fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Uppnám í Gullkistunni – Starfsmaður grunaður um rán á skartgripum upp á margar milljónir

Jón Þór Stefánsson
Miðvikudaginn 10. júní 2020 19:53

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margra áratuga gamlir ættarskartgripir virðast hafa horfið af gullsmíðaverkstæðinu Gullkistan. Fyrrverandi starfsmaður er grunaður um stuldinn en hann er einnig grunaður um þjófnað á fjölmörgum öðrum skartripum, samtals að verðmæti sex til sjö milljónir.

Gullkistan er í eigu Dóru Jónsdóttur, konu af gullsmiðaætt, en Dóra er að nálgast nírætt.

Fornir og einstakir gripir úr 14 karata gulli

DV komst á snoðir um málið vegna Facebook-færslu Ragnheiðar Jónínu Sverrisdóttur, en skartgripir dóttur hennar, Söru, hurfu af verkstæðinu.

„Sara var svo óheppin að skartgripunum hennar var stolið í viðgerð. Þetta eru erfðagripir sem eru óbætanlegir. Hálsmenið smíðað af Rögnu Pétursdóttur, afasystur minni og hringurinn smíðaður af Aðalbirni Péturssyni afa mínum en hann lést 1955 og hann var hættur að smíða síðustu árin þannig að þetta eru háaldraðir gripir úr 14 karata gulli og einstakir. Ef þið verðið var við þessa gripi eða boðnir til sölu biðjum við ykkur um að hafa samband. Fundarlaunum heitið.“

Í samtali við DV segir Ragnheiður að skartgripunum hafi verið komið til Gullkistunnar í viðgerð í febrúar. Þegar þær fóru að reka á eftir skartgripunum hafi þeim verið sagt að þeim hafi verið stolið.

„Skartgripirnir voru í viðgerð hjá Gullkistunni. Þetta var búið að taka langan tíma, við fórum líklega með þetta í febrúar. Dóttir mín Sara hefur reynt að hringja og síðast var henni sagt að það ætti eftir að laga hringinn aðeins en konan var eitthvað vandræðaleg. Hún sagði dóttur minni svo á mánudaginn þegar hún ætlaði að sækja dótið að gripirnir hefðu verið teknir ófrjálsri hendi.ׅ“

„En þá fær hún þessar fréttir.“

„Sara var í sjokki því þetta eru erfðagripir sem hún fékk í útskriftargjöf árið 2014, þ.e. hálsmenið, en það er eitthvað styttra síðan hún fékk hringinn. Hún ætlaði að nota þetta þegar hún útskrifast 27. júní með B.Ed. í kennslu- og menntunarfræðum. En þá fær hún þessar fréttir.“

Segir Ragnheiður sem fékk að vita að fyrrverandi starfsmaður verkstæðisins væri grunaður um að hafa stolið gripunum. Aðstandendur Gullkistunnar segjast hafa lagt fram kæru á hendur manninum í lok apríl, en þau gruna hann um að hafa stolið talsvert meiru en bara þessum gripum.

Ragnheiður segir að margar ótrúlegar sögur séu í gangi og að málið sé líklegt til að vinda upp á sig. Skartgripirnir höfðu mikið tilfinningalegt gildi fyrir Ragnheiði og Söru enda um ættargripi að ræða. Ragnheiður óttast að þeir verði bræddir og seldir úr landi. Hún segist þó ekki ætla að sætta sig við að ekkert verði gert í málinu. Hún biðlar til fólks að láta vita hafi það upplýsingar um málið, og heitir fundarlaunum.

Fullar skúffur af gullskartgripum

DV hafði samband við Jón Jóhann, son Dóru, eiganda verslunarinnar. Jón segir að hann og móðir hans séu viss í sinni sök um að starfsmaður sé sekur um þjófnað. Umræddur starfsmaður hafi verið nemi hjá Dóru í þrjú til fjögur ár. Hann hafi brotið lítillega af sér í fyrstu en undir lokin hafi hann verið orðinn ansi djarfur.

Jón segir að þau séu búin að kæra málið til lögreglu og að mál Ragnheiðar og Söru sé alls ekki það eina. Jón vill meina að heildartapið sé upp á sex til sjö milljónir króna, en raunar sé margt af því sem er horfið ómetanlegt. Jón grunar manninn um að hafa stolið fullum skúffum af gullskartgripum, trúlofunarhring sínum og öðrum ómetanlegum ættargripum.

Telur hann hafa nýtt sér auð kvenna

Hann vill meina að maðurinn hafi nýtt sér að Dóra er orðin öldruð. Hann telur að hann hafi byrjað á litlum brotum til að vekja hugmyndir um að Dóra væri orðin gleymin og svo farið að gera meira og meira.

Jón viðurkennir að líklega hafi þau mæðgin gripið of seint inn í. Hann sagði blaðamanni nokkrar sögur af starfsmanninum, um atvik sem urðu til þess að Jón skipti um lása á verkstæðinu. Segir hann að maðurinn hafi nýtt sér auð kvenna.

Hér að neðan má sjá myndir af skartgripunum sem Ragnheiður og Sara misstu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu