fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Davíð hellir sér yfir borgarstjóra: „Ætli Dagur hafi aldrei spurt sig: Af hverju fæ ég svona há laun?“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 23. febrúar 2020 12:32

Davíð Oddsson telur aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu vera gagnslaust hálfkák.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, hjólar í Dag B. Eggertsson borgarstjóra í Reykjavíkurbréfi Sunnudagsmoggans. Í pistlinum fer Davíð yfir víðan völl en gagnrýnir Dag harðlega bæði fyrir braggamálið og ekki síst viðbrögð Dags við því máli.

Davíð gagnrýnir sérstakelga hve illa gengur hjá mörgum að ná tali af borgarstjóra. „Borgarstjórinn lætur eins og hann frétti jafnan síðastur allra manna innan borgarmarkanna það sem aflaga fer. Það er óþarfi að halda að það sé tómt skrök. Venjulegir borgarbúar hafa nánast engin tök á að bera mál sín upp við borgarstjórann og er mikið breytt frá því bréfritari tók aldrei á móti færri en 50 mönnum í almennt viðtal í viku hverri. Á engu græddi hann meir um þróun borgarinnar og afstöðu og tilfinningu borgarbúa. Ekkert annað réð meiru um að hann og flokkur hans fengu rúm 60% atkvæða þeirra í þriðju og síðustu kosningu hans þar vorið 1990. Nú eiga braskararnir einir þann aðgang að borgarstjóranum sem borgarbúar höfðu áður,“ segir Davíð.

Hann snýr sér svo að braggamálinu alræmda. „Braggamál borgarinnar hefur vakið svo mikla athygli vegna þess hversu auðskiljanlegt það er. Það átti að laga og lappa upp á gamlan bragga. Smámál, er það ekki? Þarna var sem sagt ekki um að ræða laskaða álmu í Versölum. Bara gamlan bragga svipaðan að stærð og sæmileg íbúð. En verkmönnum Dags tókst að koma reikningnum yfir hálfan milljarð. HÁLFAN MILLJARÐ. Og voru nástrá Dags þá ekki talin með. Í fyrstunni lét Dagur B. Eggertsson eins og hann lætur alltaf. Hann var úti á þekju. Þetta hljómaði eins og vant er einhvern veginn svona: Enginn hafði sagt honum hvar þessi braggi væri. Minnihlutinn væri að reyna að stráfella hann saklausan. En málið hefði ekkert með sig að gera, þar sem hann væri bara borgarstjóri. Menn gætu eins verið að ræða um hússkrifli í Tasmaníu sem þeir þar hefðu verið að tjasla saman. Hvað gat það komið Degi við? Dagur hefði getað bent á að það væri nótt í Tasmaníu þótt að það væri Dagur hér. En af örlæti sínu lét borgarstjórinn, að nafninu til, þó leiðast til að lofa að þetta braggamál skyldi rannsakað,“ segir Davíð.

Því næst hellir Davíð sér yfir RÚV, en hann hefur haft horn í síðu stofnunarinnar um langt skeið. „Nú, misserum og árum síðar þá kemur á daginn að Borgarskjalasafn segist ekkert hafa séð af skjölum sem ættu að fylgja málinu. Það virðist helst að ekki hafi verið gerðir neinir samningar við arkitekta, verkfræðinga og þannig fólk! Það hafi ekki verið gerðir neinir samningar við verktaka heldur eða aðra þá sem komu að verkinu. Ekki verður því betur séð en að allir þessir hafi haft sjálfdæmi um störf sín og reikninga. Dagur B. kom í viðtal við Ríkisútvarpið og sagði að svona yrði þetta ekki gert aftur. Má treysta því, spurði ekkifréttamaður „RÚV“. Hann hefði eins getað spurt hvort Dagur væri enn borgarstjóri. Dagur hélt nú það. „Við gerum kröfu um það!“ Rétta spurningin hefði sjálfsagt verið sú hvort þetta hefði verið almenna reglan hjá borginni í valdatíð Dags. Af hverju skyldi þetta eingöngu hafa tíðkast um bragga fyrir hálfan milljarð? Og hefði fréttamaður „RÚV“ ekki litið á sig eins og hinir þar sem einn af öftustu vörn fyrir borgarstjórann, þá hefði hann átt að árétta að reyndi borgarstjórinn að fullyrða að allt  sem hann segði væri Dagsatt þá tæki enginn mark á neinu, hvorki Degi né fréttastofunni,“ segir Davíð.

Hann veltir svo fyrir sér hvernig Dagur geti réttlæt laun sín. „Ef þetta hefur ekki verið almenna reglan hvernig stóð þá á því að menn gátu tekið sér hálfan milljarð við að klastra upp bragga án þess að nokkur tæki eftir því? Hvers vegna borgaði borgargjaldkeri út risafjárhæðir sem engir samningar stóðu til? Hafði Dagur rætt þessi mál við þann mann, eða sjálfan yfirmann fjármálanna, borgarritarann? Fréttastofa hefur þá gullnu vinnureglu sjálf að öll þau vandræðamál sem snerta borgina, sem eru svo mörg að tárum tekur, eigi helst að daga uppi enda hefur Dagur aldrei komið nálægt neinum þeirra og ber aldrei ábyrgð. Ætli Dagur hafi aldrei spurt sig: Af hverju fæ ég svona há laun?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni