fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Tveir drengir teknir af móður – Tilkynningar frá skólanum og miklar áhyggjur barnaverndarnefndar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 13. nóvember 2020 20:00

Landsréttur. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms þess efnis að kona missir forræði yfir tveimur sonum sínum. Var þetta gert að kröfu barnaverndarnefndar en konan hefur notið aðstoðar hennar um alllangt skeið.

Konan er erlend en þjóðerni hennar kemur ekki fram í dómskjölum. Hún kom til Íslands sem hælisleitandi árið 2016 og fékk dvalarleyfi af mannúðarástæðum í mars árið 2017. Faðir eldri sonarins er látin og fór konan ein með forsjá beggja drengjanna. Konan er sögð eiga nær enga skólagöngu að baki, hún talar móðurmál sitt sem ekki kemur fram hvað er, en hvorki íslensku né ensku.

Konan hefur fengið stuðning frá Rauða krossinum, skóla og félagsþjónustunni við að aðlagast íslenskum aðstræðum. Fyrsta tilkynning vegna barnanna barst til barnaverndaryfirvalda árið 2018 og síðan hefur konan notið stuðnings barnaverndar. „Áhyggjur þeirra sem komið hafa að málum fjölskyldunnar hafi að mestu snúið að eldri drengnum sem hafi sýnt hegðunar-og tilfinningavanda í skóla og heima fyrir. Þá hafi verið áhyggjur af mætingum beggja drengjanna í skóla, námslegri stöðu þeirra og þeir hafi báðir verið félagslega einangraðir,“ segir í dómi héraðsdóms.

Árið 2018 barst barnaverndarnefnd tilkynning frá skóla drengjanna um ástand eldri drengsins. Í dómi héraðsdóms kemur fram að eldri drengurinn hafi þurft að bera ábyrgð á hinum yngri, hann hafi mikla innsýn í fjármál fjölskyldunnar og móðirin hafi barið hann:

„Tilkynnt var um tilfinningalega vanrækslu og að stefnda gerði miklar kröfur til eldri drengsins, en hann bæri t.d. ábyrgð á að koma yngri drengnum til og frá skóla. Í tilkynningu kemur einnig fram að eldri drengurinn fái ekki að taka þátt í tómstundum, starfsemi í félagsmiðstöð eða viðburðum á vegum skólans. Nokkrum dögum síðar bárust frekari upplýsingar frá skóla þar sem fram kemur að stefnda vakni ekki með drengjunum á morgnana, að þeir borði ekki morgunmat og komi ekki með nesti í skólann.
Þá hafi eldri drengurinn mikla innsýn í fjármál fjölskyldunnar. Starfsmaður barnaverndar ræddi við eldri drenginn sem staðfesti að hann mætti ekki fara í félagsmiðstöð eða sækja viðburði á vegum skólans. Sagði drengurinn jafnframt í viðtalinu að stefnda öskraði mikið og væri alltaf í símanum að leita að húsnæði annars staðar á Íslandi. Þá sagði drengurinn frá því að stefnda hefði stundum lamið hann með plaststykki úr bílabraut.“
Konan viðurkenndi fyrir starfsmanni barnaverndar að hún hafi lamið eldri drenginn þegar hann hlýddi ekki. Starfsmaðurinn útskýrði fyrir konunni alvarleika þess að beita börn ofbeldi.
Samkvæmt héraðsdómi er uppeldissaga drengjanna mikil sorgarsaga. Greint er frá atvikum þar sem móðir þeirra fór með þá í Kvennaathvarfið og skildi þá eftir þar. Þá greinir frá því að nágrannar hafi hringt á lögreglu vegna gruns um ofbeldi gegn drengjunum. Þá segir enn fremur: „Síðar í ágúst barst tilkynning frá grunnskólanum á […]þar sem fram komu áhyggjur af stefndu og þeim uppeldisaðferðum sem hún notaði. Í tilkynningu kom fram að stefnda hefði beitt eldri drenginn líkamlegu ofbeldi og hann væri hræddur við hana. Þá kom fram að stefnda bannaði drengjunum að sækja tómstundir utanskóla, sem og danstíma á skólatíma sem þeir vildu sækja.“
Fjölmörg önnur slík atvik og tilkynningar eru raktar í dómnum. Samkvæmt sálfræðimati er uppeldishæfni móðurinnar mjög skert og lagði sálfræðingur til að drengirnir yrðu vistaðir á fósturheimili. Forsjárhæfnimat var gert á konunni árið 2019 og á grundvelli þess ákvað barnaverndarnefnd að stefna henni til forsjársviptingar.
Konan dró forsjárhæfnismatið í efa og krafðist þess að halda forsjánni.
Það var niðurstaða héraðsdóms að konan yrði svipt forsjá yfir drengjunum og þeir yrðu vistaðir á fósturheimili.
Konan skaut málinu til Landsréttar sem staðfesti dóm héraðsdóms.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala