fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Góðærisballið á Íslandi er búið – Kirkjan græðir á dularfullu samkomulagi

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 13. september 2019 13:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helsta fréttaefni vikunnar sem leið er án efa frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga 2020. Eins og tíðkast með slík frumvörp eru ekki allir á eitt sáttir með áform ríkisvaldsins til ráðstöfunar almannafjár á komandi ári. Blaðamaður tók saman helstu þætti frumvarpsins sem til umræðu hafa verið.

Skattalækkun

Skattar á tekjur undir 325 þúsundum á mánuði verða lækkaðir. Komið verður á nýju lágtekjuskattþrepi sem verður 35,04 prósent launa á næsta ári en lækkar svo enn frekar árið 2021 og verður 31,44 prósent. Á móti mun næsta skattþrep fyrir ofan hækka upp í 37,19 prósent og verður 37,94 prósent árið 2012. Persónuafslátturinn verður lækkaður lítillega en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun hann nú taka breytingum í samræmi við verðbólgu og framleiðniaukningu vinnuafls. Tryggingargjald verður einnig lækkað eða um 0,25 prósentustig. Framlag ríkisstjórnarinnar vegna verkefna í tengslum við stefnu- og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum er áætlað 100 milljónir fyrir 2020. Til samanburðar var sama framlag 650 milljónir króna í fjárlögum 2019.

Velferðarkerfið

Í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 0,5 prósenta aðhaldskröfu á rekstur sjúkrahúsa á Íslandi. Þetta finnst mörgum skjóta skökku við í ljósi þess að Landspítali hefur verið rekinn með miklum halla. Hallinn á þessu ári er áætlaður um 4,5 milljarðar. Aukin framlög til sjúkrahússþjónustu skrifast næstum alfarið á launahækkanir og framlög til byggingu nýs Landspítala. Landspítalinn þarf því að herða sultarólina töluvert til að halda sig innan ramma árið 2020. Í fjárlagafrumvarpi er einnig vikið að undirbúningi aðgerða sem miði að því að bæta mönnun í hjúkrun, en ekki er gert ráð fyrir eiginlegum aðgerðum í þeim málum. Um 88 milljónum króna verður veitt til Sjúkratrygginga fyrir samninga um heilbrigðisþjónustu við fanga, en jafnframt er gert ráð fyrir að geðheilbrigðismál fanga verði tekin til skoðunar. Þetta er áhugavert í ljósi þess að framlagðar þingsályktunartillögur um aðgerðir varðandi geðheilbrigðismál fanga hafa ítrekað dagað uppi á þingi eða í nefnd. Samkvæmt upplýsingum frá Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, hyggst hún leggja fram tillöguna að nýju á nýju þingi.

Helga Vala reynir að bæta geðheilbrigði fanga

Samgöngumál

Samgöngumál eru í forgangi fjárlagafrumvarpsins. Þar er talað um stórauknar fjárfestingar í málaflokknum og nema framlög til fjárfestinga 28 milljörðum króna. Boðuð hefur verið stórsókn í vegamálum með aukinni uppbyggingu og viðhaldi vega. Einnig stendur til að jafna aðgengi að þjónustu fyrir íbúa landsbyggðarinnar með kostnaðarþátttöku hins opinbera í innanlandsflugi. Áætluð framlög til samgangna eru tæpum 5 milljörðum hærri fyrir árið 2020 en 2019.

Útlendingamál

Samkvæmt reikningi fyrir árið 2018 nam kostnaður við útlendingamál 4.386,6 milljónum króna. Fjárlög 2019 veittu 3.618 milljónum til málaflokksins en fjárlagafrumvarp fyrir 2020 gerir ráð fyrir 3.948,2 milljónum. Í framlögum fyrir 2020 eru eyrnamerktar 73 milljónir króna til að fjölga starfsmönnum hjá Útlendingastofnun og 64,5 milljónir til að mæta breytingu á afgreiðslu áritunarmiða.

Löggæsla 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áformum dómsmálaráðuneytisins um að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Ríkislögreglustjóri samnýti hentugt húsnæði á nýjum stað. Í vikunni hefur verið fjallaðu um þá miklu togstreitu sem ríkir meðal lögregluembættanna og Ríkislögreglustjóra. Áhugavert verður að sjá hvernig samskipti embættanna verða þegar þau deila einu þaki.

Fjárlögin gera ráð fyrir fjölgun um einn starfsmann hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Ekki verður séð nein lausn á því vandamáli sem lögreglan hefur glímt við undanfarin ár vegna fjárskorts og manneklu í þessu frumvarpi.

Trúmál 

Björn Leví gagnrýndi kirkjujarðasamkomulagið

Í frumvarpi segir frá auknum framlögum til kirkjumála í samræmi við svonefnt kirkjujarðasamkomulag: „Framlag til þjóðkirkjunnar er aukið um 856,9 m.kr. til að uppfylla kirkjujarðasamkomulagið svokallaða.“

Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, segir engan í raun vita hvaða fasteignir ríkið fékk við gerð samkomulagsins. Formlegum fyrirspurnum hans á Alþingi um málið, hefur ekki verið svarað. Björn segir samkomulag þetta vera skuldbindingu um aldur og ævi og slíkt gangi ekki. Jafnvel ef allir sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna myndu skrá sig úr henni, þá væri ríkið samt skuldbundið til að greiða laun rúmlega 80 presta, biskups og fleira. Heildarfjármögnun ríkissjóðs í trúmálum nemur rétt tæpum milljarði umfram fjárlög 2019.

 

Fjölmiðlar 

Í fjárlögum er gert ráð fyrir 400 milljóna króna útgjaldasvigrúmi til að styðja við einkarekna fjölmiðla. Þar með hefur fjármögnun fjölmiðlafrumvarpsins verið tryggð í fjárlögum. Þessi áform koma á hentugum tíma þar sem í vikunni var greint frá bágri stöðu einkarekinna fjölmiðla sem reknir voru með töluverðu tapi á síðasta ári. Til dæmis nam tap Frjálsrar fjölmiðlunar, útgefanda DV, 240 milljónum króna á síðasta ári.

Bjartsýnisspá þrátt fyrir óvissu 

„Gæti hagvöxtur ársins 2019, og sér í lagi 2020, reynst lægri en samkvæmt þeirri spá sem liggur til grundvallar frumvarpinu. Meiri líkur eru á því að efnahagshorfur ársins 2020 breytist til verri vegar en að þær batni að ráði,“ segir í frumvarpinu. Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að hagvöxtur geti aðeins lækkað, þá er viðmiðunar hagvöxturinn bjartsýnisspá. Hins vegar rekur frumvarpið ýmsa óvissuþætti sem gætu haft neikvæð áhrif á efnahaginn. Óvissuþættir á borð við viðskiptastríð Kína og Bandaríkjanna, Brexit, óvissa um loðnuveiðar, óvissa í ferðaþjónustu á Íslandi eftir áföll 2019, óvissa um þróun atvinnuleysis og gengi krónunnar. Hins vegar er talið að hækkanir launa á vinnumarkaði muni ekki ýta undir verðbólgu umfram það sem þegar er orðið. „Þó svo samið hefði verið um talsverðar launahækkanir, einkum fyrir þá tekjulægstu, voru þær lægri en á undanförnum árum og samræmast betur efnahagslegum stöðugleika og háu atvinnustigi en hætta var talin á um tíma,“ segir í frumvarpinu.

Síðan er aftur í frumvarpinu taldar vaxandi líkur á því að eftirspurn helstu viðskiptalanda Íslands fari minnkandi, eða hætti aukast. Þetta muni hafa neikvæð áhrif á efnahag.

Atvinnuleysi 

„Aðflutningur erlendra ríkisborgara hefur minnkað frá því árið 2017, en hann er enn mikill þrátt fyrir að atvinnuleysi þeirra hafi aukist mikið. Erlendir ríkisborgarar eru nú um þriðjungur allra atvinnulausra en um 20% einstaklinga á vinnumarkaði,“ segir í frumvarpinu þar sem bent er á að samhliða auknu atvinnuleysi sé fjöldi fólks á vinnumarkaði samt að aukast. Gert er ráð fyrir 3,8 prósenta atvinnuleysi á næsta ári. Atvinnuleysið er sagt ein ástæða þess að áætluð útgjöld ríkissjóðs verði ríflega 15 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2019. „Þetta skýrist að mestu af auknum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðarsjóðs launa í kjölfar áfalla í ferðaþjónustu og kólnunar hagkerfisins.“

Enn sveltur lögreglan og spítalinn

Aðstæður í íslensku þjóðfélagi hafa breyst undanfarið ár. Góðærið er senn á enda. Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að nýta ekki tímann í uppsveiflunni til að styrkja velferðarmál og nú er svo komið að sjúklingar liggja inni á salernum og göngum Landspítalans eða hírast heima hjá sér mánuðum saman á meðan nöfn þeirra færast hægt upp langan biðlista. Engu að síður er Landspítalinn látinn undirgangast aðhaldskröfu. Þrátt fyrir að illa gangi að manna Landspítalann, einkum af hjúkrunarfræðingum, virðist helsta áhersla fjárlagafrumvarpsins enn vera bygging nýja Landspítalans. Lögreglan sem lengi hefur verið fjársvelt sér ekki fram á neinar breytingar á næsta ári. Hins vegar þarf Þjóðkirkjan ekki að örvænta og veikir einstaklingar sem ekki geta fengið þjónustu á landssjúkrahúsi sínu geta huggað sig við það að þeir geta líklega ekið um á holulausum vegum eftir stórátak ríkisstjórnar í samgöngumálum. Útlendingastofnun hefur keyrt fram úr fjárlögum áður og á hækkun milli fjárlaga 2019 og 2020, auk þeirra verkefna sem Útlendingastofnun er ætlað að klára samkvæmt frumvarpinu, verður heldur ekki séð að þeir nái að halda sig innan ramma 2020.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu