fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Væntanleg samtök líkamsræktarstöðva útiloka ekki hópmálsókn við ríkið – „Við höfum engan sérstakan áhuga á að fara í stríð“

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 15. desember 2020 16:17

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líkamsræktarstöðvar um allt land undirbúa nú stofnun samtaka líkamsræktarstöðva. Samkvæmt heimildum DV eru væntanlegir stofnaðilar nánast allar stöðvar landsins, bæði stórar og smáar. Tilefni stofnunarinnar eru tilskipanir hins opinbera um lokun líkamsræktarstöðva sem hluti af aðgerðum þeirra gegn útbreiðslu á kórónaveirufaraldrinum sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

Eigendur líkamsræktarstöðva hafa ekki falið í laungötur með óánægju sína undanfarnar vikur og mánuði. Þannig sendi Björn Leifsson, eigandi World Class stöðvanna, Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í síðustu viku lögfræðiálit sem hann lét vinna um lokanir líkamsræktarstöðva í kjölfar opnunar sundstaða. Í bréfinu krafðist hann þess að líkamsræktarstöðvar fengu að hefja starfsemi að nýju og vísaði til lýðheilsulegra hagsmuna.

Fleiri eigendur líkamsræktarstöðva hafa einnig stigið fram og mótmælt lokuninni. Þannig sagði til dæmis Jakobína Jónsdóttir, einn eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Granda 101, það óásættanlegt að líkamsræktarstöðvum sé skellt í lás á meðan hópíþróttir séu leyfðar. Forsvarsmenn fjórtán smærri stöðva höfðu þá sent bréf til heilbrigðisyfirvalda og sóttvarnalæknis þar sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við lokanirnar.

Líkamsræktarstöðvar hafa nú verið lokaðar síðan 5. október síðastliðinn samkvæmt reglugerð sem kynnt var 3. október. Þar áður var stöðvunum gert að loka frá 24. mars til 25. maí, eða í rétt rúma tvo mánuði.

Þá var sagt frá því í fréttum í síðustu viku að aðeins 36 smit væru rakin beint til líkamsræktarstöðva og 5 til sundlauga. Hafa forsvarsmenn stöðvanna bent á að 36 smit væru lítið í stóra samhenginu, en samkvæmt tölum á Covid.is í dag hafa 5.571 smit nú greinst á Íslandi frá upphafi faraldursins, 28. febrúar þessa árs.

Í samtali við blaðamann staðfestir Fannar Karvel Steindórsson, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Spörtu, að undirbúningurinn sé í gangi og að hann sé langt á veg kominn. Aðspurður hvort þetta sé ekki töluverð tíðindi, að stöðvar sem öllu jafna séu í harðri samkeppni séu nú komnar í samvinnu gegn aðgerðum ríkisins, segir Fannar rétt að stöðvarnar séu í harðri samkeppni en að samvinna sem þessi þekkist í öllum öðrum geirum. „Verslanir keppa sín á milli á markaði en eru svo saman í Samtökum verslunar og þjónustu, til dæmis,“ segir Fannar. „Það er í raun löngu tímabært að koma svona löguðu á laggirnar.“

Aðspurður hvort til standi að höfða hópmálsókn gegn hinu opinbera segir Fannar það ekki endilega eftirsóknarvert að fara dómstólaleiðina. „Við höfum engan sérstakan áhuga á að fara í stríð við ríkið. Við höfum miklu meiri áhuga á því að efna til uppbyggilegs samtals sem okkur hefur þótt skorta. Þó er dómstólaleiðin ekki útilokuð.“ Fannar staðfestir jafnframt að stöðvarnar hafa þegar leitað til lögmanna. „Ég get staðfest það, já, að við höfum leitað til lögfræðinga, rekstraraðilar stöðvanna það er að segja, og þau svör sem við höfum fengið þaðan gefa til kynna að á okkar rétti sé brotið í þessu máli. Það auðvitað gengur ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala