fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Karl Berndsen er látinn

Einar Þór Sigurðsson, Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 29. janúar 2020 14:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Berndsen, hárgreiðslumeistari og sjónvarpsmaður, er látinn 55 ára aldri. Systir hans, Laufey K. Berndsen greindi frá þessu á Facebook og veitti DV góðfúslegt leyfi til að greina frá andláti hans. Karl hafði barist við alvarleg veikindi af miklu æðruleysi frá árinu 2013 en þá greindist hann með krabbamein.

Laufey minnist hans á Facebook-síðu sinni og segir að hann hafi fengið svefninn sinn langa og góða í gærkvöldi. „Friðsæll og fallegur með fallegu augun sín kvaddi hann okkur og þetta jarðneska líf. Við vorum öll hjá honum, sungum fyrir hann, spiluðum falleg lög fyrir hann, strukum honum og nudduðum. Rétt rúmlega hálf sjö í gærkvöldi opnuðust Himnarnir fyrir hann og hann tók síðustu andartökin þessi elska,“ segir hún.

Karl var í einlægu viðtali við DV árið 2016 en þá var hann 75 prósent öryrki eftir lífshættuleg veikindi.

Árið 2013 var greint frá því í fjölmiðlum að Kalli glímdi við krabbamein. Fyrst var talið að um heilaæxli væri að ræða. Seinna kom í ljós að krabbameinið var í eitlum. Við tóku fjölmargar lífshættulegar aðgerðir þar sem borað var í gegnum höfuðkúpu Kalla til að tappa af heilavökva. Hann var í dái í þrjá mánuði.

Kalli hafði skömmu fyrir veikindin slegið í gegn með útlitsþáttum sínum Í nýju ljósi sem sýndir voru á Stöð 2. Hann var landsþekktur fyrir að aðstoða konur og karla við að breyta útliti sínu til hins betra. Þá seldist bók hans VAXI-n eins og heitar lummur. Hann rak stofuna Beauty barinn í Turninum í Borgartúni. Vinsældir hans voru slíkar að Besti flokkurinn setti hann í heiðurssætið fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2010. Kalli lét enn frekar að sér kveða í pólitík og fór meðal annars í framboð fyrir Flokk fólksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.

DV vottar vinum og aðstandendum Karls innilegrar samúðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt