fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Hjúkrunarfræðingur undrast dýrar gjafir til starfsmanna ÁTVR – „Furða mig á í hvað skattpeningar almennings fara“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 13. nóvember 2020 15:54

Anna Margrét Pálsdóttir. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Á meðan vínbúðarstarfsmenn kúra sig undir rándýrum teppum keypt fyrir okkar skattfé þá er ekki hægt að veita almennilega heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri vegna fjársveltis og manneklu,“ segir Anna Margrét Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur á Facebook-síðu sinni.

Nýlega fengu allir starfsmenn ÁTVR veglegan gjafapakka. Samkvæmt svari frá ÁTRV til DV innihélt pakkinn eftirfarandi: „Pakkinn innihélt ullarteppi, ullarsokka, ilmkerti, hitapúða fyrir herðar, andlitsmaska, handáburð, olíu, varasalva og súkkulaði. Allt starfsfólk sem var í vinnu þegar pakkinn var afhentur fékk slíka gjöf,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, en verðmæti pakkans er 36 þúsund krónur.

Eiginmaður Önnu er starfsmaður ÁTVR en hún skrifaði eftirfarandi pistil um starfsmannagjöfina hans fyrir stuttu:

„Hjalti fékk í kvöld fallegan og veglegan gjafakassa frá vinnunni sinni, ÁTVR. ÁTVR er líklega það apparat sem er mikilvægast að halda opnu í gegnum faraldurinn, þaðan fær jú ríkið mest af sínum tekjum. Ef það þarf að loka vínbúðunum, þá fyrst kemur kreppa. Augljóslega. Það er því gífurlegt álag á starfsmönnum og þeir þurfa að vera á tánum allann daginn og passa upp á sóttvarnir. Í kassanum var allt sem þarf til að dekra við sig eftir erfiðan dag í vínbúðinni.
Ullarteppi frá Geysi að verðmæti 18.900 – Til að kúra sig undir.
Ullarsokkar frá Geysi – 3200 kr – fyrir kaldar og þreyttar táslur.
Kerti nr 21 frá ILM – 6900kr – Fátt meira róandi en kertaljós.
Snyrtivörutaska frá BlueLagoon – líklega ekki metin til fjár – Til að maska sig upp og hressa upp á þreytta húð.
ChitoCare handáburður – 3350kr – til að smyrja á sprittsprungnar hendur.
Grjónapoki til að hita – fyrir stífar og bugaðar axlir.
Stór plata af Omnom súkkulaði – Ekki hægt að eiga kósý dekurkvöld án þess að japla á íslensku súkkulaði.
Þessu fylgdi kort með kveðju og þökkum fyrir að standa sig vel á þessum óvenjulegu tímum.
Ég er alls ekki bitur eða abbó eða neitt en óska þess að ég væri líka í framlínustarfi.“
Anna segir í samtali við DV að hún hafi ekkert á móti því að ÁTVR geri vel við starfsmenn sína fyrir vel unnin störf á erfiðum tímum. En hún veltir fyrir sér hverjir teljist vinna framlínustörf á þessum tímum:
„Ég er ekki að segja að starfsfólk ÁTVR eigi ekki umbun skilið fyrir sín störf. Og ég er ekki að ætlast til þess að vera umbunað með gjöfum. En miðað við þessar gjafir virðist vera mjög mikilvægt að starfsfólk ÁTVR sé ánægt og úthvílt. Hafa þarf í huga að á meðan verið er að veita skattfé í þessar gjafir er ekki hægt að veita viðunandi heilbrigðisþjónustu í faraldrinum samkvæmt orðum landlæknis, vegna manneklu og fleira. Það er ekki hægt að semja um mannsæmandi laun við mikilvægar heilbrigðisstéttir,“ segir Anna og bendir líka á muninn á menntun starfsmanna ÁTVR og heilbrigðisstarfsfólks í framlínustörfum:
„Tek fram líka að starf í vínbúð krefst ekki háskólamenntunar, eins og mitt starf. Þessar gjafir til starfsmanna ÁTVR eru til að þakka fyrir vel unnin störf á óvenjulegum og krefjandi tímum. Líkt og þeir séu í framlínu, samanber heilbrigðisstarfsfólk, kennara og fleiri. Það er alveg biluð samlíking. Á meðan fá alvöru framlínustarfsmenn sem eru að vinna í beinni snertingu við veiruna ekki einu sinni stofuheitt kók því þeir mega jú ekki taka grímurnar niður tímunum saman. Þeim sem mest þyrftu á slökun og dekri að halda er þrælt út allan sólarhringinn og fá ekki einu sinni greidd eðlileg laun, hvað þá einhverja umbun. Bakverðir fá laun sem rétt duga fyrir kippu af Svala. Ég gæti haldið áfram í allan dag,“ segir Anna og ítrekar að hún sjái engum ofsjónum yfir gjöfum til starfsmanna ÁTVR en óneitanlega veki þetta hana til umhugsunar.
Vitað er til þess að heilbrigðisstarfsfólk hefur fengið gjafir frá Ölgerðinni. Einnig var heilbrigðisstarfsfólki greiddur álagsbónus eftir fyrstu bylgju covid-19 í vor en sá bónus var tengdur við vinnuhlutfall.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“