fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Ástrún Anna er múslimi – Fann svörin í íslam: „Hef verið spurð hvort ég styðji hryðjuverkastarfsemi“

Auður Ösp
Sunnudaginn 15. september 2019 09:00

Ástrún Anna opnar sig um íslamtrú. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ástrún Anna Bogadóttir gerðist múslimi 21 árs gömul. Hún hefur þurft að takast á við fordóma samfélagsins og segir algengt að fólk setji alla múslima undir sama hatt. Staðreyndin sé hins vegar sú að múslimar séu fjölbreyttur hópur.

Fann svörin í íslam

Ástrún er alin upp í Árbænum, yngst í hópi þriggja systkina. Foreldrar hennar skildu. Móðir Ástrúnar er vottur Jehóva en Ástrún segist ekki hafa alist upp við trú á heimilinu. Ástrún gekk í Árbæjarskóla og fór þaðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Unglingsárin voru ekki alltaf auðveld, ekki frekar en hjá svo mörgum. Hún var leitandi, og upplifði sig oft utangátta. „Ég var mikið ein á tímabili. Mér fannst erfitt að passa inn í hópinn.“

Ástrún hafði lokið stúdentsprófi frá FB þegar hún komst í kynni við pilt. Það var fyrir hans tilstilli að hún kynntist íslamstrú.

„Við hittumst í strætó og byrjuðum að tala saman þar og síðan héldum við áfram að vera í samskiptum og kynntumst hvort öðru. Hann sagði mér að hann væri múslimi. Við erum góðir vinir núna í dag. Með tímanum fórum við að ræða saman um íslamstrú. Ég hef alltaf haft opinn huga fyrir öllum trúbrögðum en ég vissi svo sem ekki mikið um íslam, annað en að múslimar borða ekki svínakjöt og halda ekki jól og þess háttar.

Sumir halda að þessi vinur minn hafi þvingað trúnni upp á mig en það var aldrei þannig. Í íslam er bannað að þvinga trú upp á fólk. Hann spurði mig einfaldlega af hverju ég væri trúlaus, og ég sagði honum mínar skoðanir. Hann spurði mig hvort ég vildi læra meira um íslam. Ég hugsaði með mér að ég myndi ekki tapa neinu á því að kynna mér þetta betur.

Ástrún lagðist í mikla rannsóknarvinnu, upp á eigin spýtur og sökk sér ofan í fræðin. „Ég las heilmikið, fann efni á netinu og horfði á vídeó. Ég ræddi við múslíma á Íslandi. Eftir því sem ég fór að kynna mér þetta betur, þá fann ég að þetta var það rétta fyrir mig.  Ég fór að hugsa af hverju ég er hér, í þessum heimi? Hver væri eiginlega tilgangurinn með þessu öllu? Í íslam fann ég öll svörin. Ég hafði aldrei fengið þessi svör áður.“

„Í íslam fann ég öll svörin. Ég hafði aldrei fengið þessi svör áður.“ Mynd: Eyþór Árnason

Aðspurð hvað hafi heillað hana mest við íslamstrú segist Ástrún eiga erfitt með að benda á eitt ákveðið atriði frekar en annað. Í grunninn sé trúin falleg. Það var þó eitt atvik sem átti eftir að hafa mikil áhrif á hana. Á aðfangadag 2016 hitti hún pilt sem var múslimi.

„Þá var ég stödd heima hjá vini mínum og hann var með nokkra gesti hjá sér, sem eru líka múslimar. Ég sat og hlustaði á samræðurnar þeirra og heyrði einn þeirra tala um að þegar maður sé með trúna þá þurfi maður ekki að eiga mikið annað, þá þurfi maður ekki að vera ríkur og eiga allt það nýjasta og flottasta. Ef maður sé með sterka trú þá þurfi maður ekki alla þessa hluti, þurfi ekki að fylla upp í tómarúm með hinu og þessu dóti. Ef ég hef guð í lífi mínu þá er það nóg.“

Þann 3. janúar 2017 fór Ástrún með trúarjátninguna (Shahada). Eftir örstutta athöfn, í viðurvist fyrrnefnds vinar hennar var hún orðin múslimi. „Ég hélt áfram að læra og fræðast eftir þetta.“

 Misjafnar undirtektir

Aðspurð um viðbrögð fjölskyldu og vina segir Ástrún að vissulega hafi þau verið mismunandi, en það sé eðlilegt. „Auðvitað getur þetta verið erfitt fyrir þína nánustu, og kannski ekki allir sem eru tilbúnir til að samþykkja þetta. Þau þekkja mig auðvitað sem trúleysingja.“ Ástrún bætir við að hún skilji þessi viðbrögð mjög vel. „En þrátt fyrir þessa breytingu, þá er ég ennþá sama manneskjan og verð það alltaf. Ég hef alltaf verið góð manneskja.“ Ástrún bendir einnig á að hún hafi alls ekki þurft að breyta miklu í sínu fari til að gerast múslimi. „Ég hef til dæmis aldrei drukkið áfengi og borðaði ekki svínakjöt.“

Slæðan er siðprýði

Ástrún segir það misskilning að slæðan tákni kúgun kvenna. Mynd: Eyþór Árnason

Ástrún klæðist ekki slæðu (hijab) og segir það útbreiddan misskilning að slæða tákni kúgun múslimakvenna. Slæðan tákni siðprýði. „Það eru margir sem halda að konur séu neyddar til að ganga með slæðu, en það er misskilningur. Það er algjörlega þeirra ákvörðun. Ég hef oft hugsað um að nota slæðu. En mér finnst það erfið tilhugsun að ganga með slæðu hérna á Íslandi,“ segir Ástrún og bætir við að hér á landi sé mun auðveldara að skera sig úr en erlendis. Þar sé auðveldara að hverfa inn í fjöldann.

„Hér eru miklu meiri líkur á að verða fyrir fordómum og ég óttast að fólk muni dæma mig. Ef það væru fleiri múslimakonur með slæðu úti á götu, þá væri þetta auðveldara. En ég er ekki tilbúin í það, ekki ennþá. Ef ég mun einhvern tímann ganga með slæðu, þá verður það alfarið mín ákvörðun.“

Upplifði hreinsun

Samkvæmt trúnni fer Ástrún með bænir fimm sinnum á dag en hún segir bænahaldið hafa lítil sem engin áhrif á daglegt líf, enda taki hver bæn aðeins nokkrar mínútur. Talið berst að ramadanmánuði þegar múslimar þurfa að fasta. Fyrir Ástrúnu er ramadan fastur liður í tilverunni, en fyrsta skiptið tók á. „Í fyrsta skiptið fastaði ég bara í 10 daga. Fyrstu tveir dagarnir voru erfiðastir en það er ótrúlegt hvað líkaminn venst þessu. Ég upplifði þetta eins og hreinsun.“

Aðspurð um jólahátíðina segir Ástrún að það hafi ekki verið mikið mál að sniðganga jólin, enda sé móðir hennar vottur Jehóva og haldi ekki upp á fæðingu Jesú Krists.

„Fyrir mér er aðfangadagur bara eins og hver annar dagur. Ég er oft á vinna þennan dag, þannig að ég finn ekki fyrir því að halda ekki upp á jólin.“ Hún segist lítið kippa sér upp við tilheyrandi jólaskreytingar og viðburði í desember. „Það angrar mig ekkert að hafa það í kringum mig. Ef einhver kemur og býður mér gleðileg jól þá segi ég „gleðileg jól“ til baka.

Múslimakonur hafa alltaf  val

Eins og gefur að skilja hefur Ástrún fengið að heyra ýmiss konar athugasemdir eftir að hún gerðist múslimi.

„Ég hef til dæmis verið spurð hvort ég styðji hryðjuverkastarfsemi. Fólk notar ISIS-hryðjuverkasamtökin til þess að láta alla múslima líta illa út. En venjulegir múslimar styðja ekki ISIS, enda er rangt að drepa samkvæmt íslam.

Svo hef ég verið spurð hvort ég hafi verið að gerast múslimi fyrir þennan vin minn, til að þóknast honum,“ segir Ástrún og bætir við að hún hafi tekið íslamstrú alfarið á sínum eigin forsendum.

Talið berst að öðrum siðum og gildum sem fólk tengir við múslima og skarast á við vestræn ríki. Til að mynda kynlíf samkynhneigðra, sem er forboðið í íslam. „Ég er persónulega ekki á móti samkynhneigðum, þeir geta gert það sem þeir vilja. Ég myndi aldrei fara að banna neinum neitt bara af því að ég er múslimi.“

Aðspurð um birtingarmyndir múslimakvenna bendir Ástrún á að þar leiki menningarmismunur milli landa stórt hlutverk.

„Samkvæmt Kóraninum á að sýna konum virðingu. Þegar talað e um kúgun á konum þá á það frekar við önnur lönd þar sem það er rótgróið í menningunni. Kúgun á konum er líka í löndum þar sem fólk er ekki íslamstrúar. Konur sem eru íslamstrúar eiga fullan rétt til að fara í nám og vera úti á vinnumarkaðnum. Eins og með allt hitt, þá er það þeirra val. Þetta er alltaf þeirra ákvörðun.“

Ástrún er einhleyp en vill giftast múslima. Mynd: Eyþór Árnason

Vill giftast múslima

Ástrún er einhleyp í dag. „Ég er ekki á móti því að vera með einhverjum sem er ekki múslimi. Það eru ekki allir múslimar sem giftast öðrum múslimum, það er mjög mismunandi. En persónulega myndi ég vilja eiga mann sem væri líka múslimi, eða þá að minnsta kosti opinn fyrir því að læra um íslamstrú. Hann þyrfti að sýna skilning á því þegar ég þarf til dæmis að vakna eldsnemma og biðja, eða þá þegar ég þarf að fasta. Það er auðvitað gott að hafa einhvern sem er með manni í þessu öllu saman.

Það er mín ósk að fólk sé opnara fyrir íslamstrú og beri virðingu fyrir henni. Ef þú sérð múslima gera eitthvað rangt, ekki segja þá að allir múslimar séu slæmir. Horfðu frekar á það hvernig manneskjan er. Við erum eins mismunandi og við erum mörg.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“