Fimmtudagur 12.desember 2019
Fréttir

Hatursglæpur við Bónus: Þórunn segir íslenska konu hafa hrækt á múslíma

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 16. júlí 2019 12:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Ólafsdóttir, sem hlaut Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2016, segir að hatursglæpur hafi verið framinn í Breiðholti í gær. Í dagbók lögreglu kemur fram að slíkur glæpur sé í rannsókn.

Þórunn segir í stöðufærslu á Facebook að hún sé kunnug þeim þremur konum sem eiga að hafa orðið fyrir árásinni. „Þegar ég kom heim seinni partinn í gær var Kinan í símanum. Tónninn í röddinni gaf sterklega til kynna að eitthvað mikið væri að. Hávær röddin á hinum enda línunnar var augljóslega í miklu uppnámi og mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Vitandi af svo mörgum ástvinum hans í Sýrlandi leitar hugurinn óhjákvæmilega þangað í svona aðstæðum. Var nú búið að ráðast á þau?,“ lýsir Þórunn.

Árás um hábjartan dag

Hún segir að það hafi reynst rétt, að hluta. „Í ljós kom að árás hafði átt sér stað. Ekki þó í Sýrlandi, heldur um hábjartan dag í Reykjavík. Á hinum enda línunnar var kær vinur okkar, ráðist hafði verið fólskulega á fjölskylduna hans í jafn hversdagslegum aðstæðum og innkaupaferð í Bónus. Fjölskyldan var á leið út úr versluninni þegar kona veittist að þeim, fyrst með ókvæðisorðum en svo bætti hún í og hrækti á þau og gerði tilraunir til að rífa í hijab kvennanna, sem er þekkt aðferð hatursglæpamanna til að niðurlægja múslima. Tilefni árásarinnar var hatur í garð innflytjenda og múslima. Í landinu sem ætlaði sér að veita fjölskyldunni öruggt skjól. Árásarmanneskjan hvæsti ítrekað á fólkið að það skyldi koma sér heim og það væri ekki velkomið hér á Íslandi,“ segir Þórunn.

Þórunn Ólafsdóttir.

Fjölskyldan hrædd

Hún segir að konurnar hafi verið verulega skelkaðar. „Það var því eðlilegt að vinur okkar í símanum væri hræddur. Fyrstu viðbrögð fólksins voru hárrétt, þau hringdu á lögregluna. Í mínum huga sýndu þau mikið hugrekki, það er alls ekki sjálfgefið að fólk í þeirra stöðu treysti lögreglunni. Fólk sem hefur flúið land þar sem lögreglan er ekki til fyrir fólkið, heldur fyrir yfirvöld og hikar ekki við að beita harðræði hvar og hvenær sem er. Við Kinan höfum oft átt samtal um lögregluna við fólk sem óttast hana og hvatt það til að leita til hennar þegar ástæða er til – að lögreglan á Íslandi eigi að vinna fyrir fólkið og hlutverk hennar sé að tryggja öryggi okkar þegar því er ógnað, þó því miður sé það kannski ekki alltaf raunin þegar á reynir. Það að vinir okkar skyldu þora að hafa samband við lögreglu á ögurstundu hefði með öllu réttu átt að vera mikill sigur, en lögreglan sá ekki ástæðu til að koma. Hún sá ekki tilefni til að koma þeim til aðstoðar í þessum hræðilegu aðstæðum, heldur fengu þau skilaboð um að þeim væri velkomið að fara á lögreglustöð daginn eftir og tilkynna það sem hefði átt sér stað,“ segir Þórunn.

Ósátt við lögregluna

Hún segir að fjölskyldan hafi verið í áfalli eftir þetta. „Það var á þessum tímapunkti sem ég kom heim og heyrði Kinan tala í símann. Fjölskyldan stóð í áfalli fyrir utan verslunina, dauðhrædd og óviss um hvað skyldi til bragðs taka. Úr varð að þau hringdu í Kinan til að biðja um ráð. Mín fyrstu viðbrögð voru að hringja í lögregluna og óska eftir að þau fengju lögregluaðstoð strax. Hvort það var lýtalaus íslenskan mín eða sem náði að sannfæra lögregluna um að þarna væri fólk sem þyrfti á lögregluaðstoð að halda skal ég ekki segja til um, en lögreglan var í þessari atrennu tilbúnari að koma á staðinn. Niðurstaðan varð þó á endanum sú að fólkið var beðið að koma og hitta lögregluna á Dalvegi og gefa skýrslu. Mér er enn algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna lögreglan sá ekki ástæðu til að skipta sér af á meðan árásin stóð yfir. Ég var vissulega ekki á staðnum sjálf og því ekki með fullkomna yfirsýn yfir tímalínuna, en taldi lögreglan í alvöru ekki mikilvægt að tryggja öryggi fjölskyldunnar við þessar aðstæður? Þótti ekki ástæða til að kanna málið og gera tilraun til að hafa uppi á árásarmanneskjunni? Voru engin vitni á vettvangi sem talið var mikilvægt að ná tali af? Hvað með sönnunargögn eins og upptökur úr öryggismyndavélum verslunarinnar?,“ spyr Þórunn.

Einangrað tilvik?

Hún veltir fyrir sér hvort fleiri dæmi séu um árásir sem þessar. „Nú ætla ég ekki að þykjast hafa meira vit á vinnubrögðum lögreglunnar en hún sjálf, en hvernig hefði þetta mál endað ef fjölskyldan hefði ekki átt bakland sem gat gengið í málið? Hversu mörgum svona árásum heyrum við aldrei af? Það sem setur þó að mér mestan óhug er að atburður sem þessi eigi sér stað um hábjartan dag í landi sem kennir sig við öryggi og friðsæld. Ofbeldið sem árásarmanneskjan ákvað að beita er af grafalvarlegum toga og á hennar eigin ábyrgð, en því miður ekki hægt að líta á það sem einangrað tilvik. Samhengið er miklu, miklu stærra. Hatursorðræðu, rasisma og íslamófóbíu hefur vaxið fiskur um hrygg í samfélaginu okkar undanfarin misseri. Sú ógnvænlega þróun á sér margar skýringar og fjölmargir sem bera þar mikla ábyrgð – stjórnmálafólk, fjölmiðlar og fólkið sem veitir þessum hugmyndum brautargengi og fjöldinn sem lætur þær óáreittar. Hvernig samfélag viljum við eiginlega vera?,“ spyr Þórunn.

Hún hvetur að lokum alla sem hafi orðið vitni að árásinni að setja sig í samband við lögregluna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Talsverðar líkur á rafmagnstruflunum í dag – Rafmagnslaust á Dalvík síðan í morgun

Talsverðar líkur á rafmagnstruflunum í dag – Rafmagnslaust á Dalvík síðan í morgun
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Einn mesti vindhraði sem mælst hefur á Íslandi – Sjáðu ótrúlegt kort Veðurstofunnar

Einn mesti vindhraði sem mælst hefur á Íslandi – Sjáðu ótrúlegt kort Veðurstofunnar
Fréttir
Í gær

Hvað gerist á morgun og næstu daga? Áfram óveður eða gengur þetta niður?

Hvað gerist á morgun og næstu daga? Áfram óveður eða gengur þetta niður?
Fréttir
Í gær

Systir hennar pyntuð grimmilega í Sádi-Arabíu fyrir að aka bíl

Systir hennar pyntuð grimmilega í Sádi-Arabíu fyrir að aka bíl