fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Kórónaveiran: Yfir 100 látnir og enn margir mánuðir í bóluefni

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 28. janúar 2020 09:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kórónaveiran hefur þegar orðið 106 einstaklingum að bana og að minnsta kosti 4.500 hafa veikst af völdum hennar. Sérfræðingar telja að veiran muni halda áfram að valda usla næstu mánuði og telja að enn séu að minnsta kosti átta vikur þar til hægt verður að hefja prófanir á hugsanlegu bóluefni gegn veirunni.

Kórónaveiran hefur þegar dreift sér um heimsbyggðina og í gærkvöldi greindist tilfelli af veirunni í Þýskalandi. Þá sagði DV frá því í gærkvöldi að íslenskt par á Spáni sé í einangrun vegna gruns um kórónaveiruna. Það hefur ekki verið staðfest en sýni er nú til rannsóknar til að fá úr því skorið.

Mail Online hefur eftir David Fisman, prófessor í faraldursfræði, að í besta falli muni veiran láta á sér kræla það sem eftir lifir vetrar og fram á sumar. Eftir það muni útbreiðsla hennar minnka mjög.

„Þetta er ekki eitthvað sem mun bara stoppa í næstu viku eða næsta mánuði,“ segir Alessandro Vespignani, prófessor í læknisfræði við Northeastern University. Allt þetta er þó byggt á vangaveltum sem byggja á reiknilíkönum um útbreiðslu veirunnar og samanburði við aðra sambærilega faraldra.

Ekkert bóluefni er til við veirunni enn sem komið er og í frétt Mail Online er bent á að ólíklegt að það muni verða að einhverju gagni nógu tímanlega í þessum faraldri sem nú geysar. Bandarísk heilbrigðisyfirvöld, í samvinnu við vísindamenn við Baylor University í Texas, eru nú sögð vinna að þróun bóluefnis en viðbúið er að það muni taka einhverja mánuði áður en prófanir á mögulegu bóluefni geta hafist. Því er afar ólíklegt að bóluefni líti dagsins ljós nógu tímanlega til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Á vef landlæknisembættisins má finna spurningar og svör varðandi kórónaveiruna.

Hvað er vitað um þessa nýju veiru og faraldurinn á þessu stigi?

Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er orsök þessa faraldurs ný tegund kórónaveiru, sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Enn er ekki vitað hversu smitandi veiran er, hversu alvarlegum veikindum veiran veldur eða hverjar smitleiðirnar eru. Faraldsfræðilegar upplýsingar eru enn takmarkaðar og því er margt óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Uppruni veirunnar virðist einkum vera í Wuhan borg í Kína og aðallega tengt ákveðnum matarmarkaði í borginni, en verið er að rannsaka frekari útbreiðslu veirunnar í Kína. Eins eru upplýsingar um veiruna (2019-nCoV) takmarkaðar, en samkvæmt ECDC virðist nýja veiran líkjast SARS veirunni erfðafræðilega og haga sér svipað þó hún virðist ekki eins skæð.

Hvað er kórónaveira?

Kórónaveirur eru stór fjölskylda veira sem valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum (m.a. fuglum og spendýrum). Kórónaveirur eru þekkt orsök kvefs en þær geta einnig valdið alvarlegri lungnabólgu og jafnvel dauða (eins og MERS-sýkingin í Mið-Austurlöndum frá árinu 2012 og SARS sýkingin frá Kína á árunum 2002-2003). SARS og MERS voru minna smitandi en inflúensa, en ollu faröldrum á ákveðnum svæðum og á sjúkrahúsum. Dánartíðni SARS- og MERS-sýkinganna var einnig mun hærri en fyrir inflúensu.

Er til bóluefni gegn nýju kórónaveirunni?

Það er ekkert bóluefni til gegn þessari veiru og því ekki hægt að bólusetja.

Hver eru einkennin?

Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, hálssærindi o.s.frv. 2019-nCoV getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu.

Hvaða meðferð er í boði?

Engin sértæk meðferð er þekkt við sjúkdómnum. Meðferð beinist því að einkennum eftir ástandi sjúklings. Almenn aðhlynning getur einnig komið að góðu gagni.

Hvað er vitað um smit manna á milli?

Yfirvöld í Kína staðfestu smit á milli manna þann 20. janúar 2020, þ. á m. smitaða heilbrigðisstarfsmenn, sem höfðu sinnt sjúklingum með nýju kórónaveiruna. Einnig hafa tilfelli greind utan Kína bent til smits á milli einstaklinga. Smitleið er ekki þekkt en allt bendir til að náin samskipti þurfi til. Vegna skorts á faraldsfræðilegum upplýsingum er ekki hægt að meta hversu algengt smit á milli einstaklinga er. Búist er við fleiri tilfellum í Kína á næstu dögum eftir að nýjar greiningaraðferðir hafa bent til tilfella utan Wuhan borgar.

Hver er hættan á frekari útbreiðslu?

Sýkingin hefur verið staðfest í löndum utan Kína (í ýmsum Asíulöndum, Ástralíu, Frakklandi og Bandaríkjunum,). Reynslan af SARS og MERS sýnir að viðeigandi smitvarnir eins og handþvottur og að bera pappír/klút fyrir vit við hnerra og hósta sem og einangrun sjúklinga er árangursríkt við að hefta útbreiðslu. Hættan á frekari útflutningi frá Kína er enn til staðar en sennilega hafa aðgerðir kínverskra stjórnvalda við að takmarka ferðalög innanlands og lokun flugvallarins í Wuhan veruleg áhrif á þá hættu. Tilhlýðilegar sóttvarnaráðstafanir þegar tilfelli koma upp í Evrópu munu væntanlega takmarka frekari útbreiðslu innan Evrópu.

Nánar á vef Landlæknis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“

Forsetaframbjóðandi greiddi fyrir viðtalið í NBC – Segir verðið trúnaðarmál – „I´m Gonna Win, There You Go“
Fréttir
Í gær

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“

Halla tjáir sig um ferilskrána: „Ég hef enga ástæðu til að ýkja eitt eða neitt í mínum bakgrunni“
Fréttir
Í gær

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar

Þrír forsetaframbjóðendur bera af á samfélagsmiðlum – Þetta eru tölurnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work

CCP og Smitten efst á nýjum lista Great Place to Work