fbpx
Laugardagur 23.janúar 2021
Fréttir

„Fjallgönguferð á Íslandi tók óhugnanlega stefnu“

Auður Ösp
Sunnudaginn 8. september 2019 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bandaríski blaðamaðurinn Dan Casey segir son sinn hafa lent í óhugnanlegu atviki á Íslandi í júní síðastliðnum, þegar hann komst í kynni við annan ferðamann sem reyndist síðan ekki allur þar sem hann var séður.

Dan greinir frá atvikinu í pistli sem birtist í dagblaðinu Roanoke Times. Titill greinarinnar er: „Fjallgönguferð til Ísland tók óhugnanlega stefnu.“ Í júní síðastliðnum fór 21 árs gamall sonur hans, Zach að nafni, í tveggja vikna fjallgönguferð til Íslands. Dan segist hafa fundist óþægilegt að vita af syni sínum einum á ferðalagi.

„Áður en hann fór þá grátbað ég hann um að vingast við aðra bakpokaferðalanga í Reykjavík og finna sér einhvern félaga til að fara með í fjallgöngur, í staðinn fyrir að fara einn.“

Dan segir Zach hafa gist á farfuglaheimili í Reykjavík fyrstu dagana. Þann 5. júní síðastliðinn sendi hann móður sinni smáskilaboð þar sem hann sagðist hafa hitt annan Bandaríkjamann á farfuglaheimilinu, mann á fertugsaldri sem væri fyrrverandi hermaður og starfaði nú sem atvinnuljósmyndari.

Dan segir manninn ganga undir nafninu Norman, en það sé ekki hans rétta nafn.

Dan segir að honum hafi ekki litist á blikuna og því beðið son sinn um að senda sér frekari upplýsingar um manninn. Í kjölfarið sendi Zach honum hlekk á ljósmyndasíðu Normans og nafnið á fyrirtæki í hans eigu. Fyrirtækið reyndist vera skráð í fylki í suðurríkjum Bandaríkjanna en umrædd ljósmyndasíða var að sögn Dans ansi fátækleg og innihélt aðeins 13 ljósmyndir. Dan segist í kjölfarið hafa flett nafni Normans upp í opinberum gögnum og komist að því að hann hefði nokkrum sinnum hlotið refsidóma fyrir smávægileg brot.

Dan segist hafa sent syni sínum skilaboð og beðið hann um að „fara varlega“.  „Fólk sem þú hittir á ferðalögum er ekki alltaf eins og það virðist.“

Hann segir son sinn hafa sent skilaboð til baka þar sem hann tók fram að Norman hefði tjáð honum að hann hefði „aðeins hafa komist í kast við lögin“ í fylkinu þar sem hann bjó.

„Ég er mjög öruggur nálægt honum,“ ritaði sonur hans einnig.

Fárveikur á geði“

Dan segist hafa haft miklar áhyggjur en reynt að slaka á og vona að allt færi vel. Zach og Norman fóru saman í tveggja daga fjallgöngu og föstudaginn 7. júní komu þeir í Bása í Goðalandi, en þar eru gistiskálar og tjaldstæði fyrir ferðalanga.

Dan segir að aðfaranótt laugardags hafi hann vaknað við að síminn hringdi og var dóttir hans á hinum megin á línunni, „móðursjúk og hrædd.“  Í ljós kom að Zach hafði haft samband við hana eftir að hafa margsinnis reynt að senda skilaboð á foreldra sína þar sem hann sagði að Norman væri „ekki sá sem hann sagðist vera“.

„Hann er fárveikur á geði, og illa haldin af áfallastreituröskun. Hann er búinn að vera með óhugnanlegar skapsveiflur og hefur hótað að meiða aðra gesti á svæðinu. Hann er sjúklega tortrygginn gagnvart öðru fólki, hann ásakaði mig um að gera grín að honum og lítillækka hann, og sagði að hann hefði þurft að þola það alla ævi. Hann skammaði mig fyrir að vera með frjálslyndar skoðanir og sagðist sjálfur vera fasisti,“ ritaði sonur Dans í skilaboðunum og bætti við að Norman hefði haldið á hníf þegar hann lét þessi orð falla.

„Síðan reyndi hann að fá mig til að koma með sér í göngutúr, á meðan hann hélt á hnífnum en hafnaði þeirri bón. Ég er inni í tjaldi núna og ég held að hann sitji fyrir utan og fylgist með mér, en ég er ekki viss. Ég er hræddur um að hann ráðist á mig ef ég fer í burtu, og ég er ekki viss um að hann muni láta það stoppa sig að það sé fleira fólk hérna á svæðinu. Hann er miklu sterkari en ég og hann er þjálfaður bardagamaður. Getið þið hringt í lögregluna og sagt þeim að ég sé á útivistarsvæðinu í Básum?“

Erfitt að ná í lögregluna á Íslandi

Dan segist hafa farið á netið og flett upp símanúmeri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en ekki náð sambandi því símaþjónusta hans býður ekki upp á utanlandssímtöl. Hafði hann þá samband við Neyðarlínuna í heimabæ sínum, Roanoke í Virginíu. Starfsmaður neyðarlínunnar gaf honum númerið hjá íslenska sendiráðinu í Washington en þegar Dan hringdi þangað reyndist sendiráðið vera lokað. Hringdi hann þá aftur í Neyðarlínuna en starfsmaðurinn sem svaraði sagðist ekki geta hringt í lögregluna á Íslandi.

Dan segist þá hafa gripið til þess ráðs að hringja í vin sinn, Joe Campell, sem hann vissi að væri með símaþjónustu sem byði upp á utanlandssímtöl. „Ég bað Joe um að hringja í lögregluna á Íslandi, láta hana hafa símanúmerið mitt, segja henni hvað hefði gerst og biðja hana um að hringja í mig,“ segir Dan.

Hann segir kærustu Joe hafa séð um að tala við lögregluna, og hún hefði sagt lögreglunni að Norman væri með byssu.

Dan segir að aðeins nokkrar mínútur hafi liðið áður en hann fékk símtal frá lögreglumanni á Íslandi sem tjáði honum að lögreglan væri á leiðinni að Básum og að umsjónarmaður svæðisins væri einnig að leita að Zach.

Dan segir lögreglumanninn hafa borið undir hann frásögn kærustunnar, um að Norman væri vopnaður byssu. Dan segist þó hafa leiðrétt þá staðhæfingu. Í kjölfarið hafi lögreglan mætt á útivistarsvæðið að Básum og handtekið Norman. Honum var sleppt að lokinni yfirheyrslu og segir Dan að engin ákæra hafi verið gefin út.

„Ég þarf varla að taka það fram að við sváfum lítið þessa nótt.“

Óvæntur endir

Dan segir dóttur sína seinna meir hafa komist yfir dómskjöl frá heimafylki Normans þar sem fram kemur að móðir hans og systir hefðu áður sótt um nálgunarbann á hendur honum. Á umsókn móður hans kemur fram að Norman sé veikur á geði og hafi ítrekað neitað að gangast undir læknismeðferð. Þá kemur fram að hann hafi verið leystur undan herþjónustu eftir að hafa lent í áflogum við aðra hermenn.

Sagan fær þó ánægjulegan endi: Dan segir að sonur hans hafi snúið aftur til Reykjavíkur eftir þetta og komist þar í kynni við bandaríska stúlku sem dvaldi á sama farfuglaheimili og hann. Þau eru núna orðin kærustupar og Zach er aftur byrjaður í háskólanámi. „Hamingjuríkur endir,“ ritar Dave en hann segir „Norman“ ennþá vera á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt