fbpx
Fimmtudagur 28.maí 2020
Fréttir

Ber lögregluna í Eyjum þungum sökum: „Ég upplifi mig sem sakborning en ekki brotaþola“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 16. febrúar 2020 09:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„En svo gerðist það vorið 2018 að ég þurfti að leita aðstoðar lögreglunnar í Vestmannaeyjum og ef ég hefði vitað þá það sem ég veit í dag þá hefði ég aldrei gengið inn um dyr lögreglustöðvarinnar í Vestmannaeyjum,“ segir í kvörtun sem barst nefnd um eftirlit með lögreglu haustið 2018. Kvörtunina skrifaði Sædís Inga Ingimarsdóttir, sem freistaði þess að fá viðurkenningu á vanvirðandi og fordómafullri framkomu lögreglunnar í Vestmannaeyjum í hennar garð.

Heilinn heimskur og hjartað ræður

Sædís Inga er öryrki og sjúklingur til margra ára. „En ég er þó ein af þeim sem nenna ekki að sitja heima og gera ekki neitt, þannig að ég hef alltaf næg verkefni. Ég er að sinna málum fyrir fjölskyldu og vini og ef tækifæri gefst þá hef ég tekið að mér störf sem henta mér í gegnum tíðina. Ég flutti einmitt til Vestmannaeyja vegna vinnu.“

Í Vestmannaeyjum tók Sædís saman við erlendan mann, Marcin, sem var í upphafi heillandi og ljúfur. Hófu þau fljótlega sambúð. Þá fór Marcin að sýna sitt rétta andlit. „Það var bara svoleiðis, að þegar tilfinningar eiga þátt þá verður heilinn heimskur og hjartað ræður,“ segir Sædís sem ákvað því að slíta sambúðinni en handa sambandinu áfram. Í febrúar 2018 beitti Marcin Sædísi hrottalegu ofbeldi, frelsissvipti hana og nauðgaði. Sædísi reyndist í kjölfarið erfitt að losna undan honum. Hún bar til hans sterkar tilfinningar, en óttaðist hann á sama tíma. Hún fór þó að taka skref í burtu frá sambandinu en við því brást Marcin ókvæða og hóf að ofsækja hana. „Ég er bara þannig gerð að ég á ótrúlega erfitt með að biðja um hjálp því ég er manneskjan sem fólk kemur til ef eitthvað amar að. Svo ég vildi bara reyna af fremsta megni að vinna mig út úr þessu sjálf. En hann hélt áfram að koma og gafst ekki upp, og ég vildi ekki sjá hann aftur. Þá leitaði ég aðstoðar lögreglunnar, hringdi og bað um að hann yrði fjarlægður frá húsinu mínu.“

Engin óskastaða

Það er ekki óskastaða neins að þurfa að leita liðsinnis lögreglu vegna ofbeldis í nánu sambandi og stöðugs áreitis fyrrverandi maka. Slík mál koma nokkuð oft inn á borð hjá lögreglu og þykja vandasöm meðferðar enda aðilar máls oft í viðkvæmri stöðu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fjallaði um það á pallborðsfundi hjá OECD í byrjun mánaðar, að mikilvægt væri að lögregla hefði sérþekkingu á afleiðingum heimilisofbeldis til að geta mætt þolendum brotanna af skilningi og nærgætni á vettvangi.

Frásögn Sædísar gefur til kynna að nokkuð sé enn í land í málaflokknum.

Vegna áreitis frá Marcin þurfti Sædís oft að kalla eftir lögreglu til fjarlægja hann af lóðinni við heimili hennar. Vegna tíðra afskipta lögreglu hafði Sædís verið hvött til að gefa formlega skýrslu og leggja fram kæru og henni greint frá úrræðum á borð við nálgunarbann. Henni sárnaði mjög þegar lögreglumaður sagði henni að þetta gæti ekki gengið lengur. „„Þetta gengur ekki lengur, þú verður að fara að gera eitthvað í þessu“, sagði hann við mig.“

Henni sárnaði þó enn meira þegar hún fyrir slysni heyrði samtal tveggja lögreglumanna í kjölfar þess að hún kallaði eftir aðstoð þeirra. Að sögn Sædísar var samtalið nokkurn veginn á þessa leið:

„Ég skil ekkert hvað er verið að mála hann sem skrímsli. Hann er óttalegt grey. Hann langar bara að fá sér að ríða og fer því þangað sem hann veit að hann fær að ríða.“

Mynd: Eyþór Árnason

„Þarna brotnaði ég niður“

Í kvörtun sinni segir Sædís um atvikið: „Þar þarf vart að taka það fram að þarna brotna ég niður. Þeir sem ég leita til hafa ekki meira álit á mér en svo að það virtist vera einskonar ónæði af því að kalla þá til þar sem fyrrverandi hefði bara verið fullur og komið til að fá sér að ríða. Er það virkilega svona sem lögreglumenn tala um þá sem þurfa á aðstoð þeirra að halda?“

Sædís greindi Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra frá atvikinu. Fékk hún svar frá Páleyju í tölvupósti þar sem beðist var velvirðingar á atvikinu og tekið yrði á málinu innanhúss, en sömuleiðis var henni bent á rétt hennar til að bera kvörtunina upp við nefnd um eftirlit með lögreglu. Annar lögreglumannanna hafði í kjölfarið samband við Sædísi og baðst afsökunar.

Sædís afréð þá að fara og kæra Marcin fyrir brot hans gegn henni. Kom það henni þá á óvart hvað viðmót lögreglu breyttist snarlega. En staða hennar, sem henni fannst lögregla hafa haft lítinn áhuga á framan af, var skyndilega komin í forgang og kappkostað að ná fram nálgunarbanni.

Gert að sæta nálgunarbanni

Héraðsdómur Suðurlands staðfesti ákvörðun um nálgunarbann í tvo mánuði. „Það var vissulega léttir þar sem ég var orðin svo uppgefin. En sú staðreynd að ég elskaði þann hluta fyrrverandi sambýlismanns míns sem var edrú, elskulegur og svo góður við mig, gerði hlutina flóknari. Það var óstjórnlega erfitt að halda sig burtu fáandi hver skilaboðin á fætur öðrum frá honum þar sem hann sagðist iðrast gjörða sinna, grátbað mig fyrirgefningar og þess á milli hótaði að taka eigið líf ef ég yrði ekki við því að koma og hitta hann,“ segir Sædís í kvörtun sinni.

Sædís hafði svo samband þegar Marcin braut nálgunarbann. Í síma svaraði lögreglumaður en þegar Sædís greindi frá aðstæðum heyrði hún hann snúa sér að kollega sínum og spyrja: „Hvernig snúum við okkur í þessu máli?“ Í kjölfarið komu lögreglumenn á heimili hennar til að taka skýrslu og mun þá lögreglumaður hafa spurt Sædísi: „Og hvað viltu að við gerum?“ Báðar þessar spurningar grófu frekar undan trausti Sædísar. Vissu þeir ekki hvað þeir ættu að gera í þessum aðstæðum? Eða voru það hennar aðstæður sem voru að fá öðruvísi meðferð. Var henni kannski ekki trúað, eða ekki tekið mark á henni þar sem henni gekk ekki að slíta alfarið á samskipti við sinn fyrrverandi?

Eftir að nálgunarbannið rann út hélt Marcin áfram uppteknum hætti og Sædís fór aftur fram á nálgunarbann.

Sundur og saman 

„Þú veist hvernig þetta hefur verið hjá ykkur, sundur og saman, sundur-saman,“ sagði lögreglumaður við Sædísi þegar hún innti eftir niðurstöðunni. Fengi hún aftur nálgunarbann? Þessi setning lögreglumannsins var gildishlaðin og upplifði Sædís hana afar fordómafulla. Voru aðstæður hennar vægari, ekki eins alvarlegar, sökum þess að í upphafi hefði henni gengið illa að slíta alveg á samskipti við manninn? Þegar þarna var komið sögu hafði hann nýlega snúið aftur frá Póllandi og samskipti þeirra verið lítil. Það sem Sædís vissi ekki þá var að nálgunarbannið hafði þegar verið samþykkt, en erfiðlega gekk að hafa upp á Marcin til að birta honum ákvörðunina. Í kjölfarið hafði sami lögreglumaður samband við Sædísi og spurði hvort hún hefði einhverjar upplýsingar um hvar Marcin væri niðurkominn. Hún hafði þær ekki og fannst það sæta furðu að þeir beindu þeirri spurningu til hennar.

Sædís nefnir fleiri tilfelli þar sem hún upplifði viðmót lögreglu sem óvinveitt og fordómafullt. Hafi þeir meðal annars haft af henni afskipti þar sem hún ók bílnum sínum og gert henni að sæta strokuprófi. Þessi afskipti fóru mjög illa í Sædísi. Í eitt skiptið kom prófið neikvætt út, engin merki um eiturlyf fundust. Í annað skipti hafði lögreglumaður afskipti af henni í innkeyrslunni heima hjá henni og olli það Sædísi svo miklu áfalli að í kjölfarið hafði lögreglumaðurinn samband og baðst afsökunar.

Þarna voru tilfellin orðin afar mörg. Sædís ákvað að leita til nefndar um eftirlit með lögreglu, hún leitaði einnig til Stígamóta og Bjarkarhlíðar. Þessari framkomu ætlaði hún ekki að una.

Mynd: Eyþór Árnason

Svör til nefndarinnar annað áfall

Svör Páleyjar Borgþórsdóttur til nefndarinnar sökum kvörtunar Sædísar reyndust Sædísi annað áfall. Þar var Sædís útmáluð sem drykkfelldur lygari í ójafnvægi. Lítið var gert úr upplifun hennar og hún sökuð um ýkjur og rangfærslu. Sædís sendi nefndinni svar þar sem hún bað um að fá að hrekja fullyrðingar Páleyjar, en án árangurs. Engu að síður hafði Sædís sönnunargögn sem studdu við mál hennar. Blaðamaður hefur fengið afrit af þessum gögnum. Með svörum lögreglustjóra fylgdu lengri bókanir úr dagbók lögreglu sem sinnt hafði útköllum vegna Sædísar. Þar er Sædísi ítrekað lýst sem; í uppnámi, undir áhrifum, í ójafnvægi, grátandi. Á meðan Marcin er þar á nokkrum stöðum lýst: hinn kurteisasti, almennilegasti, rólegur.

Á einum stað er það tekið fram berum orðum: „Það skal tekið fram að þau Sædís og Marcin hafa verið í sundur/saman sambandi í nokkurn tíma og þegar þau eru í sundur þá hefur Sædís nokkrum sinnum hringt á lögreglu og óskað aðstoðar þegar hann hefur verið að koma á/að heimili hennar.“

Sædís var sögð hafa komið nokkrum sinnum á fund lögreglu og verið með fúkyrði og dónaskap. Þar sem Sædís ber takmarkað traust til lögreglunnar þá tók hún sumar þessar samræður upp. Blaðamaður hefur fengið að hlýða á þær og getur vottað að þótt tilfinningar hafi verið miklar í samræðunum þá verði Sædís seint sögð dónaleg.

Maður fer að efast um sjálfa sig

„Það er það vesta í þessu öllu saman. Ekki nóg með alla þessa framkomu þar sem ég upplifi mig sem sakborning en ekki brotaþola, að þurfa að hafa það hangandi yfir sér að ég sé ekki bara sökuð um að ljúga ítrekað heldur er ég enn að bíða eftir niðurstöðu saksóknara um hvort það verði lögð fram kæra. Það er svo mikið sem gerist í huga manns. Verður mér trúað? Eru þeir að taka svona langan tíma því þeir eru ekki vissir um að þetta hafi átt sér stað? Með allt þetta í ofanálag, þá fer maður svo mikið að efast um sjálfa sig.“

Sædís gagnrýnir einnig harðlega að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi afráðið að senda kvörtunina til Páleyjar til meðferðar innan embættis hennar. Þar með sé Páley í raun að rannsaka sig og sína nánustu starfsmenn. Þar að auki ákvað Páley að leyfa öllum starfsmönnum að lesa kvörtunina. Nefndin óskaði ekki eftir að fá heyra þær upptökur sem Sædís hafði undir höndum sem stutt gætu við mál hennar. Heldur var það talið nægjanlegt að lögreglustjóri sjálfur hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekkert þyrfti að gera og engan starfsmann að ámæla, eða endurmennta, eða nokkuð til að fyrirbyggja að enginn annar Vestmanneyingur þurfi að veigra sér við að hafa samband við lögreglu sökum fordómafulls framferðis.

„Þið verðið að fyrirgefa en ég hef ekkert gert af mér og á ekki þessa framkomu skilið og ég ætla mér að skila þessari skítaframkomu til föðurhúsanna, það er að segja til þeirra starfsmanna lögregluembættisins í Vestmannaeyjum sem komu fram við mig með lítilsvirðingu, hroka, skítkasti og óheiðarleika.“

Fordómar en engar afleiðingar

Enn má Sædís bíða. Hún hefur ítrekað þurft að reka á eftir sínum málum og segir tímafrest aldrei hafa verið virtan og að það reynist henni, og líklega mörgum öðrum sem sitja og bíða í von um að fá bót sinna mála, þungbært. Sædís hefur mátta bíða eftir svörum um nálgunarbönn, bíða eftir svörum frá nefnd um eftirlit með lögreglu, bíða eftir svörum frá þingmönnum, lögmönnum, héraðssaksóknara. Meira að segja Bjarkarhlíð, sem þolendur leita til eftir aðstoð, hefur látið Sædísi bíða mánuðum saman. Hún leitaði þangað og var greint frá því að ráðgjafi hefði samband við hana eftir tvær vikur. En enginn hafði samband. Þingmennirnir sem hún leitaði til höfðu sömuleiðis aldrei samband.

Nú bíður hún enn eftir að ákvörðun verði tekin um hvort Marcin verði kærður eða ekki. Tveimur árum og tveimur nálgunarbönnum eftir að hún lagði fram kæruna. Marcin hins vegar er ekki lengur á Íslandi. Sædís er nú flutt frá Vestmannaeyjum enda gat hún ekki unnið úr sínum málum í umhverfi sem veitti henni hvert áfallið eftir öðru. Þolendur heimilisofbeldis eru í viðkvæmri stöðu. Sérstaklega eru þeir viðkvæmir fyrir viðbrögðum þeirra aðila sem kallað er eftir hjálp frá. Lögreglumenn eru oft fyrstir á vettvang í þessum málum. Samkvæmt verklagsreglum lögreglunnar á Íslandi í heimilisofbeldismálum skal gæta fyllstu tillitssemi og varast að taka afstöðu. Slíkt var ekki viðhaft í tilviki Sædísar. Alþekkt er að þolendur heimilisofbeldis eigi erfitt með að slíta sambandinu við ofbeldismenn sína. Samt sem áður varð Sædís fyrir fordómum vegna þess og, það sem verra er, það hefur engar afleiðingar haft fyrir þá er komu að málinu, nema þá aðeins Sædísi sjálfa.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Meintur lygari laus úr haldi

Meintur lygari laus úr haldi
Fréttir
Í gær

Meintur barnaníðingur liðlega tvítugur – Níðingar á öllum aldri segir sérfræðingur

Meintur barnaníðingur liðlega tvítugur – Níðingar á öllum aldri segir sérfræðingur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Borgarlínu geta kostað 250 milljarða – „Það eru ekki peningar í þetta““

Segir Borgarlínu geta kostað 250 milljarða – „Það eru ekki peningar í þetta““
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stór hópur ungmenna í vímuefnavanda féll í COVID-19 faraldrinum

Stór hópur ungmenna í vímuefnavanda féll í COVID-19 faraldrinum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fáðu já slær í gegn í Slóveníu – breytti viðhorfi unglingspilta

Fáðu já slær í gegn í Slóveníu – breytti viðhorfi unglingspilta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kenning Þórólfs reyndist rétt: „Það er búið að staðfesta það“

Kenning Þórólfs reyndist rétt: „Það er búið að staðfesta það“