fbpx
Sunnudagur 05.apríl 2020
Fréttir

Eiginkona Ólafs Hand stígur fram – „Aldrei datt mér í hug að ég yrði ákærð fyrir upplognar sakir“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 16. febrúar 2020 14:03

Kolbrún Anna Jónsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eiginkona Ólafs Williams Hand, fyrrverandi upplýsingafulltrúa og markaðsstjóra Eimskips, Kolbrún Anna Jónsdóttir, hefur sent frá sér bók sem fjallar að miklu leyti um málaferli og dóm sem Ólafur hlaut í lok árs 2018 fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni. Bókin, sem ber heitið Ákærð, er öllum opin til aflestrar í pdf- og hljóðformi.

Þannig lýsir Kolbrún því atviki er henni var tilkynnt um ákæru á sig í málinu, í byrjun bókarinnar:

„Ég er stödd á biðstofu læknis þegar síminn hringir. Ókunnugt númer birtist á skjánum. Ég svara og á línunni er karlmaður sem kynnir sig, segist vera lögreglumaður og biður mig að koma niður á lögreglustöð. Mér verður hverft við. Ég hef lítil samskipti átt við lögregluna fram að þessu. Hann segir að honum hafi verið falið að birta mér ákæru. Ég þykist svo sem vita um hvað málið snýst en aldrei datt mér í hug að ég yrði ákærð fyrir upplognar sakir.“

DV hefur fjallað ítarlega um mál Ólafs Hand og sagði fyrst frá því að hann hefði verið fundinn sekur um líkamsárás á barnsmóður sína í héraðsdómi.

Sjá einnig: Ólafur Hand sakfelldur fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni

Dómnum hefur verið áfrýjað til Landsréttar sem mun kveða upp sinn dóm á næstu vikum eða mánuðum. Í bók Kolbrúnar Önnu blasir við allt önnur mynd af atvikinu sem varð til þess að Ólafur var ákærður og sakfelldur en sú mynd sem ákæran og síðan dómur héraðsdóms draga upp.

Í frétt DV er atvikalýsingin endursögð með þessum hætti:

„Barnsmóðirin kom á vettvang með lögreglumanni og sambýlismanni sínum. Hún fór inn í hús Ólafs í óleyfi þegar Ólafur opnaði fyrir henni. Sagði barnsmóðirin í vitnaskýrslu að hún hefði gert það þegar hún heyrði barnið kalla til sín grátandi álengdar. Ólafur var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg. Þá er eiginkona Ólafs ákærð fyrir að hafa hlaupið ítrekað á konuna og klórað hana. Hin ákærðu sökuðu barnsmóðurina um húsbrot og ofbeldi á vettvangi. Lögreglan féll hins vegar frá saksókn á hendur barnsmóðurinni og var sú ákvörðun síðar staðfest af ríkissaksóknara.

Ólafur neitaði að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki, hrint henni í gólfið eða ýtt henni utan í vegg. Hann segist hins vegar hafa gripið um hana ofarlega og lagt hana niður í gólfið.

Barnsmóðirin kvartaði undan verk í hálsi eftir atvikið, sársauka við að kyngja, hósta, blóðbragði í munni, sem og höfuðverk og verk í herðum og baki. Þá hafi blóð verið í þvagi hennar. Hún segist jafnframt hafa orðið fyrir fósturláti vegna árásarinnar. Staðfest er að hún missti fóstur um þetta leyti. Samkvæmt dómsniðurstöðu bera gögn hins vegar ekki með sér að fósturlátið megi rekja til árásarinnar. Gögn og myndir bráðamóttöku LSH vegna líkamsskoðunar leiða í ljós marga yfirborðsáverka á hálsi, tognun og ofreynslu á hálshrygg, yfirborðsáverka á bakvegg og brjóstkassa, og loks tognun og ofreynslu á brjósthrygg.“

Bæði Kolbrún og Ólafur voru ákærð fyrir líkamsárás í málinu en Kolbrún var sýknuð á meðan Ólafur var fundinn sekur.

Ólafur William Hand

Lýsir meintri heiftarlegri árás barnsmóðurinnar á Ólaf og sig

Lýsing Kolbrúnar á atvikinu er hins vegar eftirfarandi (athugið að í bókinni er ekki notast við rétt nafn barnsmóðurinnar heldur er hún kölluð Alexandra og unnusti hennar er kallaður Davíð):

„Hann opnar útidyrahurðina og skiptir þá engum togum að Alexandra ræðst inn og Davíð strax í kjölfarið. Alexandra byrjar á því að sparka í Rökkva, litla hvolpinn okkar, sem lá í forstofunni. Hann var bara 12 vikna, við höfðum farið með yngstu stelpurnar okkar upp á Akranes að sækja hann réttum mánuði fyrr. Litli svarti Labradorhvolpurinn okkar var fyrir Alexöndru og hún vílaði ekki fyrir sér að sparka í hann.

Þegar Alexandra var komin inn í húsið réðst hún á Óla með höggum, spörkum og hrákum. Hann hörfaði eins og hann gat en á endanum tók hann utan um hana og lagði hana í gólfið. Konan var tryllt. Gjörsamlega sturluð. Þetta horfði ég á með eigin augum. Davíð, sem er með svarta beltið í karate stóð bak við Óla og lamdi hann í bakið. Í því stendur Alexandra upp og ræðst á mig. Hún er mun stærri en ég á alla kanta. Ég hörfa innar í húsið, þar sem hún hrindir mér í gólfið. Ég ligg á gólfinu í mínu eigin húsi í hádeginu á laugardegi og spörkin dynja á mér. Þetta getur ekki verið að gerast! 60 Þegar ég var seinna spurð í yfirheyrslu hjá lögreglunni hversu oft Alexandra sparkaði í mig, gat ég ekki svarað því. Ég var ekki að telja. Það er einhvern veginn ekki fyrsta viðbragð þegar ráðist er á mann að fara að telja höggin! Skyndilega hættir Alexandra að sparka í mig og hleypur gegnum eldhúsið og inn í borðstofu þar sem hún kemur auga á dóttur sína bak við píanóið. Hún grípur í barnið og dregur það gegnum húsið og út og það á sokkaleistunum. Barnið grætur og æpir „nei,nei”. Fyrir utan er lögregluþjónninn sem Davíð hafði narrað á svæðið og einnig maður sem var gestkomandi í næsta húsi. Bæði þessi vitni báru að hafa séð Alexöndru draga dóttur sína öskrandi út meðan Alexandra sjálf segir að barnið hafi „sloppið” út og hún sjálf farið á eftir henni. Þegar þarna er komið er Davíð enn inni í húsinu og ég reyni að ræða við hann, en hann er greinilega blindaður af ást á Alexöndru.

Við ræddum við lögreglumanninn, sem brást virkilega vel við í þessum aðstæðum. Hann ræddi við Alexöndru og Davíð og fékk þau til að leyfa stelpunni að koma aftur inn til okkar í 40 mínútur og kveðja okkur og Jöru, sem í 61 miðjum látunum kom heim úr vinnunni. Á meðan æddi Alexandra fram og aftur fyrir utan húsið eins og naut í flagi. Aumingja barnið var alveg miður sín. Við gerðum okkar besta til að hugga hana og hughreysta. Við kvöddum hana og óskuðum henni góðrar ferðar til Indónesíu.“

 

„…á endanum tók hann utan um hana og lagði hana í gólfið“ er lýsing Kolbrúnar á meginágreiningsmáli atviksins en Ólafur var ákærður fyrir að hafa tekið barnsmóðurina hálstaki og þrengt ítrekað að hálsi hennar, hrint henni þannig að hún féll í gólfið, rifið í hár hennar og ýtt henni utan í vegg.

Kolbrún er þeirrar skoðunar að þeir áverkar á barnsmóðurinni sem lýst er í læknisvottorði sem lagt var fyrir dóm hafi komið til eftir að hún hafði yfirgefið hús Ólafs og Kolbrúnar. „Hvort hún veitti sér þá sjálf, eða fékk aðstoð við það veit ég ekki.“

Kolbrún segir jafnframt að haft sé eftir barnsmóðurinni í lögregluskýrslu að Ólafur hafi aldrei beitt hana ofbeldi þegar þau voru í sambúð.

Eimskip sagði að brottreksturinn tengdist ekki málinu

Ekki löngu eftir að fjölmiðlar höfðu fjallað um dóminn, snemma árs 2019, var Ólafi sagt upp störfum hjá Eimskip. Í kjölfar brottrekstrarins reyndi Ólafur að stappa stálinu í Kolbrúnu og svo virðist sem hann hafi þolað það áfall betur en hún. Eimskip hélt því fram að uppsögnin tengdist ekki dómsmálinu og gefur Kolbrún lítið fyrir þá staðhæfingu:

„Með uppsögninni fylgdu skilaboð frá stjórn Eimskipafélagsins um að þessi uppsögn tengdist ekki dómsmálinu sem nú er í áfrýjunarferli. Einmitt! Trúlegt eða hitt þó heldur. Mér finnst það reyndar lítillækkandi fyrir okkur bæði að heyra þennan fyrirslátt. Er Óli svona ómögulegur starfsmaður þá? Það er bara til að auka á sársaukann að hugsa með sér að hann sé óþarfur hjá fyrirtæki sem hann hefur sinnt af lífi og sál í áratug. Á hinn bóginn finnst mér það lítilmannlegt af stjórninni að standa ekki með starfsmanni eins og Óla þegar á reynir. Málinu hefur jú verið áfrýjað og lokaniðurstaða ekki fengin enn.“

Ljóst er að langt ber í milli á lýsingum Kolbrúnar á atvikinu örlagaríka sumarið 2016 og niðurstöðu héraðsdóms. Landsdómur mun fyrir sitt leyti úrskurða hvor útgáfan er nærri sannleikanum.

Á næstu dögum verður hins vegar tekið fyrir í héraðsdómi einkamál Ólafs og Kolbrúnar á hendur barnsmóðurinni og unnusta hennar: Sjá nánar

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Starfsmenn afar ósáttir eftir uppsagnir: „Hvernig Isavia kemur fram við grunnstoðir í fyrirtækinu er til skammar“

Starfsmenn afar ósáttir eftir uppsagnir: „Hvernig Isavia kemur fram við grunnstoðir í fyrirtækinu er til skammar“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Biðja útleigjendur orlofshúsa að afturkalla úthlutanir um páskana

Biðja útleigjendur orlofshúsa að afturkalla úthlutanir um páskana