fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Þetta fékk fólkið á Hrafnistu að borða – „Finnst ykkur þetta boðlegt fyrir fólkið okkar?

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 2. desember 2020 14:40

Maturinn sem fólkið fékk. Myndir/Aðsendar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona nokkur fór til ömmu sinnar og afa í hádeginu í vikunni. Amma hennar og afi búa í stuðningsíbúð og fá mat sendan heim til sín frá Hrafnistu Nesvalla. Þegar konan sá hvað amma sín og afi höfðu fengið sent í hádegismat þennan daginn var hún ekki sátt.

„Þetta var það sem þau fengu, finnst ykkur þetta boðlegt fyrir fólkið okkar? Ég meina þau eru gömul en þau eru ennþá fólk, ekki dýr,“ segir konan sem birti myndir af matnum á Facebook-síðu sinni. „Ég myndi ekki einu sinni gefa þvottabirni þetta, þetta grá-brúna gums á að vera súpa,“ segir konan en af myndinni að dæma er súpan nokkuð ólystug.

Auk súpunnar fengu amman og afinn kjöt og sósu. „Sósan er varla tvær matskeiðar og dugði ekki með kjötinu,“ segir hún, en ásamt kjötinu fengu þau þrjár litlar kartöflur. „Þurfum við að koma svona fram við gamla fólkið okkar?“ spurði konan að lokum.

Mynd/Aðsend

Mikil viðbrögð

Í samtali við DV sagði konan að amma hennar og afi eldi ekki sjálf og fari þess vegna ekki út í búð til að kaupa sér mat. Hún segir þau ekkert val hafa þegar svona ólystugur matur er í boði. „Þau neyðast til að borða þetta, annars svelta þau bara,“ segir hún

Konan fékk mikil viðbrögð við myndunum á Facebook. Fólk var allt annað en sátt með þennan mat sem fólkið fékk frá Hrafnistu. „Þetta er ekki boðlegt,“ sagði í einni athugasemd. „Þetta er algjört áhugaleysi gagnvart þeim sem verið er að þjónusta. Ógeðslegur matur og engum bjóðandi,“ segir í annarri.

Fleiri taka í sama streng en ein kona segist þekkja þetta af eigin reynslu frá því þegar hún vann á Hrafnistu fyrir 9 árum síðan. „Ég vann þarna 2011 og þar var borinn fram þorskur svo fullur af ormum að starfsfólkið borðaði ekki og gamla fólkið setti þá til hliðar, allt upp í 15 stykki. Ógeðslegt… greinilega ekkert breyst!“

Þá tekur maður nokkur sem menntaður er í eldamennsku til máls. „Fyrir mitt fag að dæma þá ætti manneskjan sem lagaði þessa súpu að finna sér annan starfsvettvang, það er mjög auðvelt að laga góða súpu úr litlu ef þú hefur ástriðu fyrir þvi,“ segir hann.

Mynd/Aðsend

„Mér finnst þetta ekki vera blaðamál“

Þuríður Ingibjörg Elísdóttir, forstöðumaður Hrafnistu Nesvalla og Hlévangs, ræddi við DV um málið. Þar sagði hún að um algjört einsdæmi væri að ræða. „Ég sá þetta í gær, þetta er í rauninni bara ekki fréttaefni sko, ef ég á að segja alveg eins og er,“ sagði Þuríður og hélt áfram. „Við fengum rangar baunir í baunasúpuna þannig það var bara annar litur á henni.“

Blaðamaður benti Þuríði á að ekki væri um einsdæmi að ræða, fleiri séu með slæmar sögur og myndir af matseldinni. „Þetta er bara einsdæmi hjá okkur, það kom bara rangur litur á baununum en súpan var alveg eins“ sagði Þuríður þá aftur. „Þetta lúkkaði ekki vel en mér finnst þetta ekki vera blaðamál.“

Varðandi skammtastærðina sagði Þuríður að þetta væri nóg fyrir hana. „Þessi skammtur hefði verið of mikill fyrir mig.“ Þá sagði hún að ein kona á heimilinu hefði verið mjög ánægð með matinn. „Ég heyrði þegar hún sagði í gær: Mikið rosalega var kjötið gott.“

Að lokum leggur Þuríður áherslu á að þau vilji gera hlutina vel. „Við leggjum metnað í að hafa matinn góðan og viljum gera vel fyrir alla á okkar þjónustusvæði. Þetta var bara algjörlega tilfallandi og við erum búin að biðjast velvirðingar á þessu. Við viljum hugsa vel um fólkið okkar og samfélagið okkar.“

„Ég myndi frekar vilja deyja í svefni“

Hrafnista á Nesvöllum hefur áður fengið harða gagnrýni en DV fjallaði um mál á heimilinu í fyrra. Þá var rætt við Eiriku G. Guðjónsdóttir en móðir hennar bjó þar. „Ég hugsa að ég myndi frekar vilja deyja í svefni heldur en þurfa að dvelja öldruð við þessar aðstæður. Það er vont að geta ekki verið öruggur um foreldri sitt,“ sagði Erika meðal annars.

Eirika sagðist aldrei hafa séð fleiri en tvo til þrjá starfsmenn á sömu vakt á Hrafnistu Nesvalla. Hún sagði að vegna þessa hafi móðir hennar langoftast þurft að bíða eftir aðstoð en móðir hennar reiðir sig algjörlega á aðstoð annarra. „Systir mín hefur til dæmis þurft að skipta um á blautu rúmi hjá mömmu. Í eitt skipti var mamma í fötum af annarri konu þó svo að öll fötin hennar séu merkt.“

Lesa meira: Eirika segir móður sína vanrækta á Hrafnistu: „Systir mín hefur þurft að skipta um á blautu rúmi hjá mömmu“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu