fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Stjörnunuddarinn fyrir dóm í gær – Ákærður fyrir fjórar nauðganir

Heimir Hannesson
Föstudaginn 4. desember 2020 11:30

mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson var fyrr á þessu ári ákærður fyrir fjórar nauðganir. Upphaf málsins teygir sig aftur til ársins 2017 og hafa miklar tafir orðið á rekstri þess fyrir dómi. Í gær hófst loks aðalmeðferð gegn honum í Héraðsdómi Reykjaness.

Vatnaskil urðu í máli Héraðssaksóknara gegn stjörnunuddaranum Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni vegna fjögurra meintra nauðgana er málið var tekið til aðalmeðferðar í Dómsal 1 í Héraðsdómi Reykjaness klukkan 10 í gærmorgun. Miklar tafir hafa orðið á málinu, meðal annars vegna átaka um hæfi réttargæslumanna kvennanna sem Jóhannes er sagður hafa nauðgað.

Málið gegn Jóhannesi teygir sig aftur til ársins 2017 þegar talsverður fjöldi kvenna steig fram og ásakaði Jóhannes um kynferðisbrot. Hluti þeirra lagði fram kæru og leitaði á fjórða tug kvenna til Sigrúnar Jóhannsdóttur lögmanns með sín mál. Árið 2018 varð ljóst að kærurnar yrðu á þriðja tug, samkvæmt heimildum DV. Aðeins var ákært í málum fjögurra kvenna. Um þær ákærur er nú tekist á í Héraðsdómi Reykjaness.

Ekki kírópraktor

Konurnar sem Jóhannes er sagður hafa brotið á kynferðislega leituðu til hans í meðferð vegna stoðkerfisvandamála. Jóhannes rekur fyrirtækið Postura, sem sérhæfir sig einmitt í slíkri meðferð. Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins um málið sögðu konurnar Jóhannes hafa meðhöndlað sig í gegnum leggöng og endaþarm. Í samtali við DV árið 2018 sóru þáverandi formenn Osteópatafélags Íslands, Kírópraktorafélags Íslands og Sjúkranuddarafélags Íslands manninn af sér. „Stétt kírópraktora er slegin yfir þessum fréttum. Maður sá sem kærður er, hefur ekki menntun kírópraktors, er ekki meðlimur í Kírópraktorafélagi Íslands og tengist ekki stétt kírópraktora á nokkurn hátt,“ sagði Egill Þorsteinsson formaður Kírópraktorafélagsins árið 2018.

Auglýsti í september

Jóhannes hélt starfi sínu áfram sem meðhöndlari og auglýsti síðast þjónustu sína í septemberbyrjun með svohljóðandi smáskilaboðum: „Kæru viðskiptavinir. Vegna fjárhagsástands þjóðarinnar hef ég ákveðið að lækka verðið á minni þjónustu tímabundið. Verðið er nú komið úr 11.900 krónum niður í 10.000 krónur. Þá fá atvinnulausir þjónustuna á enn betra verði eða á 8.000 krónur,“ stóð í skilaboðunum sem send voru meðal annars á einstaklinga sem hafa aldrei sótt þjónustu hjá Jóhannesi.

Þegar blaðamaður DV hafði samband við Jóhannes 9. september var hann stuttur í spuna. „Hvað með það?“ spurði Jóhannes þegar blaðamaður spurði hann út í skilaboðasendingar.

Aðspurður um hvernig gengi eftir að hann sendi út tilboðið svarar Jóhannes: „Það gengur bara fínt.“ „Ég er allavega ennþá á lífi,“ bætti hann síðan við. Þegar blaðamaður ætlaði að halda samtalinu áfram vildi Jóhannes slíta samtalinu. „Ef þig vantar svör við einhverjum spurningum þá talar þú bara við lögfræðinginn minn.“

Réttargæslumaður verður vitni

Málið gegn Jóhannesi var þingfest fyrr á árinu og hafa sem fyrr sagði orðið miklar tafir á meðferð málsins. Að hluta til má rekja þær tafir til þess að tekist var á um hæfi Sigrúnar Jóhannsdóttur sem réttargæslumanns kvennanna. Sigrún var réttargæslumaður allflestra kvennanna í málinu, en var úrskurðuð vanhæf af héraðsdómi til þess að gegna því starfi áfram vegna kröfu Steinbergs Finnbogasonar, lögmanns Jóhannesar, um að hún bæri vitni í málinu. Ósk um að Jóhannes S. Ólafsson tæki að sér réttargæslu var enn fremur hafnað. Landsréttur felldi þessa úrskurði síðar úr gildi. Sigrún fékk því áfram að sinna réttargæslu í málinu, þó hún vermi áfram sæti á vitnalista Jóhannesar. Þá má, samkvæmt heimildum DV, einnig rekja tafir til þess að vitni í málinu búi erlendis og hefur dómari þurft að úrskurða um mál er tengjast skýrslugjöf vitnisins með fjarfundabúnaði.

Ósmekkleg ummæli

Haft var eftir lögmanni Jóhannesar, Steinbergi Finnbogasyni, í fjölmiðlum í tengslum við kröfu hans um að Sigrún bæri vitni í málinu að lögfræðilegur tilbúningur málsins stæðist tæpast skoðun og hann hygðist draga það fram í vitnaleiðslum. Þar má gera ráð fyrir því að hann vísi til meintrar smölunar Sigrúnar á fórnarlömbum á fyrstu stigum málsins árið 2018.

Í tilkynningu til fjölmiðla af því tilefni sagði Sigrún ummæli Steinbergs ósmekkleg og dæma sig sjálf. „Það sé enda fullkomlega óásættanlegt að lögmenn geti rutt svona hver öðrum úr dómsmálum með því einu að láta þá bera vitni um störf sín í þágu málsins. Það ógni öllu réttaröryggi,“ sagði í tilkynningunni.

Samkvæmt dagskrá Héraðsdóms Reykjaness var aðalmeðferð málsins á dagskrá í gær og gert ráð fyrir að henni verði haldið áfram í dag og aftur á mánudaginn. Afar fátítt er að þrír heilir dagar séu lagðir undir aðalmeðferð dómsmála, og því ljóst að um umfangsmikið mál er að ræða. Samkvæmt heimildum DV eru vitnalistar langir og bersýnilega gert ráð fyrir löngum tíma í skýrslutökur. Þinghaldið er lokað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala