fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Þungar áhyggjur af brunavörnum – Ringulreið, hreppapólitík og pissukeppni

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 1. júlí 2020 12:45

Frá eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg sumarið 2020. mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brunavörnum og eftirlit með byggingastöðlum og notkun bygginga á öruggan hátt er sinnt af yfir 122 mismunandi stofnunum, aðilum, fulltrúum og eftirlitum. Eru þessir aðilar dreifðir á bæði ríki og sveitarfélög. Slökkvilið landsins eru 38 talsins og sinna þau brunaeftirliti samhliða slökkvistörfum. Heilbrigðiseftirlitin eru tíu talsins og byggingafulltrúarnir eru 74. Brunaeftirlit sinnir aðeins eftirliti með brunastöðlum. Heilbrigðiseftirlit sinnir eftirliti með eftirlitsskyldum fyrirtækjum í hverju sveitarfélagi fyrir sig og er á forræði sveitarfélagsins. Sama á við um byggingafulltrúana 74, sem hafa eftirlit með nýbyggingum, veita byggingaleyfi og eiga að hafa eftirliti með því að nýting bygginga sé í samræmi við veitt byggingaleiga.

Á toppi eftirlitspýramídans trónir svo Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem er eina stofnunin á landinu sem hefur heildstæða yfirsýn yfir bæði byggingamál og brunaeftirlit. Er það m.a. verkefni brunaeftirlits stofnunarinnar að hafa eftirlit með staðbundnum brunaeftirlitum og slökkviliðum landsins, löggilda slökkviliðsmenn, rannsaka mannskæða bruna og setja reglugerðirnar sem byggingafulltrúar fylgja í sínum störfum.

Fagaðilar uggandi yfir flutningi brunaeftirlits HMS á Sauðárkróki

Nú er unnið að því að flytja brunadeild mannvirkjaöryggissviðs stofnunarinnar norður á Sauðárkrók og ætlar enginn starfsmaður deildarinnar að fylgja með. Er flutningur hluti af áætlun ríkisstjórnarinnar um að fjölga störfum á landsbyggðinni. Einn heimildarmaður DV sagðist uggandi yfir þessum bollaleggingum. Brunadeild HMS veitir brunaeftirlitum mikilvægan liðsstyrk og mikilvægt sé að þar sé fólk í brúnni sem þekkir vel til málaflokksins og getur veitt eftirlitsaðilum liðsstyrk. Ákvarðanir brunaeftirlitsaðila geta verið mjög íþyngjandi og eftirlitsaðilar upplifa sig eina og yfirgefna þegar þeir þurfa að standa í stappi við stóra rekstraraðila og gera íþyngjandi kröfur um úrbætur á brunavörnum. Þessar kröfur geta verið allt frá smávægilegum ábendingum upp í að beita þurfi dagsektum eða neita umsóknum um starfsleyfi. Þegar slökkvilið beitir slíkum íþyngjandi aðgerðum getur skipt höfuðmáli að til staðar sé virkt brunasvið á efri stigum stjórnsýslunnar.

Áhyggjur brunaeftirlitsmanna beinast ekki síst að því að Davíð Snorrason, sem veitt hefur brunadeild HMS forstöðu undanfarin ár, hefur lýst því yfir að hann muni ekki fylgja með í flutningunum norður á Sauðárkrók, frekar en nokkur annar. Mikið traust sé borið til Davíðs meðal eftirlitsmanna og slökkviliða eftir mörg ár af óreiðu innan Mannvirkjastofnunar, forvera HMS. Þykir hann hafa fært brunaeftirlit HMS inn í nútímann og aukið þjónustustig þess við slökkvilið landsins til muna. Hætt sé við að þessi stofnanaþekking tapist þegar allt starfsfólk brunaeftirlitsins hættir hjá HMS eða fer í önnur verkefni innan stofnunarinnar.

Ringulreið, hreppapólitík og pissukeppni í stofnanafrumskóginum

Heimildarmenn DV í slökkviliðum, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem og Reykjavíkurborg eru jafnframt á einu máli um að eftirliti sé á höndum alltof margra. Öllum þessum verkefnum gæti verið sinnt af eina og sama manninum, en gamaldags hreppapólitík og pissukeppni milli sveitarfélaga og ríkis hindri framþróun í þessum málum. Skref hafa verið stigin til hins betra en brotalamir séu víða, sér í lagi í minni bæjarfélögum þar sem óraunhæft sé að ætlast til þess af brunaeftirlitsmönnum að þeir sinni brunaeftirliti með nágrönnum sínum í litlu bæjarfélagi.

Tók einn heimildarmaður DV ímyndað dæmi af dekkjaverkstæði með uppsafnaða dekkjahrúgu í horni hússins innan um ófrágengna rafmagnsvíra. Samkvæmt verkskipulagi þessara eftirlitsaðila á brunaeftirlitið að fylgjast með útgönguleiðum, slökkvitækjum og öðrum atriðum reglugerðar 723/2017 um eldvarnir og eldvarnaeftirlit. Heilbrigðiseftirlitið sinnir svo eftirliti með umhverfis- og mengunarmálum og gæti þ.a.l. sett út á dekkjastæðuna og almennt hreinlæti. Þriðji eftirlitsaðilinn, byggingafulltrúinn, myndi svo setja út á frágang rafmagnsvíranna. Öll hafa þessi atriði þó með brunavarnir að gera. Sögunni fylgdi þó að samtal á sér stað á milli eftirlitsaðila og ef slökkvilið verður var við báglegan frágang rafmagns eða annarra atriði þá er þeim ljúft og skylt að tilkynna það. Það eru þó annmarkar á því enda fjöldi heilbrigðiseftirlitsaðila, slökkviliða og byggingafulltrúi ekki sá sami og umráðasvæði skarast þannig að erfitt sé að setja formlegar verklagsreglur um samskipti og samvinnu þessara ólíku eftirlitsaðila. Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins sinnir þannig öllu höfuðborgarsvæðinu en þarf að vinna með 14 mismunandi eftirlitum hjá sjö sveitarfélögum.

„Himinn og haf“ eru á milli þess hvernig og hversu vel þessi eftirlit vinna, að sögn heimildarmanns DV hjá slökkviliðinu.

Þurfa að skoða eitt mannvirki á dag, alla virka daga ársins

Einn meginþáttur brunaeftirlits eru reglubundnar úttektir á brunavörnum íbúða. Það nær þó ekki yfir íbúðahúsnæði. Slökkvilið eiga að hafa einn eftirlitsfulltrúa fyrir hverja 10 þúsund íbúa að lágmarki samkvæmt reglugerð um eldvarnir og eldvarnareftirlit. Þó skal taka mið af þeim áhættuþáttum sem eru í sveitarfélaginu. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, SHS, er með fimm eftirlitsmenn fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar búa um 220 þúsund íbúar og eftirlitsmenn því einungis einn fyrir hverja 44 þúsund íbúa.

Þessir 5 eftirlitsaðilar eiga að sinna, skv. þessari sömu reglugerð, skoðunum og úttektum á öllum byggingum sem falla í eftirlitsflokka reglugerðarinnar. Þetta eru til dæmis öll iðnaðarhúsnæði stærri en 1.000 fermetrar, gistirými, mannvirki þar sem búast má við fjölmenni, heilbrigðisstofnanir og aðrir staðir þar sem búast má við að fólk sé læst inni svo sem fangelsi og sambýli. Miðað við fjölda mannvirkja sem falla í þessa flokka og tíðni reglubundinna úttekta, má reikna með að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þurfi að sinna um það bil 1.200 skoðunum á ári.

1.200 skoðanir á ári nema um 5 skoðunum á dag hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og því ein mannvirkjaskoðun á hvern eftirlitsmann á hverjum einasta virka degi ársins, miðað við að allir eftirlitsmenn slökkviliðsins taki sér aldrei sumarfrí og verði aldrei veikir.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi

Flassari fyrir dóm – Sakaður um að hafa sýnt af sér ósiðlegt og lostugt athæfi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“