fbpx
Þriðjudagur 31.janúar 2023
Fréttir

„Við trúum því eindregið að einhver viti sannleikann“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 28. júlí 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir langar og ítarlegar rannsóknir lögreglunnar, þá eru þessi óhugnanlegu morðmál, sum sem ná allt aftur til áttunda áratugarins, enn að valda lögreglunni heilabrotum. Aðstandendur eru enn í sárum og vita ekki hver er ábyrgur fyrir morðinu á ástvinum þeirra og möguleiki er á að morðingjarnir gangi enn frjálsir sinna ferða.

MailOnline á vefsíðunni DailyMail fór yfir 15 óleyst morðmál í Bretlandi með það að markmiði að reyna að finna og koma lögum yfir morðingjana. Hér er síðasti hluti af þremur.
Hér má lesa fyrsta hlutann og hér annan hluta.

Billie-Jo Jenkins var aðeins 13 ára þegar hún fannst látin.

Billie-Jo Jenkins

Billie-Jo Jenkins var aðeins 13 ára gömul þegar hún fannst í blóðpolli í bakgarðinum hjá Sion Jenkins, stjúpföður hennar, í Hastings í East Sussex þann 15. febrúar árið 1997. Jenkins hafði verið lamin í höfuðið oftar en tíu sinnum með 18 tommu járntjaldhæl, en hún var í garðinum að mála dyrnar út á veröndina. Stjúpfaðir hennar var ákærður og dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 1998, en eftir tvær áfrýjanir var hann sýknaður af verknaðinum.

Jenkins var lamin í höfuðið oftar en tíu sinnum.

Á síðasta ári, á tuttugu ára andlátsafmæli Jenkins, óskaði móðir hennar, Deborah Barnett, eftir  því að lögreglan opnaði málið að nýju.

Deborah Barnett, móðir Jenkins.

Talið er að heildarkostnaður rannsóknarinnar, réttarhalds og áfrýjana sé í kringum ein milljón punda.

Fjölskylda Jenkins hefur óskað þess að lögreglan rannsaki Antoni Imiela, sem á að baki dóm vegna nauðgunar, vegna dauða Jenkins. Árið 2017, á tuttugu ára dánarafmæli hennar, óskaði Deborah Barnett móðir hennar eftir því að lögreglan enduropnaði málið.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Sussex segir: „Málið er hluti af málum sem eru óleyst og eru yfirfarin á tveggja ára fresti til að sjá hvort einhverjar nýjar upplýsingar hafi komið fram og athuga hvort framfarir hafi orðið í tæknirannsóknum, sem geri það að verkum að raunhæft sé að taka málið upp aftur. Eins og staðan er þá hafa engar nýjar upplýsingar komið fram í málinu og það eru engar fyrirspurnir útistandandi. Við munum alltaf skoða nýjar upplýsingar og tæknirannsóknir sem leitt geta til nýrra rannsókna. Þeir sem hafa nýjar upplýsingar sem leitt geta til frekari rannsókna eru beðnir um að hafa samband við okkur.“

Kate Bushell, 14 ára var, skorin á háls rétt hjá heimili sínu.

Kate Bushell

Kate Bushell, 14 ára, fannst skorin á háls innan við 300 metrum frá heimili hennar á Exwick-svæðinu í Exeter í Devon 15. nóvember árið 1997. Bushell var úti að ganga með terrierhund sinn, Gemma, um klukkan 17. Þegar hún skilaði sér ekki heim fóru foreldrar hennar, Jerry og Suzanne, að leita að henni og fann faðir hennar lík Bushell um klukkan 19. Stóð hundurinn og beið við hlið hennar.

Þegar Bushell skilaði sér ekki heim hófu foreldrar hennar leit að henni.
Glæpavettvangurinn í Devonshire.
Faðir Kate Bushell fann lík hennar rétt hjá heimili þeirra.

Rannsóknin á dauða hennar er dýrasta morðrannsókn lögreglunnar í Devon og Cornwall til þessa og er kostnaður kominn yfir eina milljón punda. Beiðni til almennings í fyrra um upplýsingar í málinu gaf af sér tíu nýjar vísbendingar og í mars lauk nýrri yfirferð yfir málið af hálfu lögreglunnar.

Í júní árið 2017 hóf teymi lögreglumanna og starfsmanna endurrannsókn á lykilsönnunargögnum í málinu, þar sem talið var að morðinginn hefði þekkingu á staðháttum og tengsl við Exwick-svæðið. Í hópnum voru bæði starfandi lögreglumenn og þeir sem hættir voru störfum og á meðal þeirra nokkrir sem störfuðu að upphaflegri rannsókn málsins.

Á dánarafmæli hennar gaf lögreglan út opinbera beiðni þar sem birtar voru myndir af eldhúshníf sambærilegum þeim sem notaður var sem morðvopn.

Paul Burgan rannsóknarlögreglumaður með hníf sambærilegan þeim sem notaður var sem morðvopn.

Lögreglan tók á móti 204 símtölum og skilaboðum, sem leiddu til tíu nýrra vísbendinga, þar á meðal nafna á hugsanlegum gerendum. Enn hefur enginn verið handtekinn í tengslum við morðið.

Paula Hounslea hvarf eftir fjölskyldumáltíð.

Paula Hounslea

Paula Hounslea hvarf án nokkurra vísbendinga í ágúst árið 2009, eftir kvöldverð í afmælisfagnaði móður sinnar. Fjölskylda Hounslea hafði keyrt hana heim til hennar í West Derby í Liverpool og kvatt hana þar. Næsta morgun kom Hounslea inn í herbergi unglingsdóttur sinnar, Lois, og sagðist myndu gista hjá vini í nokkra daga. Hún skilaði sér aldrei þangað, en peningaúttektir voru af reikningi hennar fyrstu tíu dagana eftir hvarf hennar.

Rannsókn á hvarfi breyttist í morðrannsókn þegar brunnar líkamsleifar Hounslea fundust í pytti. Líkama hennar hafði verið fleygt rétt hjá ónotuðum lestarteinum í Fazakerley í Liverpool.

Pytturinn þar sem brunnar líkamsleifar Hounslea fundust þremur árum eftir hvarf hennar.
Lík Hounslea fannst við hlið járnbrautarteina í Fazakerley í Liverpool.

Lögreglan telur að líkama hennar hafi verið fleygt þar í febrúar árið 2012. Lögreglumenn fundu gullnisti með andliti heilagrar Maríu við hlið líkama hennar og foreldrar hennar höfðu samband þegar þeir sáu mynd af nistinu í staðardagblaði. Lögreglan bar kennsl á bein Hounslea með því að notast við tannlæknaskýrslur.

John Webster rannsóknarfulltrúi í Merseyside-lögreglunni segir: „Rannsóknin á morði Paulu Hounslea er enn opin og rannsóknarlögreglumenn munu bregðast við nýjum ábendingum ef þær berast.“

Nikki Allen var stungin 37 sinnum.

Nikki Allen

Nikki Allen, sjö ára gömul, yfirgaf heimili ömmu sinnar og afa í Sunderland í Tyne and Wear. Þegar hún skilaði sér ekki heim, en stutt var á milli heimilanna, var hafin viðtæk leit. Morguninn eftir fannst lík hennar í yfirgefinni byggingu nálægt heimili hennar og hafði hún verið stungin 37 sinnum. Allen lá í blóðpolli.

Lögreglan greindi frá því í október á síðasta ári að framfarir hefðu náðst hvað DNA varðaði í málinu. Og í apríl á þessu ári handtók lögreglan mann í Teesside og var manninum, sem talinn var á fimmtugsaldri, haldið í varðhaldi vegna gruns um morðið.  Í yfirlýsingu frá lögreglunni sagði: „Maður var handtekinn vegna gruns um að hafa myrt Nikki Allan, hann var látinn laus eftir yfirheyrslur og er málið enn í rannsókn.“

Sharon Henderson, móðir Allen, hefur reynt án árangurs að finna morðingja dóttur sinnar.
Blómakransar sem einstaklingar hafa skilið eftir á morðvettvanginum.

Vitni segja réttarmeinafræðinga hafa eytt átta klukkustundum að störfum á vettvangi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni eru engar nýjar upplýsingar í málinu.

Lík Rikkis Neave fannst í skóglendi nálægt heimili hans.

Rikki Neave

Lík hins sex ára gamla Rikkis Neave fannst í skóglendi nærri heimili hans í Peterborough 29. nóvember árið 1994. Banamein hans var kyrking. Föt Neave, gráar skólabuxur, jakki og hvít skyrta, fundust síðar í ruslatunnu stutt frá svæðinu.

Síðast sást til Neave þegar hann yfirgaf heimili sitt til að fara í skólann, daginn áður en hann fannst látinn. Ruth móðir hans var seinna ákærð fyrir morðið, en sýknuð. Hún var hins vegar dæmd í sjö ára fangelsi vegna misþyrmingar á börnum sínum og þau sett í fóstur.

James Watson, 37 ára, var handtekinn 19. apríl á síðasta ári grunaður um morðið. Hann greiddi lausnargjald og var látinn laus úr varðhaldi, en stakk af og komst úr landi til Portúgal með því að fela sig aftur í bifreið. Í júní á þessu ári gaf ákæruvaldið út þá yfirlýsingu að ekki væru næg sönnunargögn til að ákæra hann fyrir morðið.

Rut, móðir Neave, var ákærð og síðar sýknuð vegna morðsins. James Watson var handtekinn vegna málsins, en ekki fundust næg sönnunargögn til að ákæra hann.

Á sínum tíma sagði Paul Fullwood aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem leiddi rannsóknina: „Það veldur vonbrigðum að á þeim þremur árum sem við höfum rannsakað málið þá höfum við ekki getað fundið þann eða þá sem ábyrgur/ir eru fyrir dauða Rikki. Við erum þó, þrátt fyrir að við höfum á þessu stigi engar virkar vísbendingar í málinu, staðráðin í að finna morðingja hans. Það er pirrandi að þrátt fyrir þrjú ár af ítarlegri rannsóknarvinnu þá getum við enn ekki sagt fjölskyldu hans hvað gerðist daginn sem hann var myrtur, en við gefum ekki upp vonina um að geta einn daginn gert það. Hvort sem það verða ný sönnunargögn eða framfarir í réttarrannsóknum, þá munum við nota hvert tækifæri til að rannsaka þetta morð og koma réttlæti yfir gerandann. Við trúum því eindregið að einhver viti sannleikann og vonum að hann gefi sig fram einn daginn.“

Rannsóknarlögreglumenn í Bedfordshire, Cambridgeshire og Hertfordshire hafa tekið yfir 1.200 skýrslur í málinu og færslur í því eru yfir 1.300 talsins. Engar nýjar vísbendingar hafa komið fram í málinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum
Sleginn í andlitið
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Örvæntingafull leit að tveggja barna móður í Englandi – Hvarf sporlaust í gönguferð með hundinum

Örvæntingafull leit að tveggja barna móður í Englandi – Hvarf sporlaust í gönguferð með hundinum
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fréttavaktin: Undiralda í grasrót Vinstri grænna, skóli í skýinu og fataverslun Elvíra

Fréttavaktin: Undiralda í grasrót Vinstri grænna, skóli í skýinu og fataverslun Elvíra
Fréttir
Í gær

Ásmundur segir ríkissáttasemjara í fullum rétti – „Treysti því að hans dómgreind sé þokkaleg“

Ásmundur segir ríkissáttasemjara í fullum rétti – „Treysti því að hans dómgreind sé þokkaleg“
Fréttir
Í gær

Boris Johnson segir að Pútín hafi hótað honum símleiðis

Boris Johnson segir að Pútín hafi hótað honum símleiðis
Fréttir
Í gær

Frosti stígur fram og vill leiðrétta misskilning um meint ofbeldi – „Annað gerði ég ekki og ég hef ekki gengist við neinu öðru“

Frosti stígur fram og vill leiðrétta misskilning um meint ofbeldi – „Annað gerði ég ekki og ég hef ekki gengist við neinu öðru“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tekist á um miðlunartillöguna í Silfrinu – Segir hana ólöglega og beina árás á samningafrelsi í landinu

Tekist á um miðlunartillöguna í Silfrinu – Segir hana ólöglega og beina árás á samningafrelsi í landinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sonur Signýjar í fráhvörfum vegna heróínfíknar og fær ekki aðstoð – „Ég er farin að hugleiða að ná sambandi við dópsala“

Sonur Signýjar í fráhvörfum vegna heróínfíknar og fær ekki aðstoð – „Ég er farin að hugleiða að ná sambandi við dópsala“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óttar geðlæknir gefur lítið fyrir hugvíkkandi efni – „Tala í innihaldslausum frösum“

Óttar geðlæknir gefur lítið fyrir hugvíkkandi efni – „Tala í innihaldslausum frösum“