fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Landakot gróðrarstía fyrir smit samkvæmt skýrslu – Engin loftræsting og ófullnægjandi aðbúnaður

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 13. nóvember 2020 15:00

Mynd/Vilhelm

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástand og aðbúnaður á Landakoti fær falleinkunn í niðurstöðu úttektar sem gerð var vegna alvarlegrar hópsýkingar COVID-19 sem upp kom í október og tólf hafa látist vegna.

Í skýrslunni kemur fram að Landakot sé ekki með loftræstingu. Loftskipti eiga sér því stað í gegnum opna glugga.  Ekki er hægt að tryggja viðeigandi fjarlægð milli rýma í sjúkrastofum og getur fjarlægð milli rúma á legudeildum verið allt niður í 75 sentimetra.

Eins veldur sameiginleg salernis- og sturtuaðstaða því að sameiginlegir snertifletir eru margir og því hætt við snertismiti. Starfsmenn þurfa einnig að búa við óviðunandi aðbúnað og aðstöðu. Búningsaðstaða er með engri loftun og vegna framkvæmda hefur starfsfólk þurft að neita matar síns á stigapöllum og kaffistofum legudeilda. Kaffistofur eru oftast mjög litlar og erfitt að gæta að tveggja metra reglu innan þeirra. Úttektaraðilar veittu því eftirtekt að á þremur deildum var ekki að finna grímur á kaffistofum eða aðgengi að sjúkrahússpritti eða sótthreinsiklútum til að þrífa með.  Eins var ekki hægt að hólfaskipta sjúkrahúsinu þar sem ekki var nægilegt starfsfólk til að manna slíka skiptingu. Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafði ekkert gæðaeftirlit verið með ræstingum síðustu mánuði.

Samkvæmt skýrslunni þarf að bæta húsnæðisaðstæður Landakots verulega og auka mönnun eins þarf að tryggja að starfsmenn séu upplýstir um nýjar verklagsreglur og viti hvar þær eru að finna.

 

Hér fyrir neðan má lesa megin niðurstöður bráðabirgðarannsóknarinnar:

„Margþætt stjórnsýsluleg skipulagning og viðbrögð innan Landspítala hafa verið öflug og í samræmi við ráðleggingar Evrópsku Sóttvarnastofnunarinnar varðandi viðbúnað innan heilbrigðisstofnana vegna COVID-19 heimsfaraldurs.

Að mati skýrsluhöfundar þá er ekki ein undirliggjandi orsök fyrir COVID-19 hópsýkingunni sem kom upp á Landakoti þann 22/10/20 heldur voru tildrög og orsakir COVID-19 hópsýkingarinnar nokkrar og að í raun hafi margir samverkandi þættir legið að baki þeirri alvarlegu atburðarás sem átti sér stað.

Ytri aðstæður voru þær að mjög mikið var um COVID-19 samfélagssmit 1-2 vikum áður en hópsýkingin kom upp á Landakoti og undir slíkum kringumstæðum þá aukast mjög líkur á að smit berist inn á Landakot með starfsfólki, sjúklingum og/eða aðstandendum.

Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á COVID-19 tilfellum á Landakoti benda til þess að smit hafi hugsanlega borist inn á stofnunina með nokkrum einstaklingum. Dæmi eru einnig um að starfsmenn sem vinna á mismunandi starfseiningum innan Landakots tengist fjölskylduböndum og því má leiða líkur að því að sum tilfellanna hafi smitast af COVID-19 utan veggja Landakots, enda hafa rannsóknir sýnt að mestar líkur séu á smiti milli einstaklinga við náin samskipti innan heimilis. Á tímabilinu 22/10/20- 29/10/20 þá greindust alls 98 COVID-19 tilfelli í tengslum við hópsýkingu á Landakoti, þar af 52 starfsmenn og 46 sjúklingar. Það virðist hafa verið gríðalega mikil dreifing á smitefni innan Landakots því 24 hlutfall smitaðra meðal útsettra var mjög hátt. Á einni legudeild þá var voru 100% sjúklinga smitaðir og 52% starfsmanna og á annarri þá var hlutfallið um 93% meðal sjúklinga og 46% meðal starfsmanna.

Sýkingavarnir snúast að mörgu leyti um að rjúfa smitleið meinvalds og þar skiptir húsakostur og hreint umhverfi miklu máli. Það er mat skýrsluhöfundar að með tilliti til sýkingavarnasjónamiða sé ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti ófullnægjandi fyrir þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram og líklega megin orsök þeirrar miklu smitdreifingar sem varð innan stofnunarinnar.

Kæfisvefnsvélameðferð var beitt hjá inniliggjandi og einkennalausum einstaklingi (þ.e enginn grunur var um COVID-19 smit hjá viðkomandi) sem síðar greindist jákvæður með skimun eftir að hópsýking kom upp. Hér hafa líklega léleg loftskipti magnað upp aukna sýkingarhættu og smitdreifingu á SARS-CoV-2 því þekkt er að kæfisvefnsvél eykur dropaframleiðslu einstaklinga og vélin dreifir úðaögnum frá öndunarfærum. Smitandi úðaagnir geta verið í loftinu í meira en klukkustund.

Á Landakoti er viðkvæmur hópur sjúklinga, oft fjölveikt aldrað fólk sem oft þarfnast mikillar endurhæfingar eftir bráð veikindi. Sameiginlegir snertifletir inniliggjandi sjúklinga eru fjölmargir. Margir sjúklinganna eru á fjölbýli og hafa ekki aðgang að einkasalernis- eða sturtuaðstöðu. Margir eru í virku endurhæfingaferli og sækja hóptíma hjá sjúkra-og iðjuþjálfurum ásamt því að sjúklingar borða saman í dagstofu deildanna ef ástand þeirra leyfir. Þegar loftskipti eru léleg að þá er hætta á smit berist milli manna undir ofangreindum kringumstæðum þrátt fyrir að reynt sé að fylgja verklagsreglum um hópaskiptingar og gæta að öðrum persónubundnum sóttvörnum.

Aðstaða og aðbúnaður starfsmanna er ábótavant og til þess fallin að auka á líkur á smitdreifingu COVID19 meðal starfsfólks og má nefna í því samhengi að búningsaðstaða er þröng og kaffistofur eru litlar. Þannig að þrátt fyrir hópaskiptingu starfsmanna þá hefur oft reynst erfitt að halda 2 m fjarlægð þegar starfsmenn taka niður grímur til að matast.

Veikileiki var í mönnunarkerfi á Landakoti m.t.t hugsanlegrar smitdreifingar á milli mismunandi legudeilda því starfsmenn þurfa stundum að fara á milli deilda. Æskilegt hefði verið að bæta mönnun þannig að hægt hefði verið að tryggja hólfaskiptingu starfsmanna milli deilda á farsóttartímum. Með þetta sjónarmið í huga þá er sameiginlegur búnaður sem er geymdur inni á legudeildum óheppilegur því það leiðir til þess að starfsmenn fari á milli deilda að sækja sameiginlegan búnað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga