fbpx
Miðvikudagur 20.janúar 2021
Fréttir

Félag sérkennara fagnar 50 ára afmæli á Covid tímum – Segja takmarkanir leggjast þyngst á þá viðkvæmustu

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 29. október 2020 15:00

Stjórn Félags sérkennara á Íslandi mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Félag sérkennara á Íslandi fagnar í dag 50 ára afmæli, en það var á þessum degi fyrir hálfri öld síðan að efnt var til stofnfundar sérkennara á Hótel Sögu.

Í fundargerð stofnfundarins segir að Magnús Magnússon hafi verið skipaður fundarstjóri og Ragna Freyja Karlsdóttir ritari fundarins. Reistu þau þá félag á grunni félags sem hafði starfað frá 1960, Félag kennara til hjálpar afbrigðilegum börnum.

Sædís Ósk Harðardóttir, formaður félagsins, sagði við blaðamann DV að nafn þess félags sé vísbending um hvernig viðhorf og orðanotkun var á þessum tíma. Það félag hafi hins vegar verið lagt niður samhliða stofnun félagsins sem nú fagnar 50 ára afmæli.

Að sögn Sædísar á sérkennsla mun lengri sögu en 50 ár, en hana má rekja aftur til 1867 er fyrsti sérkennarinn hóf kennslu að loknu námi í kennslu mállausra. „Á þeim tíma var allt nám sótt til annarra landa þar til framhaldsdeild Kennaraháskólans tók til starfa árið 1968,“ segir Sædís.

Segir félagið koma víða að

Sædís segir að verkefni félagsins séu fjölbreytt og spanni allt frá því að veita ráðgjöf og umsögn í málaflokknum hjá sveitarfélögum og menntamálayfirvöldum og yfir í að koma að stofnun Hljóðbókasafnsins og Þroskahjálpar. Þá hefur félagið til að mynda komið að starfi vinnuhópa í málefnum læsis, stefnu um nám án aðgreiningar og fleira.

Félagsmenn í dag telja um 450 manns og sinna þeir kennslu á öllum skólastigum, þ.e. leik- grunn- og framhaldsskólum.

Sædís segir sérkennslu og félag sérkennara mikilvæg í flóru kennslumála á Íslandi. „Tilgangur félagsins er margþættur, en markmið félagsins er til dæmis að vinna að alhliða framförum í uppeldi og kennslu nemenda með sérþarfir, vinna að réttinda og kjarabaráttu sérkennara, að vinna að bættri grunn- og framhaldsmenntun sérkennara og  vinna að endurmenntun sérkennara.“ Þá segir hún að félagsmenn séu einstaklega öflugir og virkir þátttakendur í starfinu sem sé ómetanlegt. „Við erum með ótrúlega öfluga félagsmenn sem eru mjög virkir þátttakendur í starfinu og láta sig málefni nemenda miklu varða. Félagið stendur fyrir fjölda námskeiða og ráðstefnum og erum við núna að undirbúa eina slíka sem á að vera í lok nóvember í tengslum við aðalfund okkar, líklega verður sú ráðstefna í streymi sökum Covid-19.“

Baráttan háð á mörgum vígvöllum

Sædís segir jafnframt að baráttumál félagsins séu á mörgum vígvöllum. „Það eru auðvitað kjara- og réttindamálin, en við erum félagsmenn í FG, FF og FL sem vinna ötullega að þeim málum. Svo höfum við staðið í áratuga langri baráttu um að fá starfsheiti okkar, sérkennari, lögverndað.

„Við höfum hins vegar ekki náð eyrum ráðamanna þrátt fyrir marga fundi og pósta um þetta. Ekki hefur verið minnst á sérkennara í lögum um grunnskóla eftir síðustu breytingar á lögunum,“ segir hún og veltir fyrir sér hvort það sé „tabú“ að tala um sérkennslu og sérkennara. „Við störfum í skólum sem starfa eftir stefnu um nám án aðgreiningar og þar skipta sérkennarar gríðarlega miklu máli og því er mikilvægt að halda sérfræðiþekkingu okkar þar uppi. Sérkennarar eru lykilfagfólk til að stefnan um nám án aðgreiningar geti gengið upp, ekki einungis hvað varðar kennslu nemenda, heldur einnig hvað varðar greiningu og ráðgjöf um kennslu þeirra.

Starfið tekið miklum breytingum

Sædís segir að starf sérkennara hafi tekið miklum breytingum í gegnum árin og að sérkennarar sinni nú mikil til ráðgjöf við aðra kennara sem svo sinna eigin kennslu. „Í raun sinna sérkennarar ótrúlega fjölbreyttum störfum, margir eru í stjórnun í sínum skólum, til dæmis sérkennslustjórar í leikskólum, deildarstjórar stoðþjónustu í grunnskólum og sviðstjórar á sérnámsbrautum í framhaldsskólum. Einnig starfa sérkennarar til dæmis við skólana Klettaskóla, Brúarskóla og sérdeildir við aðra skóla. Félagar okkar starfa hjá sveitarfélögum sem kennsluráðgjafar og sérkennsluráðgjafar við leik- og grunnskóla.“

Þá segir hún að skortur sé á sérkennurum vegna þess hve verkefnum hafi fjölgað. „Í skóla margbreytileikans erum við með afar ólíkan nemendahóp sem þarf að sinna faglega,“ segir Sædís, „því er mikilvægt að ráða til starfa sérfræðinga í þeim málaflokki. Inn á borði hjá okkur eru nemendur með ýmiskonar fatlanir, nemendur með námsörðugleika, nemendur með kvíða og vanlíðan, nemendur sem eiga við mikinn hegðunarvanda að stríða og nemendur með geðraskanir.“

Covid hefur tekið sinn toll í sérkennslunni sem annars staðar. Lýsir Sædís því að þegar hömlur hafi verið settar á skólastarf í vor hafi ekki verið í boði fyrir kennara að fara á milli og því hafi sérkennsla mikið til fallið niður hjá ákveðnum hópum. „Mjög margir nemendur voru hafðir heima og því miður var það oft viðkvæmasti hópurinn okkar sem þarf mikið utanumhald og stuðning og sáum við afturför hjá mörgum nemendum er þeir komu til baka.“

„Núna hefur þetta gengið betur,“ segir Sædís, „sérstaklega í leik- og grunnskólum þar sem kennslu hefur verið haldið uppi og er það mikilvægt fyrir nemendur. Þetta hefur verið flóknara í framhaldsskólum á sérnámsbrautunum þar sem kennsla hefur verið skert og nemendur ekki fengið kennslu alla daga. En þetta er verkefni og áskorun sem við erum að takast á við og það er sérgrein okkar sérkennara að takast á við flókin og krefjandi verkefni og áskoranir, við erum í því alla daga í okkar starfi.“

„Að vera sérkennari er virkilega gefandi, skemmtilegt, fjölbreytt og krefjandi starf þar sem enginn dagur er eins,“ segir hún að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lést í reiðhjólaslysi í Breiðholti

Lést í reiðhjólaslysi í Breiðholti
Fréttir
Í gær

Loftur lager kemur út á dánarafmæli Lofts Gunnarssonar

Loftur lager kemur út á dánarafmæli Lofts Gunnarssonar