Föstudagur 28.febrúar 2020
Fréttir

Einhverfur piltur á meðal fórnarlamba gagnalekans í FB: „Strax farið að valda barninu okkar gífurlegri vanlíðan“

Auður Ösp
Föstudaginn 23. ágúst 2019 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvað er fagmannlegt við að hringja í barnið okkar, sem er sextán ára, og tjá því að því sem það sagði í trúnaði við kennarann sinn hafi verið lekið til minnst fjörtíu manns, bæði nemenda og foreldra þeirra, og síðan skellt á?“ spyr móðir sextán ára drengs sem stundar nám á almennri braut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Fyrir slysni var afar viðkvæmum og einkar persónulegum upplýsingum um piltinn, og fleiri nemendur, lekið á nýnema og forráðamenn þeirra. Pilturinn er greindur með dæmigerða einhverfu og athyglisbrest auk fleiri raskana. Í samtali við DV segir móðir piltsins að henni finnist óskiljanlegt að upplýsingaleki af þessu tagi geti átt sér stað. Hún hefur leitað til lögfræðings vegna málsins og hyggst leggja fram kæru á hendur skólanum. Skólinn hafði ekki samband, hvorki við hana né föður piltsins vegna málsins.

Fullkomlega óviðeigandi

DV greindi frá því á dögunum að alvarlegur gagnaleki hefði átt sér stað hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, FB, þann 15. ágúst síðastliðinn. Þá voru viðkvæmar persónuupplýsingar um nemendur sendar á nýnema og forráðamenn þeirra fyrir slysni, en upplýsingarnar voru meðal annars um líðan nemenda, hvort þeir þyrftu aðstoð við nám og hvort fylgjast ætti með þeim. Óhappið vildi þannig til að umsjónarkennari sendi tölvupóst á forráðamenn og nýnema og lét fylgja með viðhengi sem hann hélt að væri skjal með töflutíma varðandi viðtalstíma. Kennarinn sendi hins vegar rangt viðhengi, skjal með upplýsingum um viðtöl sem höfðu verið tekin við nemendur frá fyrri önn. Ekki þarf að taka fram að þessar upplýsingar voru fullkomlega óviðeigandi og ekki ætlaðar þessum viðtakendum.

Í framhaldinu sendi skólameistari FB tölvupóst á þá nemendur sem urðu fyrir því að upplýsingum um þá var lekið. DV hefur þann tölvupóst undir höndum. Þar kemur meðal annars fram að Persónuvernd hafi verið tilkynnt um málið og skólinn muni vinna að úrbótum á öryggismálum út frá væntanlegum ábendingum frá Persónuvernd. Einnig kemur fram í tölvupóstinum að viðtakendur upplýsinganna viðkvæmu hafi verið beðnir um að eyða umræddum tölvupósti. Þann 16. ágúst síðastliðinn var haldinn fundur með nýnemum og forráðamönnum þar sem sú beiðni var ítrekuð.

„Eins og skvetta í andlitið“

„Trúnaðarupplýsingar eiga ekki að vera geymdar á sama stað og til dæmis stundaskrár annarra nemenda. Hugsaðu þér ef þú færir í vinnuna og trúnaðarmaðurinn eða sálfræðingurinn sem starfaði í fyrirtækinu væri „óvart“ búinn að senda allt persónulegt um þig, svo sem hvernig þér líður, vandamál og fleira, á samstarfsmenn þína. Hvernig mundi þér líða eftir á? Mundirðu mæta í vinnuna?“ spyr móðirin í samtali við blaðamann, en hún kýs að koma fram undir nafnleynd því hún vill hlífa syni sínum.

Móðirin tekur fram að auðvitað séu ekki ekki allir eins.

„Kannski hefur þetta engar afleiðingar fyrir einhverja, en það eru aðrir nemendur sem eru til dæmis með mikinn kvíða eða aðrar raskanir og þeir fá þetta eins og skvettu í andlitið.“

Hún furðar sig enn fremur á því að börnin sem brotið var á hafi ekki verið boðuð á fund til að ræða þessi mál og beðin afsökunar á þessum mjög svo alvarlegu mistökum sem þarna áttu sér stað, heldur voru börnin sem fengu trúnaðarupplýsingarnar sendar boðuð á fund ásamt foreldrum sínum. Þar voru þau beðin afsökunar og beðin um að eyða þessum tölvupóstum „persónulega.“ Síðan var hringt í þá foreldra sem ekki mættu.

Móðirin furðar sig sömuleiðis á því að skólameistari FB skuli hafa tekið fram að hann væri ekki viss um hvort upplýsingarnar flokkist sem viðkvæmar persónuupplýsingar, samkvæmt stöðlum Persónuverndar, en ákveðið hafi verið að tilkynna öryggisbrestinn strax til stofnunarinnar, með aðstoð fagaðila.

„Hvernig getur hann sagt þetta en samt beðið alla afsökunar og boðað þá sem fengu þetta á fund?“

Ópersónulegur tölvupóstur

Hún segir vinnubrögð skólans fyrir neðan allar hellur og gagnrýnir að ekki hafi verið haft samband við hana, móðurina né föður piltsins vegna málsins.

„Barnið er hvorki lögráða né sjálfráða og vissi ekkert hvað það ætti að gera með þessar upplýsingar, sem við höfum ekki fengið að sjá ennþá sem foreldrar. Það var ekki hringt í okkur, foreldrana, svo við gætum rætt málin við barnið og mögulega komið með lausnir ef því liði illa með þetta og hvort það treysti sér í skólann. Við fengum einungis ópersónulegan tölvupóst sendan þar sem hvorki barnið né við vorum nefnd á nafn, og engin áhersla lögð á að þetta ætti við okkur, og yfirsást okkur því algerlega að um okkar barn væri að ræða! Þetta virkaði nánast eins og staðlaður fjöldapóstur.“

Líkt og fyrr segir er sonur konunnar greindur með ýmiss konar raskanir sem hafa háð honum gríðarlega í námi hingað til. Það var því mikill áfangi fyrir hann að hefja nám í framhaldsskóla. Þetta atvik hefur reynst gífurlegt bakslag.

„Þetta er strax farið að valda barninu okkar gífurlegri vanlíðan enda er það hrætt við að verða fyrir stríðni og vill helst ekki ræða þetta. Við erum hrædd um að hann hætti í skólanum,“ segir móðirin en sem fyrr segir hefur hún sett sig í samband við lögfræðing vegna málsins. „Ég vil kæra og láta reka þennan kennara, því hver myndi láta sér detta í hug að hafa trúnaðarmál og -upplýsingar á sama stað og til dæmis tímatöflur? Við viljum vekja athygli á þessu máli svo þetta komi ekki fyrir aðra, og að kennarar sem og aðrir sem hafa viðkvæmar upplýsingar undir höndum, geymi þær á öruggum stað og sjái til þess að aðrir komist ekki yfir þær. Sextán ára er alltaf barn í lagalegum skilningi til átján ára aldurs.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Iceware: Vanhugsað að loka Laugaveginum enda á milli – „Neikvæð áhrif á alla“

Framkvæmdastjóri Iceware: Vanhugsað að loka Laugaveginum enda á milli – „Neikvæð áhrif á alla“
Fréttir
Í gær

John Snorri grét þegar hann neyddist til að snúa til baka – Grunsemdir um að leiðangrinum á K2 hafi verið spillt vísvitandi

John Snorri grét þegar hann neyddist til að snúa til baka – Grunsemdir um að leiðangrinum á K2 hafi verið spillt vísvitandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir til viðbótar smitaðir á Tenerife

Tveir til viðbótar smitaðir á Tenerife
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn var kallaður á teppið: „Kannski ætti ég að fara í skó áður en ég kvarta“

Björn var kallaður á teppið: „Kannski ætti ég að fara í skó áður en ég kvarta“