fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Heiðrún útskýrir skjalamálið og hjólar í Gísla Martein – „Hann hlýtur að stíga fljótt fram og biðjast afsökunar“

Jón Þór Stefánsson
Laugardaginn 31. október 2020 17:11

Samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiðrún Lind Mart­eins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjávar­út­vegi, er ósátt með innslag Gísla Marteins Baldurssonar, sem birtist í þætti hans Vikan, sem sýnd var á RÚV í gærkvöldi. Í innsalginu gerði Gísli grín að Heiðrúnu vegna þess að afsökunarbeiðni útgerðarinnar, sem sér um skipið Júlíus Geirmundsson, virtist vera í hennar nafni.

Líkt og flestir vita þá er Júlíus Geirmundsson frystitogarinn þar sem að flestir sjómenn voru með COVID-19, en eru þrátt fyrir það sagðir hafa unnið.

Umtal um afsökunarbeiðnis-skjalið var talsvert seinustu helgi, en Heiðrún segir að hún hafi gert drög að afsökunarbeiðninni, það sé hluti af hennar starfi. Þá tekur hún fram að það sem hún hafi viljað að kæmi fram í þessu skjali væri að útgerðin myndi biðjast innilegrar afsökunar.

Í þætti Gísla í gær sagði hann að Heiðrún skrifaði bæði afsökunarbeiðnina og gagnrýndi útgerðina í fjölmiðlum, þá grínaðist hann með að hún væri tilbúin að vinna öll störf fyrir útgerðina. Líkt og áður segir hefur Heiðrún nú svarað þessari gagnrýni Gísla.

Heiðrún virðist óánægð með vinnubrögð Gísla og vonast eftir því að fá afsökunarbeiðni frá honum. Hún segir eðlilegt að einstaklingur í hennar starfi verði fyrir gagnrýni, en vill að hún byggist á „staðreyndum eða rökum“. Þá bendir hún á að orð framkvæmdarstjóra fyrirtækisins sem Gísli hefði vitnað í kæmu ekki frá henni eða yfirlýsingunni, heldur úr viðtali við hann.

Að lokum grínast Heiðrún lítillega, en hún segist vera tilbúin með afsökunarbeiðni handa Gísla, biðji hann hana um slíka og þá segist hún vera spennt fyrir því að mæta í næsta þátt hans.

Hér að neðan má lesa færslu Heiðrúnar:

„Ég vinn fyrir stóra atvinnugrein og málefni hennar eru stundum umdeild. Ég þarf því að sæta því að það sem ég geri og segi verði gagnrýnt – af hálfu félagsmanna SFS, stjórnmálamanna, fréttamanna og almennings. Yfir því kveinka ég mér ekki, en ég geri þá sanngjörnu kröfu að gagnrýnin byggi á staðreyndum eða rökum. Í liðinni viku hefur mér þótt stöku fjölmiðlamenn virða þetta að vettugi. Það hefur einfaldlega verið farið rangt með. Þegar mér var síðan í dag bent á að horfa á innslag Gísla Marteins, í þætti sínum í gær um fréttir liðinnar viku, tók steininn úr.

Um síðustu helgi aðstoðaði ég þá sem gera út fiskiskipið Júlíus Geirmundsson við að færa í orð afsökunarbeiðni vegna þeirra mistaka sem gerð voru þegar skipverjar tóku að veikjast. Yfirlýsinguna má meðal annars sjá hér.

Þegar mál koma upp á meðal félagsmanna SFS, þar sem alvarlega út af bregður í starfseminni, þá liggur það í hlutarins eðli að ég eigi samskipti við hlutaðeigandi og fái upplýsingar um hvers eðlis mál eru. Í þessu máli liggur fyrir að ákvarðanir sem teknar voru þegar bera fór á veikindum skipverja voru ekki í samræmi við skýrar leiðbeiningar sem gefnar höfðu verið út af SFS og stéttarfélögum sjómanna. Afleiðingar þess voru afdrifaríkar. Forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu í nægu að snúast eftir að ljóst var hvers eðlis var. Úr varð því að ég færði í orð þau skilaboð sem þeir vildu koma á framfæri. Skilaboðin voru aðeins ein; þeir báðust einlæglega afsökunar. Ég var sammála þeim skilaboðum. Í yfirlýsingunni sem send var fjölmiðlum, var hvergi vísað til fordæmalausra tíma eða að menn hefðu ekki þekkt þann faraldur sem geisað hafði síðan í mars. Þau ummæli eru höfð eftir framkvæmdastjóra fyrirtækisins í viðtali við Vísi og ég hafði eðli máls samkvæmt ekki aðkomu að þeim. Ég reyni að liðsinna þegar þess er þörf, en ég er ekki svo alltumlykjandi að ég fari í viðtöl í nafni einstakra félagsmanna minna.

SFS gera þá kröfu að félagsmenn fylgi lögum og fyrirmælum. Þetta hef ég ítrekað sagt þegar upp hafa komið mál þar sem út af hefur brugðið í starfsemi einstakra félagsmanna SFS. Að því leyti þurfti ekki umhugsunar við vegna þessa máls. Hins vegar taldi ég þetta mál ekki þess eðlis að við ítrekuðum einfaldlega þessa eðlilegu afstöðu. Ég vildi ekki tala um þessa skipverja eins og þeir væru eitthvert atvik á blaði, frávik frá leiðbeiningum, lærdómur. Heilsu þeirra var teflt í tvísýnu og ég vona að yfirlýsing mín, fyrir hönd SFS, hafi komið því skýrlega á framfæri að slíkt má aldrei gerast. Yfirlýsingu SFS má meðal annars lesa hér.

Það getur vel verið að þessi atburðarás hafi verið Gísla Marteini og öðrum óskeikulum mönnum sem segja fréttir mikið skemmtiefni. Nú gangi ég í öll störf og segist ekki þekkja þetta Covid. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort þessir aðilar mættu ekki við og við huga að lögum og leiðbeiningum sem þeirra störfum eru sett. Þess hlýtur jú að finna stað í skrifuðum reglum, að ekki sé farið rangt með staðreyndir. Í ljósi þeirrar gagnrýni sem Gísli Marteinn hafði á fyrrgreinda atburði, þá hlýtur hann að stíga fljótt fram með yfirlýsingu og biðjast afsökunar á því að hafa farið ranglega með staðreyndir og þar með ekki virt skýrlega skrifaðar reglur. Að vanda er ég boðin og búin að færa þá afsökunarbeiðni í orð, ef þessi gamli vinur minn óskar slíkrar aðstoðar. Við sjáumst svo kannski í næsta þætti.“

https://www.facebook.com/heidrun.marteinsdottir/posts/10158230593158037

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala