Fimmtudagur 12.desember 2019
Fréttir

Börnin okkar eru komin á Tinder – Auglýst eftir börnum allt niður í níu ára

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 13. júlí 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur borið á því síðustu vikur og mánuði að íslenskar stefnumótasíður skjóti upp kollinum á samfélagsmiðlinum Instagram. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að um er að ræða stefnumótasíður þar sem börn leita sér að einhverjum til að hefja samband með eða stunda kynlíf. Nöfn síðnanna eru oft með vísan í vinsæla stefnumótaforritið Tinder og eru flestar síðurnar opnar almenningi.

Ljótar athugasemdir grassera

DV hefur fylgst með þessum síðum koma og fara, en sá gangur virðist vera á að ónefndir aðilar opni síðurnar, einstaklingar sem segjast vera á grunnskólaaldri, afli sér fylgjenda en síðan komist foreldrar eða forráðamenn á snoðir um málið, tilkynni síðurnar og þeim þá lokað. Þá eru einfaldlega nýjar síður opnaðar og hringrás fer af stað á ný. Stundum eru síðurnar opnar svo vikum skiptir, stundum aðeins í nokkra daga. Reglurnar og tilgangur þeirra er ávallt sá sami. Börn senda mynd af sér í einkaskilaboðum til stjórnanda síðunnar, sem er nafnlaus. Börn geta einnig sent mynd af vini sínum. Mikilvægt er að taka fram sinn aldur og aldur á þeim sem maður er að leita eftir. Þá þurfa börnin einnig að láta fylgja með hlekk á sinn persónulega Instagram-reikning. Ekki er tekið fram í reglunum að fylgst sé með athugasemdum eða að þeim sé eytt út séu þær óviðeigandi. Þessar síður eru því ekki undir neinu eftirliti stjórnanda. Hins vegar er hægt að senda einkaskilaboð á stjórnanda og biðja hann um eyða mynd. Margar ljótar athugasemdir er að finna við myndirnar eins og þessi dæmi sýna:

Síðurnar virðast eingöngu vera notaðar af börnum á grunnskólaaldri. Algengt er að ungmenni á aldrinum þrettán til fimmtán ára séu að leita að skyndikynnum eða sambandi en hins vegar fann DV fjölmörg dæmi um að verið sé að „auglýsa“ eftir börnum allt niður í níu ára. Þá fann DV dæmi um að sautján ára gamall táningur væri að leita eftir að gamna sér við börn allt niður í tíu ára gömul. Þá hljóðar ein auglýsingin sem DV fann á þessa leið: „05 [fæðingarár 2005] til í yngri stelpur í 3. til 6. bekk.“

Börn eiga ekki að vera á stefnumótasíðum

„Þetta er klárlega algjörlega óviðeigandi,“ segir Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla. „Börn eiga ekki að þurfa að vera á stefnumótasíðum. Þar eru þau til dæmis óvarin fyrir alls konar áreiti og misjöfnum karakterum sem kannski sigla undir fölsku flaggi, fá þau til að gefa út upplýsingar eða myndir sem þeir kúga þau með seinna,“ bætir hún við.

Hrefna segir mikilvægt að foreldrar ræði þessi mál við börnin sín og unglinga en leggur ríka áherslu á að slíkar samræður séu í rólegheitum og með virðingu. Hún segir traust ekki byggt upp á einni nóttu og samskipti foreldra og barna skipti miklu máli því netið og tæknin sem því fylgir sé ekki að fara neitt. „Það koma alltaf nýjar síður og ný öpp. Þó að net sé tæknilegt fyrirbæri eru samskipti alltaf samskipti og þá gilda ákveðnar samskiptareglur um að vera skynsamur og koma vel fram við aðra. Við þurfum að taka samtal við börnin okkar varðandi hvað þau þurfa að varast á netinu; að fara ekki inn á hvað sem er og að gefa ekki upp persónuupplýsingar til hvers sem er. Þau þurfa líka að njóta þess að vera á samfélagsmiðlum, því þeir hafa ýmislegt jákvætt við sig, en þau þurfa líka að kunna að varast áreiti og leiðindi. Það er gott að láta þau æfa sig í því að varast hætturnar með dæmisögum. Þó að einhver sé með mynd af sér á netinu og segist vera þrettán ára stelpa, hvernig veistu að það sé rétt? Er eitthvað við samskiptin sem þeim finnst skrýtið? Af hverju ættir þú að senda viðkomandi viðkvæmar myndir af þér? Eru börnin meðvituð um hvert það gæti leitt?“

Dæmi um auglýsingu á einni af síðunum.

Hrefna telur það þjóðráð að nýta málefni líðandi stundar, líkt og þessa frétt, til að ræða við börnin um hvort þau kannist við slíkar síður og þannig tala við þau á jafningjagrundvelli í formi spjalls, ekki fyrirlestrar. Þá bendir hún einnig á að hægt sé að tilkynna síður á flestum samfélagsmiðlum ef þær eru óviðeigandi. Hún telur einnig mikilvægt að foreldrar vinni saman þegar svona mál koma upp og láti hvert annað vita.

„Við eigum að vera samfélag og hjálpa hvert öðru með þetta. Það er ekki hægt að segja að þetta sé mál foreldra eða mál skólans. Þetta er samstarfsverkefni.“

Hvert get ég leitað ef ég verð fyrir einhverju á netinu?

• Tala við foreldra
• Hringja í 1717, síma Rauða krossins
• Hafa samband við Heimili og skóla
• Tala við kennara, skólastjórnendur eða aðra skólastarfsmenn

Góð ráð af saft.is um hættur á netinu

• Mikilvægt er að gefa ekki hverjum sem er símanúmerið sitt, síst af öllu ókunnugum.
• Aldrei svara texta- eða myndskilaboðum sem ekki hefur verið óskað eftir og innihalda óviðeigandi efni.
• Sömu reglur gilda um samskipti í snjallsímum og í daglegu lífi. Einelti er aldrei ásættanlegt.
• Börn eiga ekki að vera skráð fyrir símanúmerum sínum. Númer sem skráð er á kennitölu barns kemur fram í símaskrá, sem auðveldar aðgengi að barninu.
• Samfélagsmiðlar sem bjóða upp á nafnlaus samskipti eru sérstaklega hættulegir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 17 klukkutímum

Sandkorn: Svanhildur verður útvarpsstjóri og Bjarni hættir

Sandkorn: Svanhildur verður útvarpsstjóri og Bjarni hættir
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Talsverðar líkur á rafmagnstruflunum í dag – Rafmagnslaust á Dalvík síðan í morgun

Talsverðar líkur á rafmagnstruflunum í dag – Rafmagnslaust á Dalvík síðan í morgun
Fréttir
Í gær

Á höfuðborgarsvæðinu virðist veðrið hafa gert mestan óskunda á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum

Á höfuðborgarsvæðinu virðist veðrið hafa gert mestan óskunda á Seltjarnarnesi og í Vesturbænum
Fréttir
Í gær

Hvað gerist á morgun og næstu daga? Áfram óveður eða gengur þetta niður?

Hvað gerist á morgun og næstu daga? Áfram óveður eða gengur þetta niður?