fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Fleiri hliðar á stóra leikskólalokunarmálinu – „Hvað með starfsfólk hjúkrunarheimila? Hvenær mega þau fá frí?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 11. desember 2020 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Okey, ég verð kannski ekki vinsælasti bæjarbúinn fyrir að skrifa þetta en ég bara verð aðeins að tjá mig,” skrifar Aníta Estíva Harðardóttir, blaðamaður K100 í færslu á Facebook þar sem hún fjallar um fyrirhugaða lokun leikskóla í Árborg milli jóla og nýárs.  En margir hafa hrósað sveitarfélaginu fyrir uppátækið og hvatt önnur til að leika það eftir. Aníta á tvö börn á grunn- og leikskólaaldri.

Á fundi fræðslunefndar Árborgar í gær lagði Arna Ír Gunnarsdóttir formaður nefndarinnar fram tillögu um að leikskólar Árborgar yrðu lokaðir á milli jóla og nýárs árið 2020. Tillagan var samþykkt samhljóða og verða leikskólar því lokaðir dagana 28.- 29. og 30. desember næstkomandi. „Í ljósi þess mikla álags sem verið hefur á leikskólastarfsfólk um langt skeið vegna heimsfaraldurs Covid-19 verði leikskólar Árborgar lokaðir dagana 28., 29. og 30. desember árið 2020 og starfsfólki leikskólanna gefið jólafrí þessa daga.“ segir í frétt dfs.is um málið.

Aníta bendir á að í þessari umræðu verði að taka tillit til þess að foreldrar geti ekki gengið að því vísu að fá frí milli jóla og nýárs og hvað þá að ganga að því vísu að geta komið börnum sínum í pössun. Leikskólakennarar eigi hrós skilið fyrir að hafa staðið vaktina í heimsfaraldri COVID-19, en þeir séu þó ekki þeir einu sem hafi staðið sína plikt í miklu álagi. Aðrir starfshópar, einkum í heilbrigðis- og velferðargeiranum hafi unnið óeigingjarnt starf í miklu mótlæti á þessum tímum, en eigi þó engu að síður ekki kost á því að fá frí milli jóla og nýárs þar sem að stofnunum þeirra sé ekki hægt að loka.

Það eru allir þreyttir

Ein helstu rökin fyrir lokuninni hefur verið þreyta starfsmanna sem hafa staðið í ströngu í heimsfaraldri COVID-19

„Ég skil 100% að það sé þreyta í fólki. Það eru allir búnir að vera undir álagi, það eru allir þeyttir, svartsýnir og gjörsamlega búnir á því á þessu ástandi en það eru ekki allir sem geta tekið frí á milli jóla og nýjárs. Það er bara ekki þannig.. Það eru ekki allir foreldrar sem hafa bakland til þess að passa fyrir sig börnin á meðan þau sækja vinnu. Þetta er ekki svona svart og hvítt,” segir Aníta.

Jafnframt bendir hún á að það hefur mætt á fleiri starfshópa en leikskólakennara í faraldrinum.

„Hvað með starfsfólk hjúkrunarheimila? Hvenær mega þau fá frí? Hvenær má loka hjúkrunarheimilum svo að starfsfólkið geti fengið frí með börnunum sínum? Og hver ákveður hvort að ég megi taka mér frí af því að ég á börn, en ekki ungi starfsmaðurinn sem á ekki börn? Hann á foreldra sem honum langar að eyða jólunum með. En það er bara ekki hægt að loka á aðfangadag.. senda starfsfólkið heim og láta gamla fólkið redda sér..

Og svei þeim atvinnurekendum sem gefa ekki bara öllu barnafólki frí þegar þeim hentar.. lokiði bara landspítalanum á milli jóla og nýjárs svo fólkið geti nú átt gleðileg jól.. Þetta er bara einfaldlega ekki svo einfalt.”

„Já en börnin þurfa frí“

Önnur rök fyrir lokun leikskóla milli jóla og nýárs hefur verið sú að börnin þurfi frí frá hávaðanum og áreitinu inni á leikskólanum. Aníta segir að enginn geri það að gamni sínu að senda börnin í leikskóla milli jóla og nýárs – oftast sé það vegna þess að foreldrar sjálfir fái ekki frí, enda bara hefðbundnir virkir dagar sem um ræðir.

„Það er ekki bara hægt að taka svona ákvörðun og segja „já en börnin þurfa frí“.. af því að börnin þurfa líka að foreldrarnir haldi vinnu, að foreldrarnir geti sent þau í leikskóla ef þau geta ekki reddað sér fríi.. Ég skal alveg lofa ykkur því að það telur til undantekninga að fólk sé að senda börnin sín í leikskólann á milli jóla og nýjárs ef þau eru sjálf í fríi. Það langar öllum (lang flestum) foreldrum að geta átt tíma með börnunum sínum í jólafríinu, en það bara geta það ekki allir! Það geta ekki allir bara ákveðið að mæta ekki í vinnuna af því að þeim langar frekar að vera heima að baka.”

Duglega fólkið fær yfir sig mestu drulluna

Auk þess séu allir orðnir þreyttir á ástandinu. Heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk hjúkrunarheimila, sambýla og fleiri staða sem ekki er hægt að loka séu líka þreyttir.

„Mörg þeirra hafa þurft að standa tvöfaldar vaktir dag eftir dag vegna þess að það er hreinlega ekki hægt að láta veikt fólk, gamalt fólk og fatlaða bíða á meðan þau taka sér frí.. Það er bara ekki hægt! Og þetta ótrúlega duglega fólk okkar sem stendur þessar vaktir er líka fólkið sem fær yfir sig mestu drulluna.. þau eru undirmönnuð og bæði aðstandendur og þeir sem þiggja hjálpina (heimilisfólk og sjúklingar) finnst þjónustan vera svakalega skert og eru fúl yfir því.. Og hverjum bitnar það á? Jú starfsfólkinu.. Starfsfólkinu sem er gjörsamlega útkeyrt, búið á því og algjörlega búin að keyra sig í kaf. Hafa jafnvel ekki hitt ættingja sína og vini í marga mánuði af því að þau sinna viðkvæmum hópi fólks sem þau vilja alls ekki óvart bera smit í. Þau fórna því sínu persónulega lífi fyrir þau.

Svakalegur fórnarkostnaður

Pabbi Anítu er íbúi á hjúkrunarheimili og segist hún gífurlega þakklát fyrir starfsfólkið þar.

„Vitiði hvað ég er þakklát fyrir það að á hjúkrunarheimilinu sem pabbi minn er á, sé starfsfólk sem er tilbúið til þess að mæta alla daga, útkeyrt, til þess að sinna honum? Til þess að taka á sig það sem við fjölskyldan getum ekki gert fyrir hann? Þau hafa jafnvel þurft að sleppa því að hitta ömmu sína á öðru hjúkrunarheimili til þess einfaldlega að geta sinnt pabba mínum.. Þetta er svakalegur fórnarkostnaður og þetta fólk á allt það besta skilið! Ég vildi óska þess að þau fengju frí á milli jóla og nýjárs. Ég vildi óska þess að allir gætu fengið frí á milli jóla og nýjárs.. En það er ekki hægt!”

Það er bara ekki hægt

Aníta tekur fram að hún er leikskólakennurum, grunnskólakennurum og frístundarleiðbeinendum gífurlega þakklát fyrir að hafa staðið vaktina í faraldrinum.

„Mér finnst þið öll eiga mikið hrós skilið, mikið þakklæti skilið. En það er bara hreinlega ekki hægt að ætlast til þess að allir foreldrar geti tekið sér frí á milli jóla og nýjárs og hvað þá með svona litlum fyrirvara.. Það er bara ekki hægt!

Trúið mér þegar ég segi að ég vildi óska þess að ég gæti bara tekið mér tveggja vikna jólafrí og eytt dýrmætum tíma með börnunum mínum en heimurinn virkar bara ekki svoleiðis. Ég þarf að fæða þau og klæða og þess vegna verð ég að sinna mínu starfi.. Það þarf að hugsa þetta aðeins lengra. Það þarf að skoða málið frá öllum hliðum og átta sig á því að það standa ekki allir í þeim sporum að hreinlega geta tekið sér frí.. Ekki af því að þau vilja það ekki, heldur af því að þau einfaldlega geta það ekki.Annars bara ást og friður til ykkar og gleðilegan fyrsta í Jólasveini”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu