fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
FréttirLeiðari

Endurtekið efni án uppklapps

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 30. ágúst 2019 19:15

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Óþægilegar, uppáþrengjandi og óviðeigandi hugsanir eða hugmyndir sem þrengja sér í sífellu inn í hugskot einstaklingsins og valda honum miklum kvíða og vanlíðan. Einstaklingurinn reynir eftir mætti að bægja þessum hugsunum frá en getur það ekki.“ Á þessa leið er þráhyggju lýst í Læknablaðinu. Enn fremur er sagt að algengast sé að þráhyggja snúist um hættu tengda óhreinindum eða sýklasmiti, hugsun eða hugmynd um að valda sjálfum sér eða öðrum skaða og þráhyggju um að hlutir í umhverfi verði að vera samhverfir eða í ákveðinni röð. Það er því frekar hvimleitt að vera haldinn þráhyggju og litar allt líf viðkomandi.

Ef marka má Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, eru fjölmargir Íslendingar með þráhyggju fyrir honum sem persónu. Þar sem sú tegund af þráhyggju er langt frá því að vera algengt fyrirbrigði þá mætti ætla að Sigmundur Davíð væri nánast ofurhetjuhæfileikum gæddur.

Hins vegar gæti það einnig verið svo að um væri að ræða enn eitt dæmið þar sem orðhengilsháttarprinsinn grípur í hvert hálmstráið á fætur öðru til að reyna að bjarga sér fyrir horn. Verst er að þráhyggjuspilið hefur verið dregið svo oft fram úr orðskrípaerminni að það er orðið hálfhlægilegt – og svo virðist sem utanríkisráðherra og hálfur þingheimur sé mér sammála.

Ég hef forðast það eins og heitan eldinn að skrifa um Orkupakkann, enda búið að þvæla þessu máli svo oft fram og til baka að það er komin þráalykt af því. Svo má maður auðvitað ekki vera einhvers staðar á milli fylkinga. Maður er annaðhvort með eða á móti Orkupakkanum. Mér finnst hins vegar mikil vanvirðing við okkur sem þjóð að grípa alltaf til hræðsluáróðurs þegar á að ná sínu fram. Ég býst ekkert sérstaklega við því að Ísland stefni rakleiðis til glötunar um leið og blekið á Orkupakka III þornar en mér finnst sjálfsagt mál að ræða vel og vandlega um okkar helstu auðlind – orkuna. Auðlind sem mörgum þykir eftirsóknarverð. Kannski er ég pínulítið með og pínulítið á móti Orkupakkanum. Kannski tek ég mark á sumu í málflutningi minnihlutans og sumu í málflutningi meirihlutans. Er það ekki bara allt í lagi?

Sigmundur Davíð er alls ekki einn um að slengja fram hræðsluáróðri og orðskrípum til að afvegaleiða umræðuna. Það sjáum við sí og æ í íslenskum stjórnmálum. Hann mætti hins vegar bæta aðeins við orðaforðann því það er frekar vandræðalegt að gúgla Sigmundur Davíð og þráhyggja í sömu andrá og fá upp margar síður af niðurstöðum. Með þessu þráhyggjutali nú tel ég að Sigmundur Davíð hafi játað sig sigraðan. Hann stóð í raun með pálmann í höndunum þar sem samþykkt var að taka Orkupakkamálið aftur upp, þó í afar takmarkaðan tíma. Þennan tíma hefði hann geta nýtt betur ef öll þráhyggja og hræðsluáróður hefði verið tekinn úr myndinni og bara talað við þjóðina af einlægni og á mannamáli.

Ég býst við að starf stjórnmálamanns og leikara sé nokkuð svipað. Það þarf að setja sig í karakter og ganga vaskur fram án þess að vera sífellt að spá í hvað öðrum finnst. Taka samt gagnrýni og hlusta. Þá þarf einnig að bregðast við, lesa salinn, vita hvenær á að gefa í og hvenær á að hörfa. Nú held ég að Sigmundur Davíð hafi gjörsamlega mislesið aðstæður og hefur boðið þjóðinni upp á endurtekið efni án þess að vera klappaður upp.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“