fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Allt á suðupunkti í netheimum eftir Kastljóssviðtalið við Kára

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 27. maí 2020 22:15

Mynd: Skjáskot Kastljós

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil reiði geisar í netheimum eftir viðtal Kastljóss við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem kom fram að Íslensk erfðagreining mun að óbreyttu ekki taka þátt í skimunum fyrir kórónuveirunni hjá ferðamönnum á Keflavíkurflugvelli eftir 15. júní. Í Kastljósi í gærkvöld sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að líklega leitað yrði til ÍE vegna verkefnisins en veirufræðideild Landspítala annar engan veginn að skima fyrir þeim fjölda ferðamanna sem vonir standa til að heimsæki landið er líða tekur á sumarið.

Sjá einnig: Kári reiður út í Svandísi

Kári var afar reiður yfir viðtalinu enda hafa yfirvöld ekkert leitað til ÍE vegna verkefnisins og enginn fulltrúi frá ÍE er í verkefnisstjórn um skimun á Keflavíkurflugvelli. Kári sakar Svandísi um hroka og segir í viðtalinu: „Við ætlum ekki að koma að þessari skimun ef hún verður unnin undir stjórn heilbrigðismálaráðuneytisisn. Vegna þess að samskiptin við heilbrigðismálaráðuneytið  eru þannig að við treystum okkur ekki til þess.“

Kári sagði að heilbrigðisráðherra hagaði sér eins og hrokafull tíu ára stelpa.

Á síðasta blaðamannfundi Almannavarnanefndar vegna kórónuveirufaraldursins þakkaði Svandís Svavarsdóttir þríeykinu marglofaða sérstaklega fyrir sitt framlag en minntist ekki á Íslenska erfðagreiningu í ræðunni. Mátti af tali Kára í Kastljósi í kvöld skilja að honum hefði gramist þetta mjög.

DV hefur leitað stíft eftir viðbrögðum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í kvöld við ásökunum Kára Stefánssonar, en án árangurs. 

Netverjar reiðir

Mikil umræða hefur verið um viðtalið sem var um margt einstakt. Spyrillinn, Einar Þorsteinsson, sagði einu sinni við Kára: „Þú ert rosalega ruglaður, Kári!“ – Hann spurði Kára líka hvort hann væri ekki sjálfur eins og hrokafullur tíu ára strákur sem væri reiður af því hann hefði ekki fengið takk í beinni sjónvarpsútsendingu.

Sumir netverjar segja að Einar hafi sýnt Kára hroka, þar á meðal Helga Guðrún Eiríksdóttir, sem hefur skrifað bréf til RÚV vegna málsins. Í kommentakerfi DV segir hún:

„Þú ert ruglaður!“, sagði hann við Kára, sem hefur átt hvað mestan þátt í því að við erum komin á þann stað í covid19 faraldrinum sem við erum. Ég á bara varla orð. Kári hefði gert réttast í að standa upp og enda viðtalið þar og þá.“

Vigdís Pálsdóttir skrifar:

„Ótrúlegt viðtal í Kastljósi og ég tel að RÚV og þáttastjórnandi eigi að biðja Kára Stefánsson afsökunar. Íslenskri Erfðagreiningu ber engin skylda til að „hlýða“ heilbrigðisráðherra.“

Aðrir netverjar kalla Einar hrokafullan dóna.

Einar spyrill stígur fram

Ólína Kjefúlf Þorvarðardóttir skrifar pistil um málið á Facebook-síðu sinni þar sem hún minnir á gildi virðingar og þess að vera læs á tilfinningar og hugarþel. Ólína furðar sig á að heilbrigðisráðherra skuli gera ráð fyrir þátttöku ÍE í fyrirhuguðum skimunarverkefni án þess að hafa rætt við fyrirtækið:

„Íslensk erfðagreining verðskuldar vissulega heila þökk fyrir framlag sitt til samfélagsins síðustu vikur og sannarlega hefði átt að þakka fyrirtækinu sem verðugt var þegar verið var að útdeila blómvöndum og þökkum á blaðamannafundi um daginn. Ég skil vel að Kára Stefánssyni skyldi sárna – að hann skyldi fyrtast fyrir eigin hönd og samstarfsfólksins. Ég furða mig líka á því að heilbrigðisráðherra skuli gera ráð fyrir þátttöku ÍE í fyrirhuguðum skimunaraðgerðum, og tjá sig um það opinberlega, án þess að samtalið hafi átt sér stað við fyrirtækið. Það er með ólíkindum.

Einar Þorsteinsson hefði getað staðið sig betur þó að hann ætti góða spretti. Hann mátti sleppa þeirri yfirlýsingu að Kári væri „alveg ruglaður“ – slík ummæli eru ekki fagleg framkoma við viðmælanda, jafnvel þó að spyrlinum hafi fundist hann barnalegur (það fannst áreiðanlega fleirum). Við vissum samt öll sem horfðum að Kári hafði allnokkuð til síns máls, og ég fann til minnkunar yfir því að ÍE skuli hvorki hafa fengið formlegar þakkir né heldur verið haft með í ráðum varðandi framhaldið.

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, það sannast hér. Framkoma við fólk og virðing fyrir verkum þess skiptir máli hvort sem er í persónulegum eða opinberum samskiptum. Að vera læs á tilfinningar og hugarþel getur sparað bæði sársauka og fjármuni þegar svo ber undir.“

Einar Þorsteinsson, Kastljóssmaður, svarar Ólínu varðandi umdeild ummæli hans við Kára í þættinum:

„Þetta missti ég út úr mér eftir að hann sagði að hann hefði blokkerað Þórólf. Sem er talsvert ruglað. Þetta var ekki illa meint enda tók Kári því ekki þannig.“

Einkennileg framkoma stjórnvalda

Þórbergur Þórsson rithöfundur segir:

„Framkoma íslenskra stjórnvalda í þessu máli er satt að segja mjög einkennileg og dapurleg. Að ráðherra segi að Erfðagreining muni sjá um að greina það sem Landspítalinn ræður ekki við – án þess að nokkurn tíma hafi verið ráðgast við Erfðagreiningu – er eiginlega hneykslanleg framkoma. Að hafa aldrei þakkað Erfðagreiningu fyrir þeirra mikla framlag er líka hneykslanlegt.“

Þorsteinn Ásgeirsson skrifar áhugaverðan pistil um málið á Facebook. Þar segir hann að lögmál öfundarinnar hafi verið hér að verki, þegar minni spámenn segi „nú get ég“ eftir að snillingar hafi rutt brautina:

„Það er ekki hægt að neita því að Kári Stefánsson hefur kímnigáfu. Þetta kom mér í hug þegar ég hlustaði á hann í Kastljósi núna áðan. Hann sagði að hann myndi hugsanlega taka þátt í sýnatöku fyrir Covid við landamæri Íslands ef Þórólfur sá skemmtilegi maður hefði samband við hann en það væri að vísu litlar líkur á því hann hefði útilokað samtal frá honum.
Kjarninn í því sem Kári sagði var að Íslensk Erfðagreining hefði lagt gífurlega mikið af mörkum í baráttunni við Covid sjúkdóminn og heilbrigðisráðherra hafði af „hógværð“ sinni ekki þótt ástæða til að nefna það í lok blaðafundar þríeykisins. Hann sagði að fyrirtækið hans hefði skipulagt sína aðkomu að málinu og hefði getað tekið þátt í skipulagi landamæraeftirlits. Það hefði ekki verið gert. Síðan hafi Kári fengið fréttir af því að það ætti að ræða við hann þegar búið væri að skipuleggja herlegheitin.
Íslensk Erfðagreining er vísindafyrirtæki á heimsmælikvarða sem hefur gefið út yfir 600 ritrýndar vísindagreinar. Það hefur lagt mikið af mörkum til íslensks þjóðfélags. Minni spámenn segja oft; „nú get ég“ í stað þess að styðjast við þekkingu og reynslu snillinganna sem ruddu brautina. Þetta er lögmál öfundarinnar.“

Ekki hægt að afgreiða viðbrögð Kára sem frekju

Illugi Jökulsson rithöfundur telur heilbrigðisráðherra ekki vera á góðum stað og ekki sé hægt að afgreiða aðfinnslur Kára sem frekju:

„Nú munu ýmsir segja sem svo: Kári Stefánsson er frekur og móðgunargjarn. Menn geta haft þá skoðun á því sem þeir vilja. En eftir á að hyggja var stórkostlega skrýtið að ekki skyldi hafa verið minnst einu orði á Kára og strarfsfólk ÍE í hjartnæmri þakkarræðu Svandísar.

Það er svo áberandi að það er ekki hægt að afgreiða það sem gleymsku og það er heldur ekki hægt að afgreiða aðfinnslur Kára vegna þessa sem frekju.

Alls ekki. Því þetta sýnir að æðsti yfirmaður heilbrigðismála á Íslandi tekur á mikilvægri stundu þá meðvituðu ákvörðun af einhverjum undarlegum persónulegum ástæðum að minnast ekki á stóran hóp fólks sem átti mikilvægan þátt í þeim árangri sem náðst hefur gegn veirunni – og sami ráðherra ákveður að hafa sama hóp fólks ekki með í ráðum um næstu skref.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ráðherra sem tekur á örlagastundu svo persónulegar ákvarðanir ekki vera á góðum stað.“

UPPFÆRT KL. 22:30: SVANDÍS VILL EKKI TJÁ SIG

Svandís Svavarsdóttir svaraði fyrirspurn blaðamanns um viðbrögð við viðtalinu við Kára, og svar hennar var stutt og laggott: „Nei, takk.“

Einar Kárason gagnrýnir Kára

Einar Kárason rithöfundur vandar Kára Stefánssyni ekki kveðjurnar í þessari færslu á Facebook:

„Mér sýnist á ummælum margra vina minna á þessum vettvangi í kvöld, að botnlaus hroki og sjálfsupphafning, með tilheyrandi smásálarskap og fýlu, þyki núorðið merki um sérstaka mannkosti. Hvaðan það kemur veit ég ekki; þúsund ára bókmenntasaga okkar bendir ekki til þess að þannig sálarmyndir hafi yfirleitt þótt aðdáunarverðar.“

Meðal þeirra sem læka færsluna er Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.

Sigursteinn vill að stjórnvöld biðjist afsökunar

Sigursteinn Másson, höfundur þátta um sönn sakamál, skrifar:

„Vona og treysti því að stjórnvöld biðji starfsfólk íslenskrar erfðagreiningar afsökunar strax í kvöld!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Bretar vilja láta Úkraínu fá nýtt ofurvopn – Myndband

Bretar vilja láta Úkraínu fá nýtt ofurvopn – Myndband
Fréttir
Í gær

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit

Rúmlega 100 sýnendur taka þátt á Verk og vit
Fréttir
Í gær

Umboðsmaður barna á móti frumvarpi um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs – Ekkert samráð við börnin sjálf

Umboðsmaður barna á móti frumvarpi um hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs – Ekkert samráð við börnin sjálf