fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Vilhjálmur lætur Hörð heyra það: „Staðfestir einbeittan vilja sinn til að slátra Elkem á einni nóttu“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 12. júní 2019 13:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Erum við Akurnesingar ekki búin að þurfa að þola nóg vegna aðgerðaleysis stjórnvalda þegar kemur að atvinnuöryggi í okkar heimabyggð?“

Að þessu spyr Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ. Eins og greint var frá á dögunum komst gerðardómur að því að Elkem, sem rekur verksmiðju á Grundartanga, þyrfti að greiða Landsvirkjun hærra verð fyrir rafmagn en það hefur hingað til gert.

Taldi Vilhjálmur að Landsvirkjun væri með því að „slátra“ fyrirtækjum viljandi til að réttlæta lagningu sæstrengs í framtíðinni, vegna þeirrar umfram orku sem skapaðist.

Sjá nánar: Vilhjálmur segir Landsvirkjun „slátra“ fyrirtækjum markvisst til að réttlæta sæstreng

Hefur áhyggjur af atvinnuöryggi á svæðinu

Vilhjálmur hefur áhyggjur af atvinnuöryggi og lífsviðurværi sinna félagsmanna sem starfa á Grundartanga.

„Ástæður fyrir þessum áhyggjum mínum eru nýir „raforkusamningar“ sem bæði Norðurál og Elkem Ísland hafa nánast verið þvingaðir til að gera að undanförnu í skjóli einokunar Landsvirkjunar á raforkumarkaði. Reyndar er rétt að geta þess að forsvarsmenn Elkem reyndu ítrekað á liðnum árum að ná samningum við LV en án árangurs og því endaði sá ágreiningur fyrir gerðardómi,“ segir Vilhjálmur í pistli sem hann birti á Facebook-síðu sinni.

Vilhjálmur bendir á að raforkusamningarnir til Elkem og Norðuráls kalli á umtalsverða hækkun á raforku. Telur Vilhjálmur að hækkunin til Elkem muni nema um 1,1 til 1,5 milljörðum króna á ári. Þessi hækkun muni þurrka upp framlegð fyrirtækisins.

„Rétt er að geta þess að meðaltalshagnaður Elkem frá árinu 1998 er um 500 milljónir á ári og því sér hvert mannsbarn að raforkuhækkun sem nemur á bilinu 1,1 til 1,5 milljarð hjá Elkem getur ekki gengið upp. Þetta þýðir ekki nema eitt Elkem mun ekki lifa af þetta ofbeldi og græðgisvæðingu af hálfu forstjóra Landsvirkjunar af og það er því miður staðreynd.“

Hefði viljað hærra verð

Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunar, var í viðtali um málið á vef Morgunblaðsins í gær. Þar sagði hann að hækkunin á raforkuverði hefði verið til komin vegna þess að verðið hafi verið mjög lágt fyrir. Landsvirkjun hefði raunar viljað fá hærra verð en gerðardómur ákvarðaði. Þá sagðist hann ekki telja að nýja verðið muni ógna lífsviðurværi starfsmanna, enda raforkuverðið samkeppnishæft. Þá vísaði hann því á bug að hækkunin nú tengist framtíðaráformum um lagningu sæstrengs til Íslands.

Vilhjálmur segir að Hörður hafi „staðfest einbeittan brotavilja sinn til að slátra Elkem á einni nóttu“  þegar hann sagði að Landsvirkjun hefði viljað fá hærra verð en gerðardómur kvað upp.

„Afleiðingar þessa hækkunar á raforkuverði hjá Elkem eru nú þegar byrjaðar að sjást m.a. í því að fyrirtækið hefur ákveðið að slökkva einum af þremur ofnum í tæpa þrjá mánuði. Þessu til viðbótar liggur fyrir að fyrirtækið mun fækka starfsfólki um tæp 10% sem gert verður með náttúrulegri fækkun.

Ég spyr hvar eru stjórnvöld? Og hvar er samkeppniseftirlitið í ljósi þess að Landsvirkjun mataði gerðardóm á upplýsingum um hvaða raforkuverð þeir vildu fá og hvaða raforkuverð þeir hafa verið að semja um við önnur fyrirtæki.“

Fyrirtækinu muni blæða út

Vilhjálmur segir að afleiðing hækkunar á raforkuverði til Elkem verði þau að fyrirtækinu blæði hægt og rólega út. Vilhjálmur endar svo pistilinn á þessum orðum:

„Já ég spyr enn og aftur hvar eru stjórnvöld og ætla þau að leyfa Landsvirkjun að slátra lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna í orkufrekum iðnaði og setja lífsafkomu sveitarfélaga í fullkomið uppnám? Munum að Landsvirkjun skilaði 14 milljörðum í hagnað á síðasta ári og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs er hagnaður 5,8 milljarðar og á síðustu árum hefur hagnaðurinn hjá LV verið um eða yfir 10 milljarðar á ári.

Að lokum vil ég segja þetta: Erum við Akurnesingar ekki búin að þurfa að þola nóg vegna aðgerðaleysis stjórnvalda þegar kemur að atvinnuöryggi í okkar heimabyggð? En eins og allir vita er búið að rústa sjávarútveginum á Akranesi eftir að HB Grandi skellti í lás og flutti allar aflaheimildir í burtu. En árið 1998 störfuðu um 400 manns hjá útgerðarfyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni og fyrirtækið greiddi um 2 milljarða í laun og nú er allt farið.

Ætla stjórnvöld aftur að horfa aðgerðalaus á hitt fjöreggið okkar Skagamanna mölbrotna hægt og bítandi vegna græðisvæðingar forstjóra Landsvirkjunar?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala