fbpx
Miðvikudagur 12.maí 2021
Fréttir

Keppendur í fitubrennslukeppni Ali í sárum – Starfsmennirnir hirtu verðlaunin – „Dregin á asnaeyrunum“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 16. desember 2020 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Megrunarleikur sem hófst hjá útvarpsmönnum á FM957 í lok sumars og fyrirtækið Ali Matvörur blandaðist inn í hefur dregið dilk á eftir sér. Eftir sitja sárir þátttakendur sem finnst þeir hafa verið dregnir á asnaeyrunum en nokkrir starfsmenn Ali hirtu verðlaunin í keppninni. Fulltrúi FM957 kemur hins vegar af fjöllum og hélt að keppnin væri fyrir löngu hætt en úrslit voru kunngjörð fyrir skömmu.

Sjötíu og fimm hlustendur útvarpsstöðvarinnar ákváðu að taka þátt í megrunarkeppninni og mættu í fitumælingu. Fólkinu var boðinn aðgangur að lokuðum Facebook-hópi. Þátttökugjald í keppninni var fjögur þúsund krónur en það var fellt niður síðar. Glæsileg verðlaun voru kynnt fyrir þá sem næðu mestum árangri í þyngdartapi: Fyrstu verðlaun voru iPhone snjallsími og gjafakarfa frá Ali, önnur verðlaun Apple snjallúr og gjafakarfa frá Ali og þriðju verðlaun iPad og gjafakarfa frá Ali. Auk þess átti að draga út þátttökuverðlaun vikulega. Þátttökuverðlaunin voru eitthvað á reiki og höfðu þátttakendur litlar spurnir af þeim.

Fitumælingar voru framkvæmdar þann 10. september en þann 21. september birti Ali matseðil vikunnar inni í Facebookhópnum. Mögum þótti matseðillinn sérkennilegur en hann innihélt mikið af vörum frá Ali. Á matseðlinum var víða lax, kjúklingabringur, grísakótelettur og beikon.

Næst matseðill barst þann 23. október, eða mánuði eftir þann fyrsta. Þess á milli var engum upplýsingum frá Ali póstað í FB-hópinn. Keppendur vissu hreinlega ekki hvort keppninni hefði verið slaufað en erfiðlega gekk að ná í fulltrúa keppninnar hjá Ali til að fá upplýsingar. Allan tímann sem keppnin hefur verið í gangi hefur verið sáralítið um upplýsingar, góð ráð eða fræðslu.

Þann 12. nóvember birtist tilkynning frá Ali í hópnum þess efnis að keppnin væri enn í gangi, þátttökugjald hefði verið fellt niður en stefnt yrði á fitumælingu dagana 23. til 27. nóvember. Ekkert heyrðist meira frá Ali fyrr en 1. desember þegar barst Google Docs skjal inn í hópinn þar sem fólk átti að skrá sig í mælingu. Fólk mætti síðan í fitumælingu í bílskúr í Urðarhvarfi, líkt og það hafði gert í september.

Starfsmennirnir hirtu verðlaunin

Þann 15. desember voru úrslit síðan kunngjörð. Kom þá í ljós að fyrstu og þrjðju verðlaun féllu í skaut starfsmanna Ali og voru þeir ekki í Facebook-hópnum né voru þeir skráðir í Google Docs skjalið þar sem fólk átti að skrá sig í mælingu. Í fjórum af fimm efstu sætunum voru starfsmenn Ali. Óánægður þátttakandi í keppninni segir við DV:

„Þetta þýðir að þau gátu peppað hvert annað upp í vinnunni og vissu af því að keppnin væri ennþá í fullum gír allan tímann á meðan við vorum látin hanga og dregin á asnaeyrum.“

„Finnst engum skrýtið að ekkert þessara nafna finnst í þessum hópi,“ spurði einn þátttakandinn en enginn þriggja verðlaunahafanna var meðlimur í FB-hóp keppninnar. Nokkrir fleiri þátttakendur tjáðu sig og kölluðu eftir upplýsingum. Var þeim tjáð að af persónuverndarástæðum væri ekki hægt að birta sæti þátttakenda en hægt væri að fá að vita sæti sitt í keppninni ef um það væri beðið.

Rikki G kemur af fjöllum

DV hafði samband við Ríkharð Óskar Guðnason, sem betur er þekktur undir nafninu Rikki G, en hann er dagskrárstjóri FM957 og einn stjórnanda þáttarins Brennslunnar þar sem keppnin hófst. Rikki var hissa þegar blaðamaður rakti fyrir honum þennan feril og virtist halda að keppnin hefði lagst af skömmu eftir að hún hófst.

„Ég kem af fjöllum. Þessi brennslukeppni átti að vera milli okkar þriggja þáttarstjórnenda og Hjálmars (innsk. blm. Hjálmar Örn Jóhannsson grínisti) en svo vildi Ali koma inn í þetta með okkur. Við vorum þá svolítið að auglýsa þá en svo héldu þeir bara sinn eigin leik og við tókum ekkert þátt í honum. Svo var það nú vegna covid og vegna þess að líkamsræktarstöðvar lokuðu, að þá ákváðum við bara að slaufa þessu. Við gátum ekki haldið áfram að segja við fólk „takið á því í ræktinni“ heldur urðum bara að segja þetta gott. Það var enginn grundvöllur fyrir því að halda þessu áfram þegar enginn var að stunda líkamsrækt á Íslandi. Við áttum að fá eitthvað frá Ali til að byrja með en svo duttu þeir út úr auglýsingadæminu og við erum undanskilin þessu.“

Rikka þykir sérkennilegt að sigurvegarar keppninnar hafi verið starfsmenn hjá Ali, en vill ekki tjá sig um það að öðru leyti.

Starfsmaður Ali sem sá um keppnina heitir Einar Páll Gunnarsson. DV hefur ekki tekist að ná sambandi við hann í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Fyrir utan ítrekaðar tilraunir til símtals var honum sendur tölvupóstur þar sem segir meðal annars:

„Keppendum þykir eftirfylgni ykkar hafa verið lítil og póstar sjaldgæfir. Þeir eru síðan undrandi á úrslitunum en allir sem unnu til verðlauna voru utan Facebook-hópsins þar sem keppendur voru skráðir til leiks.

Enn fremur virðast fjögur og af fimm efstu sætunum hafa fallið starfsmönnum fyrirtækisins í skaut og enginn þeirra var í umræddum Facebook-hópi.

Hvert er þitt sjónarhorn á málið? Heppnaðist keppnin vel að þínu mati? Er ekki mikilvægt að gera greinarmun á samkvæmisleikjum fyrir starfsmenn fyrirtækis annars vegar og fyrir almenning/viðskiptavini hins vegar?“

Erindinu hefur ekki verið svarað.

Ali heldur bingó í kvöld

Þess má geta að Jólabingó Ali verður haldið á Facebook í kvöld kl. 19:30. Þátttakandi í megrunarleiknum segir að fyrirtækið hefði átt að klára almennilega þann leik sem það var með í gangi áður en ráðist væri í annan markaðsleik.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Morðið í Rauðagerði: Angjelin sýndi lögreglunni hvað hann gerði með plastbyssu – „Sakborningurinn var á staðnum“

Morðið í Rauðagerði: Angjelin sýndi lögreglunni hvað hann gerði með plastbyssu – „Sakborningurinn var á staðnum“
Fréttir
Í gær

Tvö smit utan sóttkvíar

Tvö smit utan sóttkvíar
Fréttir
Í gær

Datt og þríbrotnaði á leiðinni frá eldgosinu – Lýsir mögnuðum náungakærleik Íslendinga og þakkar ókunnugu stúlkunni

Datt og þríbrotnaði á leiðinni frá eldgosinu – Lýsir mögnuðum náungakærleik Íslendinga og þakkar ókunnugu stúlkunni
Fréttir
Í gær

Telur að Leirfinnur hafi ekki verið að hringja í Geirfinn – „Maðurinn í leðurjakkanum“ hvarfinu óviðkomandi

Telur að Leirfinnur hafi ekki verið að hringja í Geirfinn – „Maðurinn í leðurjakkanum“ hvarfinu óviðkomandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Saga segir sig frá máli Sölva Tryggva – Biðst afsökunar á hlaðvarpinu

Saga segir sig frá máli Sölva Tryggva – Biðst afsökunar á hlaðvarpinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll: „Þetta hlýtur að vera einhver ljótasta birtingarmynd nauðgunarmenningar“

Jóhann Páll: „Þetta hlýtur að vera einhver ljótasta birtingarmynd nauðgunarmenningar“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einn greindist utan sóttkvíar

Einn greindist utan sóttkvíar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Björn hneykslaður á kynferðismálum Íslendinga og segir siðrof hafa orðið – „Hvað er eiginlega að gerast í þjóðfélaginu?“

Björn hneykslaður á kynferðismálum Íslendinga og segir siðrof hafa orðið – „Hvað er eiginlega að gerast í þjóðfélaginu?“