fbpx
Mánudagur 23.nóvember 2020
Fréttir

Telur opnun líkamsræktarstöðva mikil mistök og best að eigendur þeirra ákveði sjálfir að hafa þær lokaðar

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 21. október 2020 18:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Unnþór Jónsson lögfræðingur ræðir um sóttvarnir í nokkuð löngu máli í nýrri grein á Vísir.is en staðnæmist lengst við þá ákvörðun heilbrigðisráðherra að leyfa takmarkaða opnun líkamsræktarstöðva þvert gegn tilmælum sóttarvarnalæknis. Mega hópar undir 20 manns koma saman í stöðvunum undir stjórn þjálfara en ekki er leyfð almenn notkun á stöðvunum, t.d. tækjasal.

Þessi ákvörðun heilbrigðisráðherra var rökstudd með vísunum til reglna um meðalhóf og jafnræði. Um jafnræðisrökin segir Unnþór þetta:

„Í einföldu máli felur jafnræðisreglan það í sér að sambærileg mál skulu fá sambærilega meðferð og ósambærileg mál skulu fá ósambærileg meðferð. Vissulega er starfsemi líkamsræktarstöðva eðlislík íþróttastarfi. Hins vegar verður að hafa í huga að þegar kemur að sambærileika skiptir smithætta öllu máli, enda er tilgangur sóttvarnarreglna og tilmæla að koma í veg fyrir smit. Það þarf því að svara spurningunni hvort smithætta þeirrar íþróttastarfsemi sem lagt var til að yrði heimiluð í minnisblaði sóttvarnarlæknis sé sambærileg smithættu þeirrar líkamsræktarstarfsemi sem reglugerðin heimilar. Stutta svarið er nei, smithættan er ekki sambærileg.“

Um meðalhófsrökin segir hann: „Ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins var einnig rökstudd með vísan til meðalhófs. Hér skal ekki gert lítið úr því sjónarmiði enda er nauðsynlegt að við lærum að lifa með veirunni eins og sagt er. Aftur á móti skýtur það verulega skökku við að heimila þann hluta starfsemi líkamsræktarstöðva sem felur í raun í sér mestu smithættuna, þ.e. hópatíma innandyra. Hefði ráðuneytið viljað leyfa líkamsræktarstarfsemi að hluta þá hefði verið réttast að heimila fyrst hópatíma utandyra. Einnig má færa rök að því að starfsemi í tækjasal, með ströngum fjöldatakmörkunum og öðrum sóttvarnarráðstöfunum á borð við grímunotkun og tíðri sótthreinsun, feli í sér minni smithættu en sú starfsemi sem leyfð var.“

Hópsmit í spinning-tíma

Unnþór bendir á að þegar æft er í hóp í lokuðu rými dugi ekki ströngustu sóttvarnareglu til vegna hættunnar á úðasmiti:

„Þegar smitaður einstaklingur andar af ákefð í lokuðu rými getur þéttleiki lítilla dropa sem bera veiruna safnast saman og smitað aðra sem eru meira en tvo metra í burtu.

Í kanadísku borginni Hamilton átti sér nýlega stað stórt hópsmit út frá spinningtíma í líkamsræktarstöð. Stöðin fylgdi öllum tilmælum sóttvarnaryfirvalda og gott betur: Tveir metrar á milli hjóla, grímuskylda fyrir og eftir tíma, mikil áhersla á sótthreinsun, 50% nýttni hjóla auk margra annarra sóttvarna. Þrátt fyrir það tókst einum einstaklingi að smita 44 viðskiptavini og tvo starfsmenn og núna er borgin að glíma við eftirköst þeirrar hópsýkingar. Hópatímar með sambærilegri smithættu eru nú þegar farnir af stað aftur hér á landi og gætum við vel séð hópsmit út frá þeim. Ef það gerist er ljóst að baráttan við veiruna í þessari bylgju dregst á langinn og enn lengra í það að lífið geti færst í eðlilegra horf.“

Hvetur eigendur stöðvanna til að taka ákvörðunina

Unnþór telur hringlandahátt í sóttvarnareglum vera til ills og því væri ekki skynsamlegt að heilbrigðisráðherra tæki þessa ákvörðun til baka. Miklu betra væri að líkamstækarstöðvarnar sjálfar sýndu frumkvæði:

„Hvað er þá til ráða? Ætti heilbrigðisráðuneytið að hlaupa til og breyta sóttvarnarreglum enn einu sinni? Sá hringlandaháttur væri mögulega til þess fallinn að auka á gremjuna og óvissuna en slíkt gæti leitt til enn frekari óeiningar um sóttvarnaraðgerðir. Best væri ef líkamsræktarstöðvar myndu einfaldlega taka þá samfélagslega ábyrgu ákvörðun að fresta hópatímum innandyra á meðan staðan er jafn slæm og raun ber vitni. Ljóst er að fjölmargar stöðvar hafa gert það og er það til fyrirmyndar. Vonandi munu þær stöðvar sem eftir eru fylgja því góða fordæmi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fimmtán innanlandssmit í gær

Fimmtán innanlandssmit í gær
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Félagsráðgjafi segir venjulega krakka vera að ströggla – „Það spyr enginn, hvernig líður þér?“

Félagsráðgjafi segir venjulega krakka vera að ströggla – „Það spyr enginn, hvernig líður þér?“