fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Tímavélin: Slökkvitækismorðið á Hringbraut – Blóðblettirnir sögðu söguna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 14. desember 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haustið 2007 varð Þórarinn Gíslason félaga sínum Borgþóri Gústafssyni að bana með því að slá hann ítrekað í höfuðið með slökkvitæki. Verksummerki á vettvangi komu upp um Þórarinn sem neitaði sök.

Stöð 2 sýndi í gær þáttinn Ummerki og var þar fjallað um vettvangsrannsókn í tengslum við morðið sem framið var á Hringbraut 121 árið 2007. Beitt var háþróaðri tækni við skoðun blóðferla á vettvangi en blóðblettir þóttu segja aðra sögu en hinn grunaði í málinu. Þannig sýndu lögun blóðbletta að þeir höfðu komið til við högg en Þórarinn hélt því fram að félagi hans hefði hóstað blóði. Þá greindust örlitlir blóðblettir á úlpu Þórarins sem varð til að varpa á hann sterkum grun en blóðið var úr Borgþóri. Upptökur úr eftirlitsmyndavél við verslun í nágrenninu sýndu enn fremur að Þórarinn og Borgþór höfðu rifist rétt fyrir morðið.

Þórarinn hringdi í lögreglu sunnudaginn 7. október og greindi frá því að Borgþór lægi meðvitundarlaus og blóðugur á heimili sínu að Hringbraut 121. Þórarinn var nágranni hans í fjölbýlishúsinu. Er lögregla kom á vettvang var Borgþór látinn en koddi var yfir höfði hans. Hann hafði fengið þung á höfuð og duftleifar úr slökkvitæki voru framan í honum. Slökkvitækið var á gólfinu og blóð úr Borgþóri var á því.

DV fjallaði um málið í prentútgáfu sinni 9. október 2007. Þar segir að íbúð Borgþórs hafi orðið að fíkniefnagreni:

„Íbúðin sem Borgþór bjó í er í eigu Félagsbústaða Reykjavíkurborgar. Eftir ítrekaðar kvartanir nágranna kröfðust Félagsbústaðir þess að Borgþór yrði borinn út. Málið fór fyrir dómstóla og kvað héraðsdómari upp úr að Borgþór skyldi áfram vera í íbúðinni vegna þess að hann hefði aðeins fengið eina formlega viðvörun. Samkvæmt leigusamningi þurfti hins vegar tvær.

Georg Viðar Björnsson, húsvörður í húsinu á Hringbraut, sagði í viðtali við DV í septemberlok að Borgþór hefði breytt heimili sínu í nokkurs konar greni. „Það er hálfur bærinn á eftir honum og fólk kemur til hans bæði dag og nótt. Ef hann er ekki heima fer það bara inn um svaladyrnar,“ sagði Georg Viðar. Nágrönnum stóð stuggur af hegðun Borgþórs en hann og gestir hans skildu eftir sig sprautur og nálar í húsinu.“

Reyndi að koma sök á nágranna

Í dómi Hæstaréttar í málinu árið 2008 er það reifað svo:

Þ var ákærður fyrir manndráp með því að hafa sunnudaginn 7. október 2007, veist að A á heimili hans, og slegið hann minnst þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitæki, með þeim afleiðingum að höfuðkúpa A brotnaði á þremur stöðum og hann fékk mikla heilablæðingu sem dró hann til dauða að kvöldi. Þ neitaði sök. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að sannað væri að Þ hefði á þeim tíma sem hér um ræðir verið að langmestu leyti í óminnisástandi og því væri ekki byggjandi á reikulum framburði hans. Með vísan til blóðbletta á fatnaði Þ, blóðs úr A á slökkvitækinu, tæknirannsóknar lögreglu og til vitnisburðar nánar tilgreindra vitna, var talið sannað að Þ hefði slegið A að minnsta kosti þremur þungum höggum í höfuðið með slökkvitækinu sem sannað var með áliti réttarmeinafræðings að hefði leitt hann til dauða. Þá var talið að Þ hefði ekki geta dulist að höfuðhöggin myndu leiða A til dauða. Var Þ sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hann dæmdur til 16 ára fangelsisvistar. Fallist var á skaðabótakröfu systkina A að fjárhæð 504.733 krónur, en hún var reist á reikningum sem tengdust sakarefni málsins. 

Þegar Þórarinn var spurður út í áverkana á Borgþóri á vettvangi sagðist hann ekki hafa veitt honum þá en sagðist hafa konu sem bjó í húsinu grunaða. Eftir að lögregla hafði rætt við konuna var ekki talin ástæða til að gruna hana um ódæðið.

Niðurstaða dómstóla var að Þórarinn væri sakhæfur. Morðtilefni kom hins vegar aldrei fram og er hulið um hvað félagarnir tveir deildu. Þórarinn bar við óminni fyrir atburðum.

Þórarinn var dæmdur í 16 ára fangelsi. Hann var dæmdur til að greiða rúmlega hálfa milljón í skaðabætur og um 1,3 milljónir í málskostnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Í gær

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work