Fimmtudagur 12.desember 2019
Fréttir

Hún hefur fylgt bæði eiginmanni og föður í gegnum líknardauða – Óskar þess að dánaraðstoð verði í boði á Íslandi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 12. september 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég óska þess innilega að á Íslandi muni koma sá tími þegar það er ekki svona mikið tabú að ræða um dauðann. Ég óska þess einnig að heilbrigðisstarfsfólk opni dyrnar fyrir umræðu um dánaraðstoð innan stofnana um allt land,“ skrifar Sylviane Lecoultre í grein í Fréttablaðinu í dag. Sylviane er hálffrönsk en hefur búið á Íslandi áratugum saman og starfaði sem iðjuþálfi á geðdeild Landspítalans í 33 ár. Hún var frumkvöðull á sínu sviði og hafði mótandi áhrif á starfsemi iðjuþjálfunar hér á landi. Sylviane er nýlega farin á eftirlaun.

Sylviane hefur tjáð sig um líknardauða eða dánaraðstoð en árið 2013 fylgdi hún eiginmanni sínum í gegnum slíkt ferli. Hefur áður verið fjallað um það í fjölmiðlum. Í dag greinir Sylviane hins vegar frá því að hún hafi einnig fylgt föður sínum í gegnum þetta ferli. Sylviane segir að mikil andstaða sé gegn dánaraðstoð á meðal íslensks heilbrigðisstarfsfólks og vonast hún eftir því að þau viðhorf eigi eftir að breytast.

Eiginmaður og faðir Sylviane leituðu dánaraðstoðar hvort hjá sínu félaginu og segir Sylivane upplifunina hafa verið ólíka. Fer hún gegnum þetta í Fréttablaðsgreininni og við gefum henni orðið:

„Á þessum tveimur upplifunum er þó reginmunur. Allur undirbúningur hjá Dignitas fór fram án þess að heilbrigðisstarfsmenn hérlendis og jafnvel nokkrir vinir og vandamenn vissu af því. Þar sem ekki er möguleiki á dánaraðstoð á Íslandi og að því er virðist töluverð andstaða gegn því í heilbrigðiskerfinu vorum við hrædd við að einhver kæmi í veg fyrir áætlun mannsins míns.

Að hjálpa föður mínum í Sviss var allt önnur upplifun. Hann hafði verið lagður inn á öldrunar- og lyflækningadeild. Við erum að tala um 94 ára mann sem missti konuna sína í fyrra eftir að hafa verið kvæntur henni í 69 ár. Fyrir tveimur árum greindist hann með húðkrabbamein en á síðasta ári var sjúkdómurinn í dvala í nokkra mánuði. Á þessu ári fór þó ástandið að versna og ljóst var að pabbi gat ekki lengur búið á eigin heimili. Krabbameinið dreifðist hægt og hafði alltaf meiri og meiri áhrif á lífsgæði hans.

Hann tjáði sig við starfsmenn deildarinnar um löngun sína til að fá Exit til að hjálpa sér að deyja. Þar sem hann treysti sér ekki til að hafa sjálfur samband við Exit vegna aldurs og sjónskerðingar var mér falið að aðstoða hann við að sækja þjónustu hjá samtökunum.

Ferlið var ekki ólíkt því hjá Dignitas nema að hjá Exit er skilyrði að vera búsettur í Sviss. Skilyrðin sem þarf að uppfylla til að fá beiðni um dánaraðstoð samþykkta eru:

Að vera meðlimur í samtökunum. Að hafa lögheimili í Sviss. Að vera orðin(n) 18 ára. Að vera hæf(ur) til að meta stöðuna. Að vera annaðhvort með ólæknandi sjúkdóm, óbærilega þjáningu eða aldurstengd fjöleinkenni (polypathologies).

Fylgiskjöl sem þarf að skila inn eru:

Handskrifað bréf þar sem óskað er aðstoðar. Ef ekki er lengur mögulegt fyrir umsækjandann að skrifa bréfið handvirkt er hægt að fá það vottað af viðurkenndum lögfræðingi. Læknisvottorð sem vottar heilsufar einstaklingsins sem og hæfnina. Þessi skjöl verða að vera samin af lækni sem starfar á svissnesku yfirráðasvæði.

Pabbi skrifaði sjálfur bréfið og yfirlæknir á deildinni tók að sér að kalla til sérfræðing í verkjateyminu auk geðlæknis. Eftir mat þeirra skrifaði hann matsskýrslu til Exit.

Meðan á öllu umsóknartímabilinu stóð var fullkomið samstarf milli föður míns, mín, lækningateymisins, starfsfólks deildarinnar og Exit. Engin tabú, engin hræðsla og ekkert leynimakk, bara skilningur, samvinna og hlýja.“

Ólík viðbrögð ættingja á dánarstundinni

Sylviane segir að erfitt hafi verið fyrir ættingja að styðja ákvöðrun föðurins. Fjölskyldan var þó jákvæð en viðbrögð fólks á dánarstundinni voru mismunandi:

„Enginn þorði sem dæmi að spyrja hann hvernig honum liði með að hafa tekið þessa ákvörðun. Hvort það væri tilhlökkun eða hvort hann hefði efasemdir. Fjölskyldumeðlimirnir fylgdust með á hliðarlínunni og biðu eftir stóru stundinni. Síðasta daginn náði einhver að opna sig og tjá væntumþykju. Annar valdi síðustu stundina til að vera með yfirborðslegan hressleika og brandara. Þrir af fjórum fyrir utan mig völdu að vera viðstaddir endalokin en allir voru hræddir við að tala um það. Fólkið mitt studdi pabba minn 100% en þau voru feimin, óörugg og hrædd.“

Sylviane lýsir dánarstund föður síns með eftirfarandi orðum:

„Í Sviss á fólk rétt á að velja að deyja með aðstoð en það gerist aldrei á sjúkrahúsi. Pabba var ekið heim þar sem fjölskyldan og tveir starfsmenn frá Exit biðu. Hann hafði fyrir fram ákveðið að verja smá tíma með okkur og skála í hvítvíni, rifja upp sögur og minnast mömmu minnar sem lést í fyrra. Eftir um það bil 40 mínútur fór hann inn í svefnherbergið og drakk deyðandi vökvann. Við vorum með honum og kvöddum hann. Hann lést í friði.“

Sylviane segir mikilvægt að tala um dauðann og hún óskar þess að umræða um dánaraðstoð aukist á Íslandi. Enn sé dauðinn tabú.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Talsverðar líkur á rafmagnstruflunum í dag – Rafmagnslaust á Dalvík síðan í morgun

Talsverðar líkur á rafmagnstruflunum í dag – Rafmagnslaust á Dalvík síðan í morgun
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Einn mesti vindhraði sem mælst hefur á Íslandi – Sjáðu ótrúlegt kort Veðurstofunnar

Einn mesti vindhraði sem mælst hefur á Íslandi – Sjáðu ótrúlegt kort Veðurstofunnar
Fréttir
Í gær

Hvað gerist á morgun og næstu daga? Áfram óveður eða gengur þetta niður?

Hvað gerist á morgun og næstu daga? Áfram óveður eða gengur þetta niður?
Fréttir
Í gær

Systir hennar pyntuð grimmilega í Sádi-Arabíu fyrir að aka bíl

Systir hennar pyntuð grimmilega í Sádi-Arabíu fyrir að aka bíl