fbpx
Mánudagur 18.janúar 2021
Fréttir

Felldu niður heimilisuppbót því uppkomið barn kom í heimsókn

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 20. nóvember 2020 09:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrefna Kristmannsdóttir, prófessor emeritus, ber Tryggingastofnun (TR) ekki góða söguna. Telur hún stofnunina níðast á lífeyrisþegum og leggja sig fram við að hafa af þeim lögtryggð réttindi. Hún skrifar um þetta í Morgunblaðið.

Hrefna vísar í nýlega skýrslu Ríkisendurskoðun sem sýndi fram á brotalamir í framkvæmd almannatryggingalaga og meðferð stjórnsýslumála hjá TR. Þar kom fram að mikill meirihluti lífeyrisþega fær rangar greiðslur, auk þess sem ítrekað hefur verið farið gegn stjórnsýslulögum við afgreiðslu mála.

Ekkert stóðst

Hrefna segir að sem betur fer þurfi hún sjálf ekki að byggja afkomu sína á greiðslum frá TR. Hún hafi þó reynslu af óskemmtilegum samskiptum við stofnunina.

„Nokkru eftir að ég fór á eftirlaun var mér bent á að samkvæmt þágildandi lögum sætti grunnlífeyrir ekki skerðingu vegna greiðslna frá lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og gæti ég átt þar nokkurn rétt. Ég hafði því samband við Tryggingastofnun og er skemmst frá því að segja að nær ekkert stóðst í afgreiðslu hennar og var ég því fegnust þegar ný lög bundu sjálfkrafa endi á þessi samskipti.“

Hrefna segir að þær fáu krónur sem hún hafi fengið frá TR hafi valdið vandræðum og svo virtist sem starfsmenn hefðu lítinn skilning á því hvernig gera ætti greiðsluáætlun og skömmuðust sín ekkert fyrir það.

„Sem dæmi má nefna að eitt sinn kom ég að vori með nýgerða skattskýrslu sem grunnlag fyrir greiðsluáætlun. Síðsumars fékk ég svo skilaboð frá stofnuninni um að „nú hefðu borist gögn frá skattyfirvöldum“ og því yrði greiðsluáætlun breytt. Þar sem skattskýrslan hafði ekkert breyst í meðferð skattyfirvalda spurði ég stofnunina hverju þetta sætti. Svarið sem ég fékk var að „við þurfum að hafa staðfest afrit af skýrslunni“!“

Bótalaus í marga mánuði

Hrefna þekkir þó til margra sem eigi afkomu sína undir afgreiðslu TR og segja margir farir sínar ekki sléttar.

Ættingi Hrefnu fékk endurnýjað örorkumat frá lækni sínum, lækni sem er einn helsti sérfræðingur landsins í þessum tiltekna sjúkdómi sem hrjáði viðkomandi ættingja Hrefnu.

„Engu að síður var öryrkinn kallaður í endurmat hjá lækni sem í upphafi viðtals viðurkenndi að hafa aldrei heyrt talað um sjúkdóminn sem hrjáði viðkomandi. Engu að síður úrskurðaði hann á grundvelli staðlaðs spurningalista stofnunarinnar að öryrkinn væri ekki óvinnufær.“

Í kjölfarið tók við margra mánaða barátta öryrkjans með tilheyrandi lögmanns- og lækniskostnaði þar til TR lét undan. Á þessum tíma fékk hann engar greiðslur. „Á meðan var öryrkinn bótalaus og hefur þetta mál vafalaust tafið verulega það hægfara bataferli sem hann og læknar vonuðust til að hann væri á.“

Tóku heimilisuppbótina

Hrefna nefnir annað dæmi um vin sinn sem er lífeyrisþegi. Hann lenti í því að TR hætti allt í einu að greiða honum heimilisuppbót

„Eftirgrennslan leiddi í ljós að ástæðan var sú að barn hans sem flutti utan til vinnu hafði skráð lögheimili hjá honum á meðan. Engar skýringar dugðu og varð að breyta skráningunni“

Þetta voru hins vegar ekki lokin á málinu.

„Þegar barn hans kom í stutt sumarfrí og dvaldi hjá honum kom óðara bréf frá stofnuninni sem tjáði lífeyrisþeganum að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að barnið byggi hjá honum og því yrði heimilisuppbót hans felld niður.“

Vill leggja TR niður

Hrefna segir að hægt væri að fylla bók með mun átakanlegri sögum um framkomu TR.

„Framkomu Tryggingastofnunar gegn þessum þegnum þjóðarinnar, sem eru nógu sveltir fyrir þótt ekki sé níðst á þeim og haft af þeim það naumt skammtaða viðurværi sem lög gera ráð fyrir. Því skora ég á stjórnvöld að leggja stofnunina niður og finna einfaldari, skilvirkari og mannúðlegri leið til að sinna verkefnum hennar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögregla heimsótti spjaldtölvuþjóf

Lögregla heimsótti spjaldtölvuþjóf
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pappakassar fullir af ógreindum leghálssýnum í Hamraborg

Pappakassar fullir af ógreindum leghálssýnum í Hamraborg