fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fréttir

Síbrosandi síbrotamaðurinn – Sat í fangelsi víða: „Ég fann leiðina út, og ég hljóp hana“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 25. ágúst 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bókin Þjófur, fíkill, falsari eftir Guðberg Guðmundsson kom út fyrir áratug. Í bókinni hann rekur litríka ævi sína sem var mörkuð af ástandinu, einelti, vímuefnanotkun og glæpum. Guðberg bauð blaðamanni í kaffi og leit yfir farinn veg. Hann vill segja sögu sína til að sýna öðrum, sem hafa tekið hliðarspor af lífsins beinu braut, að þeir eigi þaðan afturkvæmt. Það sé leið út úr þessu rassgati.

Guðberg tók á móti blaðamanni á hlýlegu heimili sínu í Hafnarfirði. Tímans tönn virðist ekkert hafa bitið á Guðberg, þrátt fyrir að hann sé kominn á áttræðisaldur eftir ævi fulla af erfiðisvinnu á sjó sem og landi og harðri neyslu. Hann mætir blaðamanni kátur og brosandi í Rolling Stones-bol, enda greinilega rokkari inn að beini. Guðberg hefur sankað að sér fjölmörgum sjóræningjafígúrum, sem er vel við hæfi. Sjálfur lagði Guðberg lengi stund á sjómennsku og þar að auki þjófnað og aðra smáglæpi. Það má því með réttu segja að Guðberg hafi verið eins konar sjóræningi sjálfur. Hann var hnuplari, þjófur, falsari, hórkall, smyglari, eiturlyfjasali og lengst af var hann fangi í sjö mismunandi löndum.

Ástandsbarn

Guðberg Guðmundsson er sonur Bjargar Svövu Gunnlaugsdóttur og ameríska hermannsins Douglas Reymond McPhail, og er í hópi þeirra barna sem fæddust í ástandinu. Björg var ung að aldri og átti erfitt með að sjá fyrir syni sínum, svo með semingi gaf hún hann frá sér svo hann fengi að alast upp við betri kost. Björg átti þrjú ástandsbörn, en Guðberg var það eina sem hún gaf frá sér.

Það voru svo kjörforeldrar Guðbergs, Anna Vigfúsdóttir og Guðmundur Guðjón Sigurðsson, sem völdu honum nafn og ólu hann upp. Ísland er lítið land, og þótt kjörforeldrar Guðbergs hefðu haldið því frá honum að hann væri ættleiddur, þá varð Guðberg fyrir aðkasti fyrir að vera „ástandsbarn“ og auk þess hafði hann margoft heyrt útundan sér sögur af uppruna sínum.

Anna, kjörmóðir Guðbergs, óttaðist gífurlega að líffræðileg móðir hans hefði upp á honum, svo þrátt fyrir að vera skírður Guðberg Guðmundsson, var hann kallaður Guðbergur Guðjónsson. Þetta taldi Anna að kæmi í veg fyrir að Björg, móðir hans, fyndi hann og tæki hann til baka. Ótti Önnu var slíkur að hún tók einnig upp á því að loka Guðberg inni í skáp þegar gesti bar að garði. Fela hann, vernda hann, halda honum hjá sér. Það var svo ekki fyrr en hann fermdist sem kjörforeldrar hans sögðu honum sannleikann, sem Guðberg hafði þá vitað um nokkra hríð. „Ég sagði bara; Æ, mamma og pabbi, haldið þið ekki að ég sé búinn að fá að heyra ljótar sögur af henni mömmu. Ég skildi ekki af hverju þau völdu einmitt þennan dag til að segja mér þetta, rétt áður en ég gekk til prestsins til að fermast.“

Þessi uppruni Guðbergs hafði mikil áhrif á uppvöxt hans. Bæði varð þetta til þess að honum var strítt en einnig beið hann skaða af því að kjörforeldrar hans héldu sannleikanum jafn lengi frá honum og raun bar vitni. Að komast að því að hans eigin móðir hefði ekki viljað hann, hefði gefið hann frá sér, var gífurlega erfitt. Guðberg upplifði mikla höfnun. „Ætli það hafi ekki verið þess vegna sem ég var síleitandi allt mitt líf og gekk kvenna á milli. Ég hef verið að leita að mömmu.“ Auk þess þekkti hann engin deili framan af hvorki af móður sinni né föður. Það eina sem hann vissi var að faðir hans var frá Ameríku.

„Ég lokaði mig bara inni og horfði á amerískar kvikmyndir, því pabbi minn var Kani. Ég sannfærði sjálfan mig um að einhver maðurinn í myndunum væri pabbi minn. Svo kom hún mamma eitt kvöldið þegar ég var barn, bankaði upp á eitt kvöldið. Ég sá þessa gullfallegu konu og vissi strax að þetta var mamma mín. Hún faðmaði mig og kyssti og hágrét. Hún var að kveðja því hún var að flytja til útlanda.“ Kjörmóðir Guðbergs var ekki ánægð með þessa heimsókn og sagði Guðberg að þarna væri einhver frænka hans á ferð, en Guðberg vissi betur.

Einelti

Eftir tiltölulega áfallalausa og hamingjuríka æsku í Laugarnesinu í Reykjavík fluttist fjölskyldan búferlum suður með sjó. Varð það örlagarík ákvörðun fyrir Guðberg því í Garði lenti hann í hryllilegu einelti sem markaði líf hans til frambúðar. „Ég átti yndislega æsku í Laugarnesinu, alveg yndislega. Þarna var sannkallaður ævintýraheimur. Við strákarnir höfðum sérstaklega gaman af því að fara að stríða konunum í Laugunum, svona smá púkar í okkur, en auðvitað ekki af neinni illgirni.“ Það er til marks um breytta tíma að heyra Guðberg rifja upp æskuna. Þegar hann var ungur var hann tjóðraður við staur í garðinum svo hann færi ekki á flakk. Nágrannabörnin gerðu sér það að leik að koma þar að og henda ýmislegu lauslegu í Guðberg, sem gat sér enga björg veitt. „Auðvitað langaði mann að vera laus og fara að skoða heiminn.“

Síðan flutti fjölskyldan í Garð. Þar tók við hryllilegur tími í æsku Guðbergs. „Þar var alveg hryllilegt. Ég var orðinn skemmdur löngu áður en ég náði að verða fullorðinn. Fólk vissi ekki hvað einelti var á þessum tíma, enginn trúði neitt á þetta.“

Guðberg varð fyrir grófu einelti og má hreinlega segja að hann sé heppinn að hafa lifað það af. Hann var laminn, níddur, niðurlægður og eitt sinn var hann næstum því drepinn.

„Þá lokuðu þeir mig inni í súrefnissnauðri hlöðu. Ég gat ekki andað og missti meðvitund. Svo var opnað fyrir einhverja loku sem varð mér til lífs. Ég vaknaði þarna fyrir utan og heyrði einn spyrja: „Er hann dáinn“, og annar svaraði: „Æ, látum helvítið liggja“. Hvernig getur fólkið fengið það af sér að ráðast svona á lítinn dreng.“

Þetta var ekki eina skiptið sem Guðberg var heppinn að sleppa lifandi frá eineltinu. Gerendur hans tóku upp á því að sitja fyrir Guðberg og vini hans og skjóta á þá með haglabyssu.

Hann sætti einnig kynferðisofbeldi. Þegar hann var aðeins barn að aldri, varla orðinn unglingur, tældi mun eldri kona hann til samlags við sig. „Hún segir söguna reyndar öðruvísi og segir að ég hafi tælt sig, en ég var bara barn. Í dag yrði væntanlega litið á þetta sem nauðgun held ég.

Ofbeldi er þannig, við skulum muna eftir því, að árið 1000 þá sættumst við með alla reiði og allan kvikindishátt og tókum það að okkur að verja náungann. Þetta voru bara hryllileg ár. Þar til ég bara forðaði mér.“

„Þá sá ég mömmu, hvað hún var agalega sjúk“

Þegar Guðberg var 15 ára gamall fór hann að vinna uppi á Velli. Þar kynntist hann afa sínum sem fór með hann að hitta móður hans.

Björg sagði Guðberg að hún hefði verið neydd til að gefa hann frá sér, þvert gegn vilja sínum. Hún tók honum opnum örmum og eftir það varð hún hluti af lífi hans. Björg var alkóhólisti, þótt Guðberg hafi ekki gert sér grein fyrir því alveg strax. Hann hafði þó heyrt ýmsar gróusögur af móður sinni, sem létu ekki vel í eyrum. Í ástandinu hafði Björg fengið hið ljóta viðurnefnið Tittlinga-Björg, og út frá því fékk Guðberg sitt eigið viðurnefni, Beggi tilli, sem fylgdi honum inn í harðan heim drykkjunnar og neyslunnar. Eftir að hann kynntist móður sinni tókst með þeim mikill vinskapur. Þá áttu þau jafnvel til að kíkja saman á drykkjusvall. „Þá sá ég mömmu, hvað hún var agalega sjúk. Þá sá ég hvað hún var mikil drykkjumanneskja. Svo var ægilegt skap í henni, en ég var alltaf fallegasti og besti strákurinn hennar.“

Fangi í sjö löndum

Guðberg var aðeins 17 ára gamall þegar hann flutti fyrst búferlum inn á fangelsið að Litla-Hrauni og það varð ekki hans fyrsta heimsókn. Næstu áratugir lífs hans einkenndust af mikilli drykkju og neyslu eiturlyfja. Hann var þar einkum hrifinn á kókaíni sem hann segir hafa gefið sér jarðtengingu líkt og ekkert annað efni gat gert. Hann lagði stund á sjómennsku og einnig komst hann í starf hjá Farmaco þar sem hann kynntist læknadópi, pillum, og þar tók hann sín fyrstu skref í eiturlyfjasölu. Í bók sinni segir hann: „Mitt uppáhald þegar ég var ekki að dópa var að taka eina teskeið af vodka í nefið og þá fann maður hvernig hausinn á manni fraus vinstra eða hægra megin eftir því í hvora nösina máður tók.“

En Ísland er líklega of lítið land fyrir mann eins og Guðberg svo hann hélt fljótlega utan þar sem hann dandalaðist á milli landa og fangelsa næstu árin. Hann hefur afplánað dóma í sjö mismunandi löndum, Íslandi, Noregi, Danmörku, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Hollandi með smá viðkomu í Svíþjóð. Í bók sinni rekur hann hvernig hann fékk heimsóknir í fangelsi og smyglaði þar inn fíkniefnum innvortis. „Hann kom svo með alla seðlana ásamt einhverju hassi og hefur mér aldrei liðið eins helvíti illa í gatinu eins og þegar ég var að troða þessu upp í görnina,“ segir Guðberg er hann lýsir því hvernig vinur hans aðstoðaði hann við að smygla vímuefnum og peningum inn í Vestre-fangelsið í í Danmörku.

Í fangelsi í Santa Rita í Bandaríkjunum upplifði Guðberg mikla niðurlægingu. Hann hafði verið ákærður fyrir rán og tilraun til manndráps. Í fangelsinu var komið fram við fanga með ómannúðlegum hætti. „Svo var það talningin. Þá þurftu allir að standa upp strax og ef einhver hafði sofið fast eða ekki vaknað við flautuna tók næsti vörður út á sér liminn og hreinlega pissaði yfir fangana. Það var með ólíkindum hvílík ómennska þreifst í þessu fangelsi.“

Í bók Guðbergs segir: „Við vorum leiddir inn á gang og þar var að minnsta kosti tugur varða vel vopnaðir. Okkur var öllum sagt að strippa og leggja fötin fyrir framan okkur og standa grafkyrrir þangað til þeir væru búnir að athafna sig. Um leið og þeir voru búnir að því þurftum við að opna munninn og rúlla tungunni fram og til baka. […] Eftir tungu „rólið“ þurftum við að bretta upp á forhúðina og lyfta upp pungnum og síðan þurftum við að snúa okkur við og skíta dópi eins og þeir sögðu. Við þurfum að setjast á hækjur okkar og þegar við stóðum upp aftur þurftum við að glenna út rasskinnarnar og svo lýstu þeir í með vasaljósi. Er hægt að niðurlægja menn meira en þetta?“

Í Reinbach-fangelsinu í Þýskalandi segir Guðberg að pollar af blóði hafi verið algeng sjón. Þar hafi þrifist mikið ofbeldi.

En í hvaða fangelsi var best að vera? „Det er selvfølgelig Denmark,“ segir Guðberg og brosir. Ekki Ísland. Athygli vekur við lestur bókarinnar að í hverju fangelsi sem Guðberg dvaldi í virðist hafa verið mikil neysla vímuefna meðal fanga. En eins og Guðberg segir sjálfur, virðist ýmsum brögðum vera beitt við að koma efnunum framhjá vörðunum.

Betrunin

Eftir áratuga langan feril í fangelsum og glæpum hefðu margir líklega talið það tilgangslaust að reyna að snúa við blaðinu. En ekki Guðberg. Það fór svo að er hann sat eitt sinn í Reinbach-fangelsinu í Þýskalandi þá hreinlega missti hann alla lyst á eiturlyfjum, ákvað að snúa við blaðinu og hætta að ljúga.

Eftir að hann lauk afplánun uppgötvaði hann samtök sem voru kennd við leiðtoga þeirra, Súdip frá Indlandi. Með Guðberg og Súdip tókst mikill vinskapur og Guðberg starfaði með samtökunum um nokkra hríð og lagði rækt við sína andlegu hlið. Hann skrapp svo til Danmerkur, þrátt fyrir að mega ekki sækja það land aftur heim eftir fyrri brot. Þar var hann handtekinn fyrir að vera í landinu ólöglega, sendur til Hollands og loks sendur heim. Hér heima hélt Guðberg áfram á beinu brautinni, sótti AA-fundi í „gulahúsinu“ við Tjarnargötu og leigði herbergi hjá Hjálpræðishernum. Í bók sinni segir Guðberg:

„Þessir fundir hjá AA veittu mér þá sjálfstyrkingu sem ég þurfti til að beina huganum að öðru en svartnættinu sem svo gjarnan heltók mig á þessum tíma. Sá vegur sem ég gekk áður en ég kynntist AA var ávallt þyrnum stráður, hreinasta helvíti. En nú þurfti ég ekki að gera annað en að líta til himins og fara með æðruleysisbænina til að umlykjast jákvæðum straumum og fyllast þakklæti. Líf mitt var loksins á réttri braut, að ég hélt. Hinn breiði vegur glötunar loks langt að baki.“

Guðberg hóf síðan sambúð með æskuást sinni, sem síðar slitnaði þó upp úr. Hann minnist þó þeirra ára af mikilli hlýju. Sambýliskona hans studdi hann í edrúmennskunni. Guðberg nýtti reynslu sína af „sölumennsku“ og hóf nú strangheiðarleg sölustörf, seldi bæði tryggingar og bækur. Reyndist þetta liggja vel fyrir honum, hann stóð sig vel og hafði gott upp úr því. Hann sýnir blaðamanni pening sem hann á til marks um 22 ára edrúmennsku, sem fyrir mann sem hefur varið meirihluta síns lifandi lífs í kókaínvímu og fangelsi, verður að teljast töluvert afrek.

Heiðra skaltu móður þína

Guðberg hafði alltaf miklar mætur á Björgu, móður sinni, og finnst hún fórnarlamb aðstæðna í ástandinu. Hann skrifaði meðal annars bréf þess vegna til Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og bað hann að biðjast afsökunar, fyrir hönd þjóðarinnar, á þeirri niðurlægingu sem konurnar í ástandinu hafði verið gert að sæta af samfélaginu. Þessar konur hefðu orðið undir í lífinu og bæði yfirvöld og þjóðfélagið níddu þær og niðurlægðu.

Eftir að móðir hans lést, vildi Guðberg heiðra móður sína með því að reisa fallegan legstein á leiði hennar. Hún var greftruð við hlið fyrrverandi sambýlings síns sem hafði farið á undan, en leiði hans var illa hirt og steinninn hans brotinn og í niðurníðslu. Guðberg fór því og keypti legstein sem honum þótti sæma móður sinni fögru sem honum þótti svo vænt um. Hins vegar síðar þegar hann vitjaði leiðisins til að hirða um það, var steinninn horfinn. „Ég skil ekki hvers vegna hann mátti ekki fá að standa þarna, það var alveg pláss.“ Þar höfðu verið að verki hálfsystkin Guðbergs, Borghildur og Jóhann Páll, sem móðir hans hafði átt með fyrrverandi sambýlismanni sínum Símoni.

Þetta er gott dæmi um það sem Guðberg upplifði á síðari árum. Þessi hálfsystkin hans vildu í seinni tíð ekki kannast við fortíð Bjargar, móður þeirra. Eins og ástandið hefði aldrei átt sér stað. Og ekki vildu þau kannast við eigin fortíð. Þegar bók Guðbergs kom út gengu þau manna og milli og vændu Guðberg um lygar. Þetta sárnaði honum mjög. Borghildi, systur sinni, hafði Guðberg reynst vel, en það launaði hún með því að stela af honum og kalla hann svo lygara. Jóhanni Páli, sem í dag er landsþekktur sjómaður, kenndi Guðberg til sjós. „Ég tók þarna með mér strákræfil og gerði hann að manni.“ Þetta vilja systkin hans ekki kannast við í dag, og talast þau ekki við.

„Ykkur sem eruð í brennivíni og dópi óska ég aðeins eins“

„Tilgangurinn með þessum skrifum mínum er augljós og sýnir hversu djúpt einn maður getur sokkið. En það er ekki fyrir alla að láta sig dreyma um að lifa það af. Þegar ég lít yfir farinn veg óska ég þess eins að enginn þurfi að ganga þá feigðarbraut. Ykkur sem eruð í brennivíni og dópi óska ég aðeins eins: Að þið verðið vitni að uppljómun. Það er nefnilega leið út. Leið sem allir þeir sem berjast við vímuefnavanda ættu að fara og það sem allra fyrst.“ Að lokum segir Guðberg við blaðamann: „Það verður enginn að manni fyrr en hann fer í AA. Ég fann leiðina út, og ég hljóp hana.“

Beinn á beinu brautinni  Guðberg hljóp leiðina að batanum eftir fjörtíu ára sukk Mynd: Eyþór Árnason
Edrú í 22 ár Guðberg heldur stoltur á minnisvarða um tvo áratugi í bata.
Berst fyrir málstað móður sinnar Guðberg ritaði forseta Íslands þetta bréf. Mynd: Eyþór Árnason
Forseti svarar  Forseti Íslands þakkar Guðberg fyrir bréfið. Mynd: Eyþór Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“
Fréttir
Í gær

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Í gær

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“
Fréttir
Í gær

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer

Jón Magnús um þráhyggju virkra í athugasemdum – Bólusetningum kennt um allt sem úrskeiðis fer
Fréttir
Í gær

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“

Sundlaugargestir æfir yfir fyrirhuguðum breytingum: „Notið peningana í þarfari hluti“