Þriðjudagur 25.febrúar 2020
Fréttir

Benedikt fékk ónotatilfinningu: Þegar hann kannaði málið betur voru þjófarnir byrjaðir að tæma húsið

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 20. janúar 2020 11:00

Bíllinn sem mennirnir voru á er í eigu bílaleigu. Þá gáfu þeir upp falskt nafn við bókunina. Benedikt birti myndina til að vara aðra við og hvetja þá til að vera á varðbergi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það þarf að gera eitthvað í þessu. Þetta er í þriðja skiptið sem ég lendi í þessu,“ segir Benedikt Viggósson, eigandi Viking Cottages í Vaðlaheiði gegnt Akureyri. Tilviljun réði því að Benedikt greip þjófa í gærkvöldi sem voru að bera verðmæti úr einum af bústöðum Viking Cottages.

Benedikt vakti fyrst athygli á þessu í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. Þar birti hann mynd af bílnum sem þjófarnir voru á og upplýsingar um bókunina sem gerð var í gegnum vefinn Booking.com. Um var að ræða þrjá menn frá Austur-Evrópu sem bókuðu bústaðinn undir fölsku nafni og þá var símanúmerið sem þeir gáfu upp við bókun ótengt. Bíllinn sem þeir voru á er skráður á bílaleiguna Green Motion/Grundir.

Skyndilega búið að draga fyrir glugga

Benedikt var staddur á Akureyri í gærkvöldi en sjálfur er hann búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

„Það var í raun algjör tilviljun að ég var þarna. Ég seinkaði heimferðinni um einn dag vegna veðurs og svo hafði ég einhverja ónotatilfinningu fyrir þessari bókun; símanúmerið virkaði ekki þegar ég reyndi að hafa samband, mér fannst það skrýtið og mér fannst líka skrýtið að viðkomandi væri ekki kominn fyrr en svona seint,“ segir hann en þremenningarnir komu á staðinn seint í gærkvöldi.

Benedikt var staddur í húsi við hliðina á og fylgdist með því í gærkvöldi hvort einhver kæmi á staðinn. „Það gat alveg verið að viðkomandi hafði óvart skráð inn vitlaust símanúmer,“ segir hann en bókunin var fyrir tvo fullorðna einstaklinga.

„Svo þegar ég kíki út um gluggann sé ég að það er kominn bíll. Ég veitti því líka athygli að það var búið að draga fyrir gluggana í báðum svefnherbergjunum. Mér fannst það sérstakt því yfirleitt þegar um tvo einstaklinga er að ræða þá sofa þeir í sama herbergi. Ég ákvað því að fara út og keyra niður fyrir húsið, kanna málið betur og taka mynd af bílnúmerinu.“

Þegar Benedikt kom niður fyrir húsið mætti hann þremur mönnum sem voru byrjaðir að bera hluti út í bíl. „Einn af þeim hélt til dæmis á ryksugu en ég sá ekki alveg hvað hinir héldu á,“ segir hann. Tilgangurinn hafi þó verið augljós því skyndilega hafi verið búið að draga fyrir alla glugga í húsinu. „Þeir voru bara að undirbúa það að tæma húsið.“

Booking.com getur verið ormagryfja

Benedikt hafði samband við lögregluna sem brást skjótt við og handsamaði mennina sem reyndu að koma sér í burtu. Þegar lögregla kom á svæðið fékk hann skilaboð þess efnis að fleiri hefðu tilkynnt grunsamlegar bókanir. Þá hafði nágranni hans sem á hús rétt hjá samband í morgun því bókun undir nákvæmlega sama nafni hafði verið gerð á húsi í hans eigu. „Þessir aðilar voru bara í ránsleiðangri um landið.“

Benedikt segir ágætt að halda því til haga að umrædd bókun var gerð í gegnum bókunarvefinn Booking.com sem hann segir að sé hálfgerð ormagryfja.

„Það er fínt að taka það fram því þar getur fólk farið og skrifað hvaða nafn sem er, hvaða þjóðerni sem er, hvaða símanúmer sem er og hvaða kortanúmer sem er og bara verslað. Það er ekkert sem tengir þig við viðkomandi aðila. Þetta er algjörlega ómögulegt kerfi. Ég ætla að hafa samband við Booking í dag og gera verulegar athugasemdir við þetta fyrirkomulag. Ég er bara með einn gististað í Vaðlaheiði á Íslandi þannig að þú getur rétt ímyndað þér hvað er í gangi á heimsvísu.“

Eins og fyrr segir er þetta ekki í fyrsta skiptið sem Benedikt verður fyrir barðinu á þjófum. Í fyrra fór erlendur karlmaður ránshendi um sumarbústað í eigu Viking Cottages og stal Bang & Olufsen-hátalara, ullarteppi og víni svo eitthvað sé nefnt. Í viðtali við mbl.is í fyrra um málið sagðist Benedikt áætla að tjónið hefði verið 300 til 400 þúsund krónur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Íslenskir menntaskólanemar þurftu að snúa frá Ítalíu vegna Kórónaveirunnar

Íslenskir menntaskólanemar þurftu að snúa frá Ítalíu vegna Kórónaveirunnar
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Rifrildi í Klettagörðum enduðu með árás: Sagðist geta „slegið eins og Tyson“ og kinnbeinsbraut samstarfsfélagann

Rifrildi í Klettagörðum enduðu með árás: Sagðist geta „slegið eins og Tyson“ og kinnbeinsbraut samstarfsfélagann
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórarinn segir íbúa kolbrjálaða út í Dag: „Ég veit svo sem til þess að við heimili þitt að Óðinsgötu ert þú með einkastæði“

Þórarinn segir íbúa kolbrjálaða út í Dag: „Ég veit svo sem til þess að við heimili þitt að Óðinsgötu ert þú með einkastæði“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Örmagna í verkfalli

Örmagna í verkfalli
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Björn Ingi tjáir sig um dóm Héraðsdóms Vesturlands – Var dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir

Björn Ingi tjáir sig um dóm Héraðsdóms Vesturlands – Var dæmdur til að greiða þrotabúi Pressunnar 80 milljónir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sölvi er látinn: „Þar skiptust á skin og skúrir, von og vonleysi“

Sölvi er látinn: „Þar skiptust á skin og skúrir, von og vonleysi“