fbpx
Þriðjudagur 22.september 2020
Fréttir

„Ég get ekki ímyndað mér þann ótta að geta hugsanlega rambað á morðingja barns míns á förnum vegi“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 14. júlí 2019 12:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það hlýtur að vera versti sársauki sem foreldri getur upplifað að missa barn. Að horfa á eftir barni sínu er það er fært rólega í kassa niður í jörðina. Það á enginn að þurfa að upplifa. En það gerist og einhvern veginn heldur fólk lífinu áfram, en sársaukinn fer ekki neitt. Börn geta jú dáið eins og við fullorðna fólkið. Þau geta orðið lífshættulega veik og lífsljós þeirra slokknað. Þau geta verið á röngum stað á röngum tíma, mislesið aðstæður og hætt sér út á umferðargötu án þess að líta til beggja hliða. Þau geta líka farið frá okkur án nokkurra haldbærra skýringa.

Helgi í Góu lýsir því mjög vel í átakanlegu viðtali við DV hve djúpt sá sársauki að missa barn ristir. Barnið hans Helga varð ekki veikt. Það mislas ekki aðstæður. Það gerði ekkert rangt. Sonur hans var myrtur á hrottafenginn hátt af manni sem var sjúkur af ástsýki í garð unnustu fórnarlambsins. Morðinginn skipulagði morðið, hugsaði lengi um það og lét síðan til skarar skríða. Aðkoman var hræðileg. Ólýsanlegt áfall fyrir alla fjölskylduna.

Fregnir bárust af því fyrir stuttu að morðingi sonar Helga væri búinn að skrá sig á stefnumótaforritið Tinder. Þá hafði frést af honum á vappi í Hafnarfirði. Hann virðist því hafa fengið valkosti um hvernig hann lyki afplánun á þeim sextán ára fangelsisdómi sem hann fékk fyrir að myrða son Helga. Hugsanlega er hann undir rafrænu eftirliti eða á áfangaheimili. Við vitum það ekki. Eina sem við vitum er að hann fékk þennan valkost. En sonur Helga fékk engan valkost. Og fjölskylda fórnarlambsins fær ekki valkost um hvort hún vilji hitta kvalara sonar síns eður ei.

Helgi er ómyrkur í máli í samtali við DV varðandi refsingu morðingjans, eða skort þar á öllu heldur. Telur hann að sá sem sé fær um að framkvæma slíkan glæp þurfi að taka afleiðingunum, sem eru víðtækar og hafa snert alla í fjölskyldu fórnarlambsins, og eflaust alla í fjölskyldu gerandans einnig. Því séu nokkur ár í fangelsi ekki nóg.

Lengd refsinga og dómar almennt eru viðkvæmt málefni. Þar takast á mismunandi sjónarmið um mannréttindi og rétt fanga til að lifa mannsæmandi lífi eftir iðrun og betrun. Spurningin er siðferðisleg og umræðan tilfinningaþrungin. Skiljanlega. Það má samt ekki horfa framhjá gereyðingunni sem verður þegar slíkur glæpur er framinn, líkt og í tilfelli Helga í Góu. Það má ekki horfa framhjá réttindum aðstandenda. Réttur gerandans má ekki trompa rétt óbeinna fórnarlamba hans.

Það er óhjákvæmilegt að hafa samúð með Helga og hans fjölskyldu. Ég get ekki ímyndað mér þann ótta að geta hugsanlega rambað á morðingja barns míns á förnum vegi. Ég myndi vilja fá valkostinn. Geta sagst aldrei vilja sjá þennan mann aftur. Því miður er valkosturinn ekki minn – valið liggur allt í höndum morðingjans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

38 ný smit í gær
Fyrir 2 dögum

„Helvítis fokking fokk. Það á ekki af Svarthöfða að ganga á þessum tímum“

„Helvítis fokking fokk. Það á ekki af Svarthöfða að ganga á þessum tímum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Því miður erum við að sjá að fólk er á ferðinni þegar það er veikt“ – „Heimilisofbeldi hefur aukist mjög mikið“

„Því miður erum við að sjá að fólk er á ferðinni þegar það er veikt“ – „Heimilisofbeldi hefur aukist mjög mikið“