fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Framtíðin mætir til Íslands

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 18. janúar 2020 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðilar frá frumkvöðlafyrirtækinu Skyrora hafa dvalið á Íslandi undanfarið til að skoða möguleika á að skjóta eldflaugum frá Íslandi og kanna hæfni nýrra eldflauga. Líta þeir til Langaness í þessum tilraunum sínum, en markmið Íslandsferðarinnar er einnig til að mynda og styrkja tengsl við íslensk fyrirtæki og stofnanir sem tengjast geimiðnaðinum. Vonir standa til að ljúka þremur smærri tilraunaskotum frá Íslandi innan tólf mánaða, en starfsemi Skyrora var kynnt á blaðamannafundi í gær undir handleiðslu Geimvísinda- og tækniskrifstofu Íslands, Space Iceland.

Einn af stöðunum sem forsvarsmenn Skyrora hafa heimsótt hér á landi er Húsavík og tók Örlygur Hnefill Örlygsson þar á móti þeim. Örlygur er sérfræðingur í könnunarsögunni, áhugamaður um geimvísindi og stofnandi Könnunarsögusafnsins. Þá er hann einnig stofnandi Iceland GeoSpace, sem sérhæfir sig í þjálfun geimfara og þeirra sem hafa áhuga á að leggja það starf fyrir sig. Hann fagnar komu Skyrora til landsins.

„Það var gríðarlega áhugavert að heyra þeirra sýn fyrir Ísland,“ segir Örlygur er blaðamaður DV nær tali af honum stuttu eftir heimsókn Skyrora á Húsavík. „Þetta er fyrirtæki sem er búið að sýna sína getu mjög vel og er með fjármögnun. Maður hittir á alls konar fugla í þessum bransa og margir oft með háleit markmið, sem maður verður að vera með í geimiðnaðinum. En Skyrora er traust fyrirtæki,“ bætir hann við. Hann segir geimiðnaðinn vera stærri en margir halda og að hann snúist ekki aðallega um að kanna geiminn heldur einnig að koma til dæmis gervitunglum fyrir úti í geim, líkt og Skyrora áformar, til að kanna jörðina betur. Því gæti iðnaður eins og landbúnaður og sjávarútvegur nýtt sér þessa tækni.

„Þetta er vaxandi geiri á Íslandi og er það í rauninni því það eru fleiri sem átta sig á því að þeir hafa praktískt not af gögnum sem koma úr þessu.“

Umhverfisvænna eldsneyti

Mikil orka og eldsneyti fer í geimskot og því hljóta spurningar að vakna um kolefnisfótspor vegna aukinnar umhverfisvitundar í heiminum. Skyrora leggur mikla áherslu á umhverfismál og hlaut bresku GO:TECH verðlaunin 2019 fyrir nýtingu og þróun á umhverfisvænni tækni. Robin Hague, verkfræðingur á þróunarsviði fyrirtækisins, segir fyrirtækið hafa háleit markmið í umhverfismálum.

„Okkar markmið er að þróa eldflaugar þar sem kolefnisfótsporið er í lágmarki. Þannig viljum við sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu sem og komandi kynslóðum.“

Örlygur tekur undir það. „Bæði er eldsneytið miklu umhverfisvænna en það sem gengur og gerist í þessum bransa, það er ekki jafn kraftmikið og mörg önnur efni en það er miklu stöðugra og skilur eftir miklu minna fótspor. Hitt er síðan það að þeir reyna að endurnýta eins mikið og þeir geta úr þessum þrepum sem þeir nota til að koma flaugum á braut í seinni ferðir.“

Engar geimferðir fyrir almenning

Örlygur hefur unnið þétt með Space Iceland síðan klasinn var stofnaður af aðilum geimvísinda- og tæknigeirans á Íslandi í fyrra. Meðal þess sem klasinn hefur lagt áherslu á er að Ísland gerist aðili að Geimvísindastofnun Evrópu. Alþingi samþykkti að kanna möguleika á aðild árið 2016 og segir Örlygur það mikilvægt vísindasamfélaginu að ganga inn í sambandið sem allra fyrst, ekki síst vegna þess hve mikla verðmætasköpun það gæti haft í för með sér. Þá eru miklir atvinnumöguleikar í geimiðnaðinum. Örlygur segir ljóst að Skyrora fái að skjóta hér upp litlum eldflaugum. Varðandi stærri geimför verður tíminn að leiða í ljós hvernig þróun á því gengur, en slíkar stórtækar aðgerðir kalla á betri innviði í geimiðnaðinum á Íslandi. Hvað varðar mannaðar geimferðir frá Íslandi telur Örlygur litla möguleika á því.

„Ég sé það ekki í nálægri framtíð. Ísland hefur marga kosti hvað gervihnattaskot snertir út af brautum sem liggja um pólana. Það er eitt af þeim tækifærum sem okkar norðlæga staða býður upp á. Ísland gæti leikið töluvert hlutverk í gervihnattaskotum á heimsvísu og það er ánægjulegt að fyrirtæki eins og Skyrora komi hingað og kanni möguleika á því að eigin frumkvæði,“ segir hann, en mannaðar geimferðir fyrir almenning njóta sívaxandi vinsælda. Þar hefur Richard Branson verið innsti koppur í búri, en slíkar ferðir eru ekki á færi allra, enda kosta þær morðfjár, allt frá nokkrum milljónum upp í milljarða.

„Slíkar ferðir verða alltaf dýrari en þessi markaður er að opnast,“ segir Örlygur. En kitlar það hann ekkert að safna peningum og kaupa sér ferð út í geim? „Jú, eigum við ekki að segja það?“ segir hann og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“