fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Réttindalaus eftir fjögur ár á Íslandi: „Gerði ég eitthvað rangt? Tók ég starfið þitt?“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Föstudaginn 12. júlí 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir innflytjendur, Purushottam Ghimire og Momo Hayashi, hafa búið á Íslandi um árabil. Þau koma bæði frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins og hefur báðum verið synjað um atvinnuleyfi og gert að yfirgefa landið. Lögfræðingurinn Hreiðar Eiríksson telur ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvernig staðið er að málum innflytjenda á Íslandi.

Purushottam Ghimire

Purushottam Ghimire, frá Nepal, hefur búið og starfað á Íslandi frá 2014. Hefur hann að jafnaði fengið atvinnu- og dvalarleyfi á grundvelli starfsmannaskorts. Hann freistaði þess að fá dvalarleyfi fyrir eiginkonu sína en rak sig þá á vegg í kerfinu. Dvalarleyfið hans fól ekki í sér rétt til fjölskyldusameiningar, svo Útlendingastofnun ráðlagði honum að sækja um leyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar. Þá gæti kona hans flutt til Íslands. Það kom honum svo í opna skjöldu þegar umsókn hans var hafnað. Hann sótti aftur um á sömu forsendum og áður, en var aftur hafnað því starfið sem hann hugðist taka að sér hafði ekki verið auglýst á EES-svæðinu. EES-búar hefðu forgang og auk þess væri ekki hægt að veita atvinnuleyfi á grundvelli starfsmannaskorts þegar atvinnuleysi á Íslandi væri jafn mikið og nú.

Puru er því atvinnulaus og er mál hans hjá lögmanni í áfrýjunarferli. Til að ná endum saman sótti hann um atvinnuleysisbætur, en var greint frá því að hann hefði ekki rétt til þeirra því atvinnuleyfi hans væri tímabundið. Var honum bent á að leita á náðir sveitarfélags síns, sem hann og gerði. Umsókn hans um fjárhagsaðstoð var samþykkt og allt virtist í lagi. Þar til lögmaður hans greindi honum frá því að með því að þiggja fjárhagsaðstoð, gæti hann glatað rétti sínum til varanlegs dvalarleyfis. Hann hefur búið á Íslandi í fimm ár og greitt sína skatta. Nú er hann peningalaus, með engin réttindi og á yfir höfði sér að vera rekinn úr landi.

„Ég er í hræðilegri stöðu og fæ hvergi aðstoð. Til hvers að borga skatta hér í fjölda ára? Ef ég væri hælisleitandi þá er ég viss um að ég væri í betri stöðu, þeir fá allavega húsnæði og framfærslu. Ég vil bara vinna og eiga ofan í mig, en ég má það ekki og fæ enga aðstoð. Þetta er hryllileg staða. Ég þarf að borga lögmanni mínum til að geta áfrýjað málinu mínu, hvernig á ég að borga ef ég má ekki þiggja fjárhagsaðstoð?“

Momo Hayashi

Mynd: Skjáskot af Facebook

Momo Hayashi, frá Japan, flutti til Íslands fyrir fjórum árum. Hún nam íslensku í háskóla, stofnaði fyrirtæki og starfaði á ferðaskrifstofu. Hún sótti um atvinnuleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar í desember, meðmæli vinnuveitanda fylgdu með þar sem sérfræðiþekking hennar var tilgreind; góð þekking á tungumálum þar á meðal íslensku og japönsku, og mikil þekking á asískri menningu. Leyfinu var hafnað á þeim grundvelli að innan EES-svæðisins væri hægt að finna einstaklinga með sömu sérfræðiþekkingu sem ættu forgang í starfið. Var Momo þá ráðlagt að sækja um á grundvelli skorts á starfsfólki.

„Ég prófaði það en síðan hafnaði Vinnumálastofnun umsókninni aftur vegna þess að það eru margir Íslendingar atvinnulausir. […] Ég hringdi vikulega í Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun til að spyrja hvernig gengi með dvalarleyfið, en þau sögðu mér í símanum alltaf að það væri í vinnslu og allt liti vel út. Sjö mánuðum síðar, allt í einu: nei, það gengur ekki af því að þú ert ekki evrópsk og vegna atvinnuástandsins. Af hverju var þá umsókn mín móttekin?  Af hverju sögðu þau að það gengi vel? Mig langar að spyrja ykkur. Gerði ég eitthvað rangt? Tók ég starfið þitt? Ætti ég að biðja einhverja Íslendinga að giftast mér og gerast húsmóðir? Eða ætti ég fara til míns „heima“lands?“

Hreiðar Eiríksson: 

Blaðamaður hafði samband við Hreiðar Eiríksson, lögfræðing og fyrrverandi forstöðumann leyfasviðs Útlendingastofnunar. Hann segir að víða sé pottur brotinn í málum innflytjenda á Íslandi.

„Ég hef aðeins verið að aðstoða innflytjendur sem eiga í vandræðum með kerfið. Mér finnst þetta vera að aukast, eins og þetta horfir við mér. Þegar eitthvað kemur upp á um grundvöll dvalarleyfis, eins og þegar fólk missir vinnuna eða lendir í vandræðum varðandi formið, þá er eins og það sé þekkingarleysi á kerfinu og stjórnsýslunni sem er að valda þeim erfiðleikum.“

Ófullnægjandi upplýsingar

Hreiðar segir að útlendingar sem leiti til stjórnvalda, sé það Útlendingastofnun eða aðrir, þá fái þeir oft ófullnægjandi eða misvísandi leiðbeiningar og lendi svo í ógöngum þegar þeir reyni að fara eftir þeim. „Fólk er jafnvel komið í brottvísunarferli því það fer einhvern veginn út af réttu spori bara við að fara að leiðbeiningum stjórnvalds.“ Í tilfelli Purushottam til dæmis telur Hreiðar að bæði Útlendingastofnun og Reykjavíkurborg hefðu átt að upplýsa hann um að réttarstaða hans í dvalarleyfismálum gæti breyst við að þiggja fjárhagsaðstoð. „Til að uppfylla leiðbeiningarskyldu sína í góðri trú, verður að mínu mati, að ganga alla leið og upplýsa aðila um hvernig réttarstaða manna getur breyst við að fara tiltekna leið. Það er skylda stjórnvaldsins. Stjórnsýslumeðferð mála er hugsuð þannig að viðkomandi eigi ekki að þurfa að ráða sér lögmann til að gæta hagsmuna sinna, heldur á stjórnvald að gæta þess að einstaklingur hafi allar þær upplýsingar sem hann þarf til að geta áttað sig á rétti sínum. Sérstaklega ber þeim að gæta þess þegar ljóst er að viðkomandi á erfitt með að skilja stöðuna, eins og til dæmis þegar upplýsingarnar eru hreinlega ekki aðgengilegar á þeirra tungumáli.“

Sífellt fleiri lenda í vandræðum

Hreiðar segir að innflytjendur hafi samband við hann í viku hverri í leit að aðstoð. „Út af þeirri stöðu sem það er komið í allt í einu, að því er mér finnst, algerlega af tilefnislausu út af einhverri harðneskju í kerfinu.“ Útlendingastofnun gefur sér sex mánaða svigrúm til að afgreiða umsóknir sem henni berast. Þetta segir Hreiðar að sé ámælisvert. Aftur á móti býðst útlendingum að greiða tugi þúsunda fyrir flýtimeðferð og styttist biðin þá niður í mánuð. „Ef það er hægt að afgreiða það í flýtimeðferð þá hlýtur að vera hægt að afgreiða það á eðlilegum tíma. Það á ekki að vera hægt að kaupa sig fram fyrir aðra í röðinni. Fyrir utan það að þegar einn kaupir sig fram fyrir annan, þá þarf hinn að bíða lengur. Ég hef nú satt að segja bara mjög miklar áhyggjur af því á hvaða vegferð menn eru með þessi innflytjendamál almennt. Framkvæmdin á þessum lögum er mér töluvert undrunarefni.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi

Málinu sem klauf kirkju aðventista vísað frá – Lambafell og Litla-Sandfell flutt til sementsgerðar í Þýskalandi
Fréttir
Í gær

Japanar óttast fall Úkraínu og krísu í Asíu ef stuðnings Bandaríkjanna nýtur ekki við

Japanar óttast fall Úkraínu og krísu í Asíu ef stuðnings Bandaríkjanna nýtur ekki við
Fréttir
Í gær

Ragnheiður ánægð að hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið

Ragnheiður ánægð að hafa hætt viðskiptum við fyrirtækið
Fréttir
Í gær

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí

Áfengisneysla á uppleið á Íslandi en niðurleið í Evrópu – Íslendingar fara oft á fyllerí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jóhann á flótta undan réttvísinni – Ákærður fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis en mætir ekki fyrir dóm

Jóhann á flótta undan réttvísinni – Ákærður fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis en mætir ekki fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heiða neitaði að spila lag með Hallbirni Hjartarsyni – „Næsti hlustandi sem náði inn öskraði á mig“

Heiða neitaði að spila lag með Hallbirni Hjartarsyni – „Næsti hlustandi sem náði inn öskraði á mig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Með varanlegan taugaskaða eftir að hann var skorinn upp á Landspítala við ófullnægjandi lýsingu

Með varanlegan taugaskaða eftir að hann var skorinn upp á Landspítala við ófullnægjandi lýsingu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Starfsfólk hetjur sem eigi hrós skilið – „Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni“

Starfsfólk hetjur sem eigi hrós skilið – „Ég á varla til orð til að lýsa aðdáun minni“