fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Borghildur átti í áralangri forræðisdeilu við bandarískan barnsföður – Fékk morðhótanir: „Það hræddi mig virkilega“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 22. júní 2019 09:00

Borghildur Guðmundsdóttir lítur yfir farinn veg. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta hefur litað allt okkar líf og mun gera að eilífu. Ég og börnin mín vorum allt annað fólk fyrir þetta. Við erum í dag, að mér finnst, miklu betra fólk. Ég hefði ekki viljað sleppa þessari reynslu, þó hún hafi haft í för með sér gífurlegan andlegan kostnað,“ segir Borghildur Guðmundsdóttir, ávallt kölluð Bogga. Bogga vakti athygli fjölmiðla hér heima og vestan hafs fyrir rúmum áratug þegar hatrömm forræðisdeila hennar við bandarískan barnsföður hófst. Í þrjú og hálft ár barðist Bogga fyrir sonum sínum tveimur, Brian og Andy, bæði fyrir dómstólum á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Örlögin leiddu þau saman

Bogga kynntist bandaríska hermanninum, Richard Colby Busching, sem í daglegu tali er kallaður Colby, árið 1998. Þau hittust fyrst á Íslandi, nánar tiltekið á skemmtistaðnum Dubliner í miðbæ Reykjavíkur. Í raun má segja að örlögin hafi leitt Boggu og Colby saman því Bogga ætlaði alls ekkert að fara inn á þennan bar þetta kalda kvöld í marsmánuði. Hún ætlaði bara heim, en vinkona hennar talaði hana til og svo fór að Bogga rak inn nefið og var kynnt fyrir bandarískum vinum vinkonunnar. Í þessum vinahópi var Colby. Bogga var alls ekki að leita að ástinni en fann hana algjörlega óvænt í örmum Colbys. Herinn kallaði en turtildúfurnar gátu ekki hugsað sér að vera aðskilin. Því gengu Bogga og Colby í það heilaga í september árið 1998 og stuttu síðar varð Bogga ólétt af eldri syni þeirra, Brian, sem verður tvítugur á þessu ári. Í kjölfarið fluttu þau til Bandaríkjanna, Þýskalands og svo aftur til Bandaríkjanna. Yngri sonur Boggu og Colbys, Andy, fæddist síðan í lok árs 2004.

Borghildur hefur komið sér vel fyrir á Kársnesinu í Kópavogi. Mynd: Eyþór Árnason

Colby var sendur í herþjónustu til Íraks og varð aldrei samur eftir það, eins og alþekkt er meðal hermanna sem berjast í stríði. Hann kom til baka breyttur maður – uppstökkur, áhugalaus og skapstór. Ekki bætti úr skák að líf Boggu sem eiginkonu hermanns var ekki dans á rósum. Hún var að mestu ein með börnin, flutti oft á milli staða vegna vinnu Colby og náði því illa að festa rætur. Colby byrjaði einnig að sýna Boggu hliðar á sér sem hún hafði aldrei séð áður. Hann eyddi umfram efni, laug að henni og var farinn að sýna af sér ofbeldishegðun. Kornið sem fyllti mælinn var þegar Bogga komst að því að Colby hafði búið sér til MySpace-síðu þar sem hann sagðist vera einhleypur og virtist vera kominn í einhvers konar samband við aðra konu. Hjónabandi þeirra Boggu og Colbys lauk loks árið 2007. Við skilnaðinn ákváðu þau í sameiningu að Bogga myndi hugsa um börnin. Því var það sem fylgdi á eftir eins og blaut tuska í andlitið.

Snemma árs 2008, þegar Bogga var nýlent í Bandaríkjunum eftir jólafrí á Íslandi og á leiðinni til að fá drengina sína í fangið eftir dvöl þeirra hjá ömmu sinni og afa yfir hátíðirnar, hringdi Colby í hana. Hann óð áfram að hennar sögn, sagðist ætla að hafa af henni allt – þar á meðal drengina. Í óðagoti, alein í landi þar sem hún hafði aldrei almennilega fest rætur, ákvað Bogga að fljúga með drengina sína til Íslands til að finna öruggt skjól. Í framhaldinu fór fram löng og ströng forræðisdeila, fyrst fyrir íslenskum dómstólum og síðan fyrir bandarískum, sem endaði með fullnaðarsigri Boggu árið 2011. Bogga leitaði heim til Íslands því hún átti möguleika á gjafsókn hér heima til að heyja þessa baráttu um forræðið. Íslenskir dómstólar dæmdu hana hins vegar til að snúa aftur til Bandaríkjanna, án dvalar- og atvinnuleyfis. Þar átti hún að verja sitt mál. Með hjálp góðs fólks náði hún að safna nægum pening til að ráða bandarískan lögfræðing sem að lokum vann málið fyrir hana.

Áfallastreituröskun á háu stigi

Í dag hefur Bogga komið sér vel fyrir á Kársnesinu í Kópavogi. Auk Andy og Brian á hún son úr fyrra samband, hann Gumma, sem er uppkominn og býr í Finnlandi. Andy og Brian búa hjá henni og sambýlismanni hennar, Eyþóri Österby. Hann á sjálfur þrjú börn og saman hafa þau náð að skapa sér gott líf saman síðustu ár. DV fylgdist vel með forræðisdeilu Boggu á sínum tíma og var það undirritaður blaðamaður sem skrifaði einna mest um hana. Á þessum áratug sem liðinn er hefur Bogga lítið breyst á yfirborðinu. Það er ansi stutt í húmorinn, hún er ákveðin, liggur ekki á skoðunum sínum en tekur jafnframt á móti blaðamanni með mikilli hlýju og kærleika. Það sem hefur breyst undir yfirborðinu er síðan önnur saga. Sú Bogga sem blaðamaður kynntist fyrir öllum þessum árum óð áfram, algjörlega einbeitt í sinni baráttu, lét ekkert stöðva sig og náði oft varla andanum – svo mikið var að gerast í höfðinu á henni. Bogga er í dag umlukin ró. En hún játar það fúslega að þessi barátta og allt sem henni fylgdi tók sinn toll.

Ein af umfjöllununum um mál Boggu í DV á sínum tíma.

„Ég er með áfallastreituröskun á frekar háu stigi, sem ég mun kljást við að eilífu. En ég hef lært að takast á við hana, og það vel. Ég hef farið á fullt af námskeiðum og talaði mikið við sálfræðinga. Brian þjáist af miklum kvíða sem hann gerði ekki áður. Hann þolir illa áreiti. Hvað varðar Andy þá hefur hann blessunarlega svolítið sloppið. Hann var lítið að pæla í því að það væri eitthvað athugavert í gangi. Svo lengi sem ég var nálægt þá var allt í góðu. Hann var svo ungur en Brian var á viðkvæmum aldri,“ segir Bogga. Hún sjálf fær einnig regulega kvíðaköst ef eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hún vill hafa allt í röð og reglu í sínu lífi í dag. Hún vill ekki rugga bátnum, af ótta við að stíga ofan á vitlausar tær sem gæti komið af stað álíka atburðarrás og hún gekk í gegnum fyrir áratug.

„Ég fæ oft að heyra að ég sé skeptísk,“ segir Bogga og brosir. „Ég hef óskaplega lítinn áhuga á að kynnast nýju fólki. Mér finnst það erfitt. Ég vil í raun ekki að neitt ruggi bátnum sem ég er á í dag því þetta er algjör draumabátur. Svo eru það allar þessar tengingar í daglega lífinu sem geta komið mér úr jafnvægi. Það versta við áfallastreituröskun er að það er aldrei eitthvað eitt sem kemur út frá einstaka atburði eða hlut sem kemur mér úr jafnvægi. Ef ég til dæmis sé eitthvað varðandi Bandaríkin þá sé ég Kentucky og þá sé ég Wedgewood Court og þá sé ég dómsmálið. Ef ég fæ kvíðakast þá veit ég að það tekur mig um það bil 45 mínútur að komast út úr því aftur. Kvíðaköstin hafa meiri áhrif á líkamann en hugann. Ég er algjörlega skýr í kollinum á meðan á kastinu stendur en kroppurinn iðar allur og skelfur. En þetta er normið mitt í dag og mér gengur sjúklega vel að takast á við þetta. Það er búið að taka gríðarlega mikið á að læra á ástandið og hvað það þýðir og hvernig þetta virkar,“ segir Bogga og bætir við að hún hafi tekið margt jákvætt úr þessari reynslu, þó ótrúlegt megi virðast.

„Ég hugsa ennþá mikið um þetta, en ekkert endilega á neikvæðan hátt. Ég hugsa líka mikið á jákvæðan hátt um þetta. Ég held að þetta sé flottur skóli. Ef við skoðum til dæmis heimili mitt núna að þá hendi ég engu. Þegar maður er búinn að missa allt þá tekur maður ástfóstri við allt. Ég er samt enginn safnari,“ segir hún og hlær. „En heimili mitt er algjörlega heilagt. Ég hleypi ekki hverjum sem er hérna inn.“

„Það var ólíklegasta fólk sem hvarf“

Eins og áður segir var mikið fjallað um mál Boggu í fjölmiðlum, bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum. Margir vinir og ættingjar Boggu lögðu mikið á sig til að hjálpa henni á meðan aðrir létu sig hverfa. Maður veit hverjir vinir manns eru þegar að áfall dynur yfir, eins og margir þekkja.

„Vinir hurfu. Ég spáði mikið í því og það gerði mig hrygga. Maður þarf að hafa haldreipi þegar maður lendir í svona og það skiptir máli að þú getir haldið í það. Það gerir svona lagað svo mikið erfiðara þegar þú telur fyrir víst að það sé stoð þarna fyrir þig, þú ferð og teygir þig í hana og hún gufar upp. Það var ólíklegasta fólk sem hvarf og ólíklegasta fólk sem kom í staðinn. Þeim sem hurfu á þessum tíma hefur ekki verið boðið til baka. Það er meðvituð ákvörðun og ég er mjög sátt við hana í dag. Tími okkar allra er ótrúlega dýrmætur og það er dýrmætt að lenda í svona og sjá í hverja og hvað tíma manns er best eytt. Ég er fegin þessari reynslu fyrir þá þekkingu. Ég kynntist fleira fólki og margir voru jafngóðir og hinir sem hurfu, og flestir betri,“ segir Bogga.

Morðhótanir frá Íslandi og Bandaríkjunum

Þar sem mál hennar var svo áberandi á síðum blaðanna og á öldum ljósvakans lenti hún einnig í illu umtali.

„Fyrst um sinn fór það í taugarnar á mér að ókunnugt fólk væri að skrifa ljóta hluti um mig í athugasemdakerfunum. Og ég ákvað að svara þessu fólki. En síðan rann það upp fyrir mér að ég var bara sögupersóna í þeirra augum. Þau voru ekki raunverulega að tala um mig, heldur sögupersónuna. Þegar ég gerði mér grein fyrir því lét ég þetta sem vind um eyru þjóta. Það sem særði mig hins vegar var þegar að fólk sem ég þekkti eða var skylt mér talaði illa um mig. Mér fannst orð þeirra fá byr undir báða vængi því þau þekktu mig. Þessu fólki svaraði ég í bókinni minni og það hefur allt beðið mig innilega afsökunar á hvernig það hagaði sér. Mér þykir vænt um það,“ segir Bogga. Illt umtal hennar nánustu var ekki það eina sem kom henni úr jafnvægi á þessum tíma. „Ég fékk morðhótanir, bæði frá Bandaríkjunum og Íslandi,“ segir Bogga grafalvarleg. „Ein þeirra var frá manni sem ég þekkti sem sagði mér að passa mig og hafa augun í hnakkanum ef ég væri á gangi ein einhvers staðar. Það hræddi mig virkilega.“

Viðtalið við Boggu má lesa í heild sinni í nýjasta DV:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni