og nágrannakonan öskraði á hana: „Helvítis múslímar, af hverju búið þið hér?“ – Karam sat að snæðingi og þusti fram og spurði konuna hvers vegna hún hegðaði sér svona en hún færðist bara í aukana og jós hatursyrðum yfir hjónin. „Konan mín er mjög viðkvæm og getur ekki varið sig fyrir árásum af þessu tagi. Hún missti meðvitund þarna á staðnum. Ég hringdi bæði á lögregluna og sjúkralið. Lögreglan handtók konuna. Konan mín, sem var ófrísk, missti hins vegar fóstur skömmu eftir þetta.“

Hefur áhyggjur af öfgafullum múslímum

Karam hefur ekki bara áhyggjur af kynþáttafordómum og múslímahatri sumra Íslendinga heldur líka af öfgafullum viðhorfum margra múslíma. Hann segir að hingað til lands komi í vaxandi mæli fólk með vafasöm og afturhaldsöm viðhorf. Hann er sjálfur virkur í starfi einnar moskunnar í Reykjavík en gegnir þó engum trúnaðarstörfum þar. „Það eru ekki mjög margir múslímar á Íslandi en þeim fer þó fjölgandi. Það má segja að hingað til hafi tekist nokkuð vel að hafa stjórn á þessu í moskunum hér en ég óttast að það breytist í framtíðinni. Yfirvöld hafa hleypt inn mörgu fólki sem þau vita lítið um og maður er farinn að verða var við vafasamari raddir.“

Karam segist vera trúaður en hann leggur mikið upp úr trúfrelsi og umburðarlyndi gagnvart öðrum. Hann segir að slíkt umburðarlyndi sé innbyggt í Kóraninn þó að öfgamenn túlki ritið á annan hátt.

„Marrokkó er á margan hátt mjög opið og umburðarlynt samfélag og ég er alinn upp í fordómaleysi gagnvart fólki af annarri trú og trúleysingjum. Ég ólst til dæmis upp innan um gyðinga og við lifðum með þeim í sátt og samlyndi.“

Karam telur að múslímar á Vesturlöndum þurfi sumir að þola á sama tíma ágang af íslömskum öfgaöflum og áreitni innfæddra múslímahatara.

Sem fyrr segir sýnir myndskeiðið hér fyrir neðan hópárásina sem átti sér stað í Reykjavík síðasta sumar. Andlit unglinganna hafa verið gerð óþekkjanleg og röddum breytt.

 

UPPFÆRT – Myndbandið tekið upp í Reykjanesbæ: Myndbandið er tekið fyrir aftan Sambíó við Hafnargötu í Reykjanesbæ. Þess má geta að bræðurnir búa þar ásamt móður sinni. Karam taldi hins vegar að atvikið hefði átt sér stað í Reykjavík.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Faraldurinn er á niðurleið – „Getum glaðst yfir þeirri stöðu sem við erum í“

Faraldurinn er á niðurleið – „Getum glaðst yfir þeirri stöðu sem við erum í“
Fréttir
Í gær

Sex á einu heimili í Seljahverfi með COVID-19

Sex á einu heimili í Seljahverfi með COVID-19
Fréttir
Í gær

Sparkaði í bifreiðar í miðborginni – Átti að vera í sóttkví og því kærður fyrir brot á sóttvarnarlögum

Sparkaði í bifreiðar í miðborginni – Átti að vera í sóttkví og því kærður fyrir brot á sóttvarnarlögum
Fréttir
Í gær

Sjómennirnir sem skáru sporðinn af hákarli ljóstra upp leyndarmáli Matvælastofnunar

Sjómennirnir sem skáru sporðinn af hákarli ljóstra upp leyndarmáli Matvælastofnunar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um manndráp

Úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um manndráp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tengja aukið heimilisofbeldi vegna COVID-19 við dauðsföll tveggja kvenna

Tengja aukið heimilisofbeldi vegna COVID-19 við dauðsföll tveggja kvenna