fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Ofbeldið í næsta húsi – „Horfðu í kringum þig“

Tobba Marinósdóttir
Föstudaginn 30. október 2020 18:20

Skýrsla um ofbeldi gegn börnum kom út á vegum UNICEF 2019 en þyrfti að koma út árlega ásamt markvissu aðgerðarplani.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiðari DV 30 október 2020

Hvernig stendur á því að börn eru beitt ólýsanlegu ofbeldi, jafnvel nokkrum húsum frá okkur sjálfum, á meðan við hrærum í grjónagrautnum og leggjum á borð? Staðreyndin er sú að ofbeldi er ein stærsta ógnin sem börn á Íslandi standa frammi fyrir. Tæplega eitt af hverjum fimm börnum hefur orðið fyrir líkamlegu – og eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn en miðað við þann fjölda eru það rúmlega 13 þúsund börn samkvæmt skýrslu um Ofbeldi á Íslandi sem Unicef gaf út árið 2019. Hér er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti, en þá væri talan mun hærri.
Og þessar tölur eru yfir hið óhuggulega ástand sem við búum við í dag með aukinni ofbeldistíðni.

Lastu þetta örugglega? Þrettán þúsund börn sem verða fyrir ofbeldi!

Það er opið svöðusár í hverjum bekk og það fleira en eitt ef miðað er við höfðatölu. Það er barn í þínum vinahóp, fjölskyldu, tómstundum eða annars staðar í nærumhverfi sem hefur orðið fyrir – eða á eftir að verða fyrir ofbeldi.

Við verðum að stíga fast inn og uppræta ofbeldi gegn börnum. Það er hjálp að fá. Það er gott fólk víða. Það er til ást og umhyggja. En það er allt of flókið að tilkynna ofbeldið og fá aðstoð. Leiðin fyrir niðurbrotið barn er löng. Barn sem hefur jafnvel misst trúna á fólkið sem átti að vernda það. Að leita á heilsugæslustöð eða til kennara getur verið of langt, of óyfirstíganlegt. Of rekjanlegt. Of erfitt.

Við verðum að skapa aðstæður þar sem börn geta leitað skjóls og tjáð sig. Það er galin staðreynd að skólar eru ekki skyldugir til að bjóða upp á sálfræðiaðstoð börnum að kostnaðarlausu. Það er galið að sérmenntað fólk sé ekki í hverjum skóla til að finna þessi börn. Börnin sem búa við hrylling og fela ömurleikann innra með sér. Börnin sem eru rænd æsku sinni.

Af hverju er ekki hægt með örfáum smellum að senda ábendingu í gegnum síðu sem barn kann á – samræmdar aðgerðir í öllum grunnskólum? Af hverju er ekki kassi einhvers staðar í öllum skólum sem hægt er að setja nafnlausar ábendingar í? Af hverju er ekki ítrekað farið yfir þessa möguleika með börnum?

Af hverju í andskotanum teygjum við ekki á hálsliðunum og horfum í kringum okkur? Skiptum okkur af? Björgum mannslífum, sálarlífi og framtíð barna? Þú getur sprittað á þér hendurnar en ef þú bregst ekki við grun um ofbeldi í kringum þig ertu þátttakandi. Þátttakandi í sálarmorði.

Vertu betri manneskja. Horfðu í kringum þig með gagnrýnni hugsun. Gefðu færi á þér ef minnsti grunur er á að barn eða fullorðinn einstaklingur búi við ofbeldi.

Gerðu það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat