fbpx
Miðvikudagur 20.janúar 2021
Fréttir

Martröð Þórarins á sveitabæ – Segist hafa verið látinn vinna launalaust og lögreglu sigað á hann – „Þetta var algjör niðurlæging“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 26. október 2020 19:52

Þórarinn Ólafsson. Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ekki bara erlent starfsfólk sem getur lent í launaþjófnaði,“ segir Þórarinn Ólafsson, niðurbrotinn eftir auðmýkjandi meðferð hann hann segist hafa hlotið á sveitaheimili í nánd við Eyjafjöll. Dvölin varð að martröð, að sögn Þórarins, og áður en yfir lauk höfðu bæði lögregla og Rauði krossinn blandast í málið.

Þórarinn er 42 ára gamall Reykvíkingur. Hann er nýskilinn og er hann flutti frá eiginkonu sinni þáði hann atvinnutilboð fyrir austan fjall. Snerist það um viðhald á húsnæði og palli fyrir veturinn. Konan sem réð Þórarinn til starfa er um sextugt og hafði áður rekið gistiheimili á staðnum en sú starfsemi liggur niðri.

„Það var sagt við mig: Þú færð að búa hér frítt, þú færð frítt fæði og svo færðu laun,“ segir Þórarinn. Hann segir að það hafi dregist að semja um launin og hann hefur ekki fengið neitt greitt. Matinn þurfti hann að kaupa sjálfur því ekkert var til á staðnum nema útrunnin matvæli. Herbergið sem hann fékk til afnota segir hann að hafa verið ókynt og það hafi verið eins og frystikista. Önnur laus herbergi í húsinu voru full af drasli.

Þórarinn segir að verkefni hans hafi fljótlega breyst í eitthvað allt annað en það sem hann var ráðinn til að vinna:

„Það komu engar græjur. Ég átti að háþrýstiþvo pallinn og mála hann en það komu hvorki tæki né málning. Ég var settur í verkefni sem aldrei hafði verið sagt að ég ætti að vinna og var eiginlega orðinn butlerinn hennar eða þjónustupía,“ segir Þórarinn en svo fór að það var hann sem eldaði en ekki konan. Gekk hann á eigið fé, sem var ekki mikið fyrir, uns það var uppurið.

Drukkin kona sigaði á hann lögreglu

Þórarinn segir að konan hafi mjög oft verið drukkin þó að það komi í sjálfu sér ekki hans sögu beint við; en hún tók mjög óstinnt upp þegar hann lýsti yfir áhyggjum af drykkju hennar og sagði hann gæti hunskast burtu ef hann væri ekki ánægður.

Þórarinn var loks orðinn svo ósáttur við stöðuna að hann fór í einskonar verkfall í nokkra daga. Því lauk með því að konan hringdi á lögreglu og lét fjarlægja hann af staðnum. Sú uppákoma varð Þórarni mikið áfall því hann hafði ekkert gert sem kallaði á afskipti lögreglu.

„Ég hef aldrei vitað til þess áður að starfsmaður sé fjarlægður með lögregluvaldi af vinnustað nema hann hafi gert eitthvað af sér. Þetta var niðurlæging, þetta var algjör niðurlæging,“ segir Þórarinn sem segist stíga fram í viðtali með sögu sína til að láta vita af því að svona misferli viðgangist líka gagnvart Íslendingum, ekki bara erlendu starfsfólki.

Á þessum tímapunkti var Þórarinn bæði peningalaus og húsnæðislaus því hann var fluttur út frá eiginkonu sinni í Reykjavík og peningunum hafði hann eytt í uppihald á þessu heimili sem hann var nú hrakinn frá.

Haft var samband við Rauða krossinn á svæðinu með aðstoð í huga en eftir einhver samskipti milli lögreglu og fulltrúa Rauða krossins á staðnum var niðurstaðan sú að hennar væri ekki þörf. „Til hvers er Rauði krossinn ef ekki til að hjálpa fólki í neyð,“ segir Þórarinn ósáttur.

„Mér fannst ég eiga allt undir þessari konu og vildi klára verkefnið. Þess vegna hélt ég kjafti og var undirgefinn. Því miður gerðum við enga skriflega samninga en áður en ég fór skrifaði ég reikning fyrir minni vinnu og afhenti henni fyrir framan lögregluþjónana.

Lögreglumennirnir útveguðu Þórarni strætómiða og skildu hann eftir að strætóstoppistöð hjá N1 bensínstöð. Fólk sem sá aumur á Þórarni greiddi fyrir hann nótt á gistiheimili í Reykjavík og þar dvelst hann nú en á þó ekki fyrir gistingunni.

„Ég hef verið niðurbrotinn eftir þetta. Ég var dæmdur á Facebook sem betlari af því ég var að skrifa um mína reynslu þar og kalla eftir hjálp,“ segir Þórarinn og tekur fram að hann sé ekki í neinni neyslu, noti ekki fíkniefni og smakki varla áfengi. Hann óttast að hans bíði gisting á í gistiskýlum þar sem mikið er um fólk í vímuefnavanda. Hann hefur sem betur fer fengið vinnu og hefur störf fljótlega. En hann er í raun heimilislaus. Vonast hann eftir aðstoð félagsmálayfirvalda í borginni til að komast í húsnæði.

„Sonur konunnar sér um fjármál hennar. Ég hef margoft sent honum skilaboð um málið en hann svarar engu lengur. Hann sagðist ekki hafa vitað af því að ég hefði verið þarna þar til ég sendi honum skilaboð.“

Þórarinn ræddi við verkalýðsfélag á staðnum en þar var honum sagt að lítið væri hægt að gera. Þó væri hægt að senda innheimtubréf til konunnar. Þau mál eru í óljósum farvegi.

Þórarinn telur sína sögu vera innlegg í umræðu um launaþjófnað og ljóst er hans mál er mjög svæsið hvað það snertir, a.m.k. miðað við söguna eins og hann ber hana á borð.

Rauði krossinn telur málið ekki heyra undir sig

DV hafði samband við fulltrúa í bakvarðasveit Rauða krossins á svæðinu sem kannaðist við málið en vildi þó ekki tala sérstaklega um það. Viðkomandi sagði þó að eins og blaðamaður DV rekti söguna væri þetta mál sem heyrði ekki undir Rauða krossinn heldur eitthvað sem félli undir verkefni félagsmálayfirvalda.

Fulltrúinn sagði Rauða krossinn bregðast við í neyð, til dæmis í kjölfar slysa, húsbruna og hamfara. En almennir atburðir sem geti hent hvern sem er heyri hins vegar undir félagsþjónustu.

Sterk réttarstaða en kannski veikari sönnunarstaða

DV hafði samband við Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra stéttarfélagsins Eflingar, og rakti honum sögu Þórarins. Efling hefur skorið upp herör gegn launaþjófnaði undanfarið. Viðar telur mál Þórarins óvenjulegt miðað við þau mál er varða launaþjófnað sem Efling fæst vanalega við:

„Án þess að þekkja þetta mál þá hljómar þetta ekki dæmigert. Við erum yfirleitt að eiga við raunverulega atvinnurekendur, ekki fólk sem er að fá einstaklinga til að búa heima hjá sér. En einstöku sinnum eiga sér stað jaðartilfelli og kannski er Hótel Adam málið þekkt mál af slíku tagi, en þar var þó um að ræða raunverulegt gistiheimili.“

Viðar telur Þórarinn klárlega eiga lögmæta kröfu á konuna þó að enginn skriflegur ráðningarsamningur liggi fyrir:

„Réttarstaða mannsins er í sjálfu sér ekki flókin. Ef þú vinnur hjá einhverjum þá gilda kjarasamningar sem ná yfir þau störf. Hann er kannski þarna að vinna almenn verkamannastörf og þá getur hann flett upp í kjarasamningi Starfsgreinasambandsins um hvað hann á að vera með í laun og hvað hann á að fá í orlof og svo framvegis. Stéttarfélag getur gert kröfu á þeim grundvelli, það þarf ekki að vera til staðar ráðningarsamningur til að það sé hægt. En sönnunarstaðan er annað mál. Ef það er farið í hart og öllu neitað þá þarf að vera hægt að færa sönnur á sitt mál. Hann þarf að hafa eitthvað í höndunum um að vinnan hafi verið unnin. Ef hann hefur tímaskriftir sem hafa verið gerðar sem næst í rauntíma þá er það mjög mikilvægt gagn í slíkum málum. Flestir skjólstæðingar okkar halda utan um sínar tímaskriftir. Réttarstaðan er semsagt yfirleitt sterk en sönnunarstaðan getur verið snúin í svona málum. Það getur verið orð á móti orði og þá er þetta orðið erfitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lést í reiðhjólaslysi í Breiðholti

Lést í reiðhjólaslysi í Breiðholti
Fréttir
Í gær

Loftur lager kemur út á dánarafmæli Lofts Gunnarssonar

Loftur lager kemur út á dánarafmæli Lofts Gunnarssonar