fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Umdeilda embættið auglýsir eftir mannauðsstjóra – Sviðin jörð að baki

Jón Þór Stefánsson
Laugardaginn 31. október 2020 12:10

Lögreglan á Suðurnesjum

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Fréttablaðinu í dag birtist auglýsing frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum þar sem að óskað var eftir mannauðsstjóra hjá embættinu. Mannauðsstjóri ber líkt og nafnið gefur til kynna ábyrgð á mannauðsmálum hjá embættinu, en samkvæmt auglýsingunni er markmiðið með stöðu mannauðsstjóra að tryggja góða þjónustu og gagnsæi gagnvart starfsmönnum. Þá kemur einnig fram að mannauðsstjóri sitji í yfirstjórn embættisins.

Mál tengd lögreglunni á Suðurnesjum hafa verið áberandi seinustu misseri. Margir muna eflaust eftir máli Ólafs Helga Kjartanssonar, sem var færður frá því að vera lögreglustjórinn á Suðurnesjum, yfir í starf sérfræðings í málefnum landa­mæra í dóms­mála­ráðu­neytinu. Áður hafði verið greint frá því að Ólafur myndi taka við stöðu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, en sagt var að það væri tilraun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í að bola honum frá lögreglunni.

Þegar Ólafur var í embætti bárust sögur um að hann hafi prentað út klúran texta á sameiginlegum prentara starfsstöðvar sinnar og fækkað fötum í návist samstarfsmanna.

Þá greindi DV frá dramatískum seinasta degi Ólafs í embætti. Upplýsingar bárust um að honum væri þá meinaður aðgangur að eigin skrifstofu. Sjálfur neitaði hann því.

Einnig hefur mikið verið fjallað um eineltismál hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Tveir starfsmenn lögreglunnar á Suðurnesjum kvörtuðu til fagráðs lögreglu vegna meints eineltis tveggja yfirmanna, Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðings, og Helga Þ. Kristjánssonar, mannauðsstjóra.

Niðurstaða fagráðs í því máli var sú að ekki hafi verið um einelti að ræða, það er að segja; samkvæmt þeirri skilgreiningu eineltis sem ráðið vinnur eftir. Þá hafi fagráð einnig komist að þeirri niðurstöðu að augljóst væri að mikill stjórnendavandi og samskiptaörðugleikar væru innan embættisins.

Auglýsing um starf Mannauðsstjóra var eftirfarandi:

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum óskar eftir að ráða metnaðarfullan einstakling í stöðu mannauðsstjóra embættisins.

Hlutverk embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum er hvers kyns löggæsla, landamæraeftirlit, rannsóknir lögreglumála og sakamála. Lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum er annað stærsta lögregluembætti landsins en starfssvæðið þess er allt Reykjanesið. Verkefni embættisins eru afar fjölbreytt og krefjandi. Embættið vann stefnumótunarvinnu 2019 þar sem eitt af markmiðum þess er að vera eftirsóknarverðasta lögregluembætti landsins. Hjá embættinu starfa um 170 manns á þremur starfsstöðvum. Aðalskrifstofa embættisins er að Brekkustíg 39, Reykjanesbæ.

Mannauðsstjóri ber ábyrgð á mannauðsmálum embættisins í umboði lögreglustjóra og situr í yfirstjórn embættisins. Markmið starfsins er að tryggja góða þjónustu og gagnsæi gagnvart starfsmönnum embættisins, stöðugar umbætur og utanumhald um verkefni tengd mannauðsmálum.

Helstu verkefni og ábyrgð Helstu verkefni mannauðsstjóra eru meðal annars:

  • Stefnumótun, þróun og framkvæmd mannauðsmála.
  • Aðstoð og ráðgjöf til stjórnenda á sviði mannauðsmála.
  • Mat á mannaflaþörf, skipulag og umsjón með ráðningum.
  • Ábyrgð á fræðslu stjórnenda og almennra starfsmanna þ.m.t. móttaka og þjálfun nýliða.
  • Samskipti við stéttarfélög, framkvæmd kjarasamninga, réttindamál og aðbúnaður.
  • Umsjón og undirbúningur starfsmannasamtala.
  • Umsjón með sí- og endurmenntun starfsmanna.
  • Önnur verkefni sem honum er falið af lögreglustjóra.

Menntunar- og hæfniskröfur

  • Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi er skilyrði.
  • Starfsreynsla á sviði stjórnunar og mannauðsmála er skilyrði.
  • Þekking og reynsla af sviði stjórnsýslu og vinnuréttar er æskileg.
  • Þekking og reynsla af gæðamálum, greiningu og gerð verkferla er æskileg.
  • Þekking og reynsla af úrvinnslu tölfræðilegra gagna kostur.
  • Sjálfstæði í vinnubrögðum og góð hæfni í mannlegum samskiptum.
  • Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi.
  • Góð skipulagshæfni og sjálfstæði í starfi.
  • Góð kunnátta í íslensku og hæfni til að miðla upplýsingum í rituðu og töluðu máli.

Umsóknir

Umsókn skal fylgja ferilskrá, kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda í starfið, auk afrita af prófskírteinum.

Umsóknarfrestur er til og með 23. nóvember n.k. og sækja skal um stöðuna með rafrænum hætti á vef Starfatorgs, www.starfatorg.is. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf við fyrst tækifæri eða eftir nánara samkomulagi. Upplýsingar um starfið veita Pétur Óli Jónsson, í síma 444-2200 eða poj01@logreglan.is eða Grímur Hergeirsson, settur lögreglustjóri, í síma 444-2200 eða gh01@logreglan.is.

Ráðningakjör eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og viðkomandi stéttarfélags. Starfshlutfall er 100% og heyrir starfið undir lögreglustjóra. Umsóknir sem berast eftir að umsóknarfresti lýkur verða ekki teknar til greina. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Vakin er athygli á því að engan má ráða til starfa hjá lögreglu sem hlotið hefur fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað sem framinn var eftir hann varð fullra 18 ára eða sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem starfsmenn lögreglu verða almennt að njóta. Til þess að staðreyna þetta er lögreglu heimilt að afla upplýsinga úr sakaskrá og málaskrám lögreglu, sbr. 28. gr. a. lögreglulaga nr. 90/1996.

Umsóknir munu gilda í 6 mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út, með vísan til 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingar á lausum störfum, sem settar eru samkvæmt heimild í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Persónuverndaryfirlýsing til umsækjenda um störf hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum má sjá nánar á eftirfarandi vefslóð; https://www.logreglan.is/logreglan/umdaemin/sudurnes/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga