fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Haltu mér, slepptu mér

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 29. september 2019 15:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvert er hlutverk RÚV? er spurning sem hefur borið æ oftar á góma að undanförnu, sérstaklega í ljósi þess að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vill taka RÚV af auglýsingamarkaði, eitthvað sem löngum hefur verið deilt um. Allt í einu núna hafa gagnrýnisraddir sprottið upp frá fólki í auglýsinga- og sjónvarpsframleiðslu. Ef RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði myndi það nánast ganga af íslenskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð dauðri vegna þess að fólk í faginu þjálfast við að taka upp auglýsingar og er þá betur í stakk búið til að taka að sér stærri verkefni á sviði framleiðslu sjónvarpsefnis og kvikmynda. Ef RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði dvínar íslensk auglýsingagerð svo um munar. Ergo: Fagfólk í framleiðslu sjónvarps- og kvikmyndaefnis verður ekki jafn gott og allt fer skyndilega í bál og brand. Ísland verður ein menningarsnauðasta þjóð Evrópu á einni nóttu.

Þetta er áhugaverður rökstuðningur fyrir margra hluta sakir. Er það virkilega svo að hlutverk RÚV sé að halda uppi heilli atvinnugrein með því að styrkja aðra (lesist: að hala inn markaðspeninga um leið og það halar inn almannafé) eða gæti verið að tækifærissinnar og markaðsmenn séu hér að gera heiðarlega tilraun til að snúa út úr ágætri umræðu um nákvæmlega hvað RÚV á með að vera á auglýsingamarkaði?

Gott og vel. Þeir sem eiga hagsmuna að gæta munu alltaf reyna að snúa út úr, eðli málsins samkvæmt, enda gríðarlegar fjárhæðir í húfi. Hins vegar er alvarlegra mál að þessi rökstuðningur, um að auglýsingagerð sé fjöregg íslenskrar menningar og undirstaða þess að fólk fái hér viðeigandi reynslu í framleiðslu á vönduðu, innlendu efni, er algjörlega galinn. Í umræðunni virðist algjörlega gleymast sá styr sem staðið hefur um RÚV meðal kvikmyndaframleiðenda.

RÚV nefnilega ákvað það upp á eigin spýtur fyrir um það bil tveimur árum að breyta samningum við framleiðendur sjónvarpsefnis og kvikmynda. Fyrir breytingu hafði RÚV keypt sýningarrétt að efni sjálfstæðra framleiðenda og var það vel. Með nýjum samningum var hins vegar búið að líma inn feita klausu um að RÚV myndi hljóta hlut í ýmsu sjónvarpsefni og kvikmyndum í stað þess að kaupa sýningarrétt. Með því að kaupa hlut í efninu hefur RÚV veigameiri stöðu í verkefninu en bara að sýna efnið ákveðið oft. Það er ákveðið áhættuspil að kaupa sig inn í sjónvarpsefni og taka sér stöðu sem aðal- eða meðframleiðandi. Ef að verkefnið gengur illa og skilar tapi er það fjárhagslegt högg. Hins vegar, ef verkefnið gengur vel, endurgert í mörgum löndum og sýnt í enn fleiri vænkast hagur framleiðandans sem lagði til peninga í upphafi. Það kemur skýrt fram í lögum og reglum RÚV að hlutverk stofnunarinnar sé að „hlúa að menningu þjóðarinnar, leggja rækt við íslenska tungu, listir og íþróttir“ og að hlutverkið sé enn fremur að „styðja við framleiðslu og nýsköpun á slíku efni“. Ekki er hægt að sjá að það samrýmist markmiðum RÚV sérstaklega að kaupa sig inn í verkefni með gróða í huga.

Þessa klausu hafa Samtök iðnaðarins gagnrýnt fyrir hönd kvikmyndagerðarmanna en einnig þá rúmu skilgreiningu á hvað felst í því að vera sjálfstæður framleiðandi að mati RÚV. RÚV skilgreinir sjálfstæðan framleiðanda sem „seljanda tilbúins efnis eða umsjónarmann eða framleiðanda efnis“ á meðan Kvikmyndasjóður skilgreinir það sem „fyrirtæki sem hefur kvikmyndagerð að meginstarfi.“ Vegna þessa misræmis tilgreinir RÚV til að mynda tækjaleigu og handritaráðgjöf sem „sjálfstæðan framleiðanda“, sem kvikmyndagerðarmönnum finnst óheppilegt, svo vægt sé til orða tekið.

Því á ég bágt með að skilja þessa dökku framtíðarsýn sem dregin er upp varðandi framleiðslu á innlendu efni ef RÚV fer af auglýsingamarkaði. Kvikmyndagerðarmenn vilja ekki sjá það gerast því þá stoppar þjálfun á starfsfólki, þar sem auglýsingar eru teknar upp nánast í hverri viku en lengra líði á milli sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu. Hins vegar vilja kvikmyndagerðarmenn ekki heldur að RÚV kaupi hluta í efni til að afla sér tekna. Er það ekki einmitt ágætt mótvægi við því að RÚV fari af auglýsingamarkaði? RÚV fjárfestir þá meira í innlendri framleiðslu til að ná viðmiðum sínum sem Alþingi setur, getur þá valið verkefnin betur með gróða í huga og styrkt innlenda framleiðslu enn fremur með gróðanum sem hlýst af hlutdeild í hinum ýmsu verkefnum. Er það ekki bara ágætis díll?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“