fbpx
Laugardagur 23.janúar 2021
Fréttir

Vondur draumur ferðaþjónustunnar: „Hér er engum stillt upp við vegg”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 11. ágúst 2019 15:30

Ferðamenn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég staldraði við áhugaverða frétt í gær um hótelbransann. Í fréttinni var fullyrt að hótelstjórar væri afar ósáttir við bókunarsíðurnar Booking og Expedia sökum þess hve háar þóknanir síðurnar tækju af hverri bókun. Í sömu andrá er hins vegar tekið fram að hótelstjórarnir séu háðir þessum bókunarrisum og þurfi að greiða fimmtán til tuttugu prósent af hverri seldri gistinótt í þóknun. „Okkur er stillt upp við vegg,“ var haft eftir einum ónefndum hótelstjóra á Suðurlandi.

Hótelstjórarnir eru ansi aumir yfir þessu, enda leikur einn að benda á útlensku risana og segja þá eyðileggja allan bisness. Það er vel þekkt taktík til að fá fólk á sitt band. Það vantar hins vegar svo mikið í þessa sögu hótelstjóranna að það er engu lagi líkt.

Fyrir nokkrum árum blés hér út ferðamannabransi og allir og amma þeirra ætluðu að stökkva á mjólkurkúna. Fá sinn tíma á spenanum og njóta. Og það heppnaðist hjá ansi mörgum, enda um tíma mun meiri eftirspurn eftir gistingu, afþreyingu, þjónustu og vörum en framboð. Það sem gleymdist hins vegar í öllu havaríinu var markaðssetning. Til styttri tíma litið virtist vera mun sniðugra fyrir fyrirtæki í ferðamannabransanum, sérstaklega þessi minni, að leggja traust sitt á bókunarþjónustur frekar en að efla innri markaðssetningu og eigin nærveru á hinu stóra alneti. Þannig væri hægt að bjóða upp á vörur, þjónustu, afþreyingu, gistingu án þess að eyða krónu í hluti eins og heimasíðu, bæklinga eða markaðssetningu á netinu. Stóru bókunarvélarnar myndu bara sjá um þetta.

Á þessum tíma, þegar að góðæri ferðabransans stóð sem hæst, munaði þessa aðila nefnilega ekkert um 10, 15, jafnvel 20 prósent í söluþóknun, svo mikil var salan. Hótelstjórarnir höfðu vafalaust ekki einu sinni tíma til að skanna Expedia og Booking til að fylgjast með hvar þeirra hótel var í röðinni í leitarniðurstöðum. Það seldist allt upp. Það var heldur engin ástæða til að skipulega safna saman netföngum, senda út fréttabréf, bjóða fólki upp á afsláttarkóða á bókanir eða reyna að selja þeim afleidda þjónustu, enda margir ferðaþjónustuaðilar ekki með nægilega góða lendingarsíðu til að vinna svo viðamikið markaðsstarf. Öll framtíðarsýn flaug því út um gluggann og örlögin sett í hendurnar á stórum bókunarþjónustum – aðilum sem kunna sitt fag.

Svo fór að harðna í ári. Ferðamönnum fækkaði og einnig fjölgaði þeim ferðamönnum sem kusu að skoða Ísland á sinn eigin hátt, til dæmis með því að sofa í bílnum, kaupa sér nesti og ganga sjálfir í staðinn fyrir að bóka sér ferð. Þá föttuðu margir ferðaþjónustuaðilar að það væri bogið að vera ekki með heimasíðu. Þeir vildu loksins fara að markaðssetja sig á vefnum. Það er hins vegar dýr og tímafrek vinna sem þarfnast fagmanna í verkið, sökum þess hve harður ferðamannabransinn er. Það er engin skynsemi fólgin í því að kasta þúsundköllum í Google-auglýsingar þegar erlendir ferðaþjónusturisar kaupa bara upp leitarorðin þín jafnharðan sem veldur því að leitarorðin þín kosta allt í einu tífalt meira í dag en í gær. Ef nokkur hundruð þúsund kallar eru hins vegar settir í góða heimasíðu með bókunarmöguleikum, markaðssetningu á netinu og viðhaldi á vefmiðlum þá getur það borið árangur. En það kostar þolinmæði, sem er oft af skornum skammti á Íslandi.

Þetta er því ekki klippt og skorið. Það er galið að halda því fram að erlendir bókunarrisar stjórni hér öllu og það er galið að halda því fram að útlensk stórfyrirtæki séu að ganga af hótelstjórum dauðum. Sannleikurinn er sá að þessar stóru bókunarþjónustur hafa unnið alla markaðsvinnuna sem sum íslensku fyrirtækin hafa ekki tímt að borga fyrir. Hér er engum stillt upp við vegg. Innlendu ferðaþjónustuaðilarnir tóku bara margir það sem þeir héldu vera auðveldu og ódýru leiðina og eru margir hverjir að vakna upp við vondan draum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Frávísun í máli Jóns Baldvins felld úr gildi – Tímafrestur liðinn

Frávísun í máli Jóns Baldvins felld úr gildi – Tímafrestur liðinn
Fréttir
Í gær

Sauð upp úr á Þjóðhátíð – Tvíkjálkabraut mann með einu hnefahöggi

Sauð upp úr á Þjóðhátíð – Tvíkjálkabraut mann með einu hnefahöggi
Fréttir
Í gær

Tölvuþjófurinn úr þinghúsinu laus úr haldi með ökklaband – Kennir Trump um athæfi sitt

Tölvuþjófurinn úr þinghúsinu laus úr haldi með ökklaband – Kennir Trump um athæfi sitt
Fréttir
Í gær

Tjónið í Háskóla Íslands gæti hlaupið á hundruðum milljóna

Tjónið í Háskóla Íslands gæti hlaupið á hundruðum milljóna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mannanafnanefnd aftur farin á stjá – Sótt um Aquamann og Viðey

Mannanafnanefnd aftur farin á stjá – Sótt um Aquamann og Viðey
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Alvarlegt atvik í Sundhöll Reykjavíkur – Maður fannst hreyfingarlaus

Alvarlegt atvik í Sundhöll Reykjavíkur – Maður fannst hreyfingarlaus