Mánudagur 24.febrúar 2020
Fréttir

16 ára sonur Guðlaugar í óhugnanlegu atviki í Mjódd: „Plís viltu loka dyrunum, það er maður að elta mig“

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 29. janúar 2020 12:06

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vil vekja athygli á þessu svo að börn og foreldrar séu meðvitaðir um að hætturnar geta leynst víða,“ segir Guðlaug Ósk Ólafsdóttir, móðir sextán ára pilts sem lenti í óhugnanlegu atviki í Mjódd á mánudagskvöld.

Þannig er mál með vexti að sonur hennar var að koma með strætó úr Hamraborg í Mjóddina þegar klukkan var rúmlega sjö um kvöldið. Þar þurfti hann að bíða í um 10 mínútur eftir strætisvagni til að komast heim til sín í Árbæ.

Orðinn vel hræddur

„Hann ákvað að fá sér sæti úti á meðan hann beið en fljótlega tók hann eftir manni sem færir sig nær honum og fylgist mikið með honum,“ segir Guðlaug og bætir við að syni hennar hafi eðlilega þótt þetta óþægilegt.

Sonur hennar stóð því upp og gekk rólega í áttina að Nettó en í kjölfarið tók hann eftir því að maðurinn fylgdi honum eftir. „Eftir því sem hann labbar hraðar þá labbar maðurinn hraðar,“ segir hún.

Sonur hennar fór inn í verslun Nettó og elti maðurinn hann þangað líka. „Hann hinkrar hjá afgreiðslukössunum þar sem þar er fólk því þarna er hann orðinn vel hræddur,“ segir hún.

Tók á sprettinn á eftir honum

Þegar þarna var komið sögu var strætisvagn 24 rétt ókominn og ákvað sonur hennar að ganga rösklega aftur í átt að strætisvagnasvæðinu. „En um leið og hann er kominn út sér hann að maðurinn er kominn á eftir honum. Þarna er hann orðinn mjög hræddur. Sonur minn ákvað því að hlaupa eins hratt og hann gat en maðurinn tekur þá á sprettinn á eftir honum,“ segir Guðlaug.

Guðlaug segir að sonur hennar hafi komist óhultur inn í strætisvagninn, en þegar þangað var komið bað hann bílstjórann að loka hurðinni og keyra af stað þar sem maður væri að elta hann. „Hann segir við strætóbílstjórann: „Plís viltu loka dyrunum, það er maður að elta mig.“ Bílstjórinn gerir þetta því hann sér hvað sonur minn er hræddur,“ segir Guðlaug sem vill koma þökkum á framfæri til bílstjórans sem hafi reynst syni hennar mjög hjálplegur. „Það má alveg hrósa strætóbílstjórum líka fyrir það sem þeir gera vel.“

Tilkynnti lögreglu um málið í morgun

Guðlaug segir í samtali við DV að maðurinn hafi aldrei sagt neitt og því alls óvíst hvað hann ætlaði sér. Augljóst hafi þó verið að maðurinn hafi verið á eftir syni hennar í annarlegum tilgangi og það eitt og sér sé nógu óhugnanlegt. Guðlaug segir að strákurinn hafi eðlilega verið skelkaður og hafi ekki getað gefið greinargóða lýsingu á manninum. Hann hafi þó verið svartklæddur, í svartri úlpu og með svarta húfu.

Guðlaug segir að hún hafi tilkynnt lögreglu um atvikið í morgun. Lögregla hafi sagst ætla að skrá málið en hún viti ekki hvort að eitthvað meira verði gert. Bendir hún á að myndavélar séu á svæðinu.

„Sonur minn gerði alveg rétt með því að fara inn í Nettó þar sem að þar er annað fólk. En við verðum að tala við börnin okkar og upplýsa þau um hvað sé best að gera í svona atvikum. Klukkan er ekki mikið þegar þetta gerist og fullt af börnum og unglingum enn úti á þessum tíma á leið heim af æfingum til dæmis,“ segir Guðlaug sem bætir við að lokum:

„Við verðum líka að vera meðvitaðri um hvað er að gerast í kringum okkur og ekki vera hrædd við að skipta okkur af ef það er eitthvað sem okkur finnst ekki vera í lagi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Davíð hellir sér yfir borgarstjóra: „Ætli Dagur hafi aldrei spurt sig: Af hverju fæ ég svona há laun?“

Davíð hellir sér yfir borgarstjóra: „Ætli Dagur hafi aldrei spurt sig: Af hverju fæ ég svona há laun?“